Sú ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar að reka ríkissjóð með miklu minni afgangi á næsta ári en áður stóð til eykur líkurnar á að Seðlabankinn hækki vexti á næstu misserum. Hagfræðingar sem Stundin hefur rætt við eru sammála um að íslenskt efnahagslíf sé ekki á þeim stað í hagsveiflunni að tímabært eða skynsamlegt sé að draga úr aðhaldsstigi ríkisfjármálanna. Þótt hagvöxtur sé minni en hann var í fyrra og toppi hagsveiflunnar hafi líklega verið náð sé enn umtalsverð spenna í þjóðarbúskapnum og kjarasamningar framundan.
Fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans frá því í nóvember gefur tilefni til að ætla að brugðist yrði við slökun á aðhaldi ríkisfjármála með vaxtahækkunum. Bent er á að þegar hafi verið slakað á aðhaldsstiginu og að „peningalegt aðhald þyrfti að vera meira en ella ef enn frekar slaknaði á aðhaldsstigi ríkisfjármála á næstu árum“.
Þetta er í takt við skilaboð sem fjármálaráð, sérfræðingahópur skipaður af fjármálaráðherra, beindi til fyrri ríkisstjórnar við gerð fjármálastefnu og fjármálaáætlunar fyrr á þessu ári. Í álitsgerð þess kom fram að rekstur ríkissjóðs væri í járnum ef litið væri til afkomu af reglulegum rekstri og hún leiðrétt fyrir hagsveiflunni. Ein meginástæða þess er sú að fyrri ríkisstjórnir hafa veikt tekjustofna hins opinbera með skattalækkunum samhliða stórfelldri aukningu útgjalda, meðal annars hinni frægu skuldaleiðréttingu, meðan uppgangurinn í efnahagslífinu var hvað mestur.
Slík þensluhvetjandi hagstjórnarstefna var gagnrýnd harðlega af OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á árunum fyrir bankahrun. Í rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna var svo tekið undir þá gagnrýni og rakið hvílíkur glannaskapur það var að ráðast í skattalækkanir á þenslutímum.
Einskiptistekjur nýttar til útgjaldaaukningar
Af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins má ráða að áfram eigi að viðhafa hagstjórn þar sem er kynt undir þenslu og algert ójafnvægi ríkir milli tekjuöflunar og útgjaldaaukningar hins opinbera. Þannig eru boðaðar skattalækkanir upp á tugi milljarða en að sama skapi gefin fyrirheit um eflingu samneyslunnar og auknar fjárveitingar til ótal málaflokka.
Athugasemdir