Kynferðislegri áreitni hef ég ekki lent í en karlkyns nemendur hafa bloggað niðurlægjandi athugasemdir um mig, einn karlkyns nemandi í grunnnámi og móðir hans heimtuðu afsökunarbeiðni frá mér því þeim þótti ég ekki hafa komið rétt fram við unga manninn, sem vildi hærri einkunn á prófi. Tveir valdamiklir einstaklingar í stjórnsýslu háskólans neyddu mig til að biðjast afsökunar á fundi með námsmanninum og móður hans. Annar herrann hafði séð um um að plata mig á fundinn með símtali daginn áður. Ég var öll af vilja gerð að settla óánægju en fundurinn breyttist í martröð fyrir mig þegar ég þurfti að hlusta á móður nemandans, sem var reyndur grunnskólakennari, messa yfir mér um hvernig kennsluhættir væru réttir og vísaði í reynslu sína af því að kenna litlum börnum. Hún var hatursfull, talaði niður til mín fyrir framan syni sínum, sem hún þurfti að vernda fyrir þessum óhæfa kennara, og háu herrarnir bara fylgdust með. Svo heimtuðu herrarnir báðir að ég bæði afsökunar á kennsluháttum mínum, verkefnum sem ég léti nemendur vinna og á því að hafa úskýrt fyrir nemandanum að hann gæti ekki fengið hærri einkunn og hvers vegna. Herrarnir sögðu að ef ég bæðist ekki afsökunar nú þegar þá gæti þessi fundur og mál ekki tekið enda og málið myndi næst fara fyrir háskólaráð sem væri mjög alvarlegt fyrir mig. Þetta voru mjög niðurlægjandi aðstæður og mikil hótun sem fólst í því sem var sagt. Maður skyldi halda að ég hafi brotið verulega á nemandanum eða gert eitthvað meiri háttar af mér, en svo var alls ekki, og mínir kollegar voru sammála mér í því. Ég baðst afsökunar á endanum, trúði varla mínum eyrum, það gerði ég til þess að losna úr þessum mjög óþægilegu aðstæðum, það var greinilega engin önnur leið, öll horfðu á mig og biðu eftir afsökunarbeiðninni, sem ég neitaði fyrst. Þegar ég gekk frá þessum fundi var ég algjörlega niðurbrotin, gekk á háskólasvæðinu í átt að skrifstofu minni grátandi, gat ekki hamið mig, og þegar ég sagði frá þessu í minni deild, þótt svo ég gæti varla talað, þá voru engin ráð um hvernig ætti að höndla svona mál. Mér var síðar bent á að spyrja viðkomandi herra hvort þeir hefðu komið svona fram við karlkennara. Annar herrann kom nokkrum dögum síðar á skrifstofu mína að biðjast afsökunar á þessu "ambushi" en réttlætti það með því að þessi mæðgin væru mjög erfið og þetta hefði verið eina leiðin til að stoppa þau af. Ég hef aldrei verið sátt við þessa framkomu þessara háu herra í stjórnsýslunni og tel að hér hafi verið brotið á mér, allir í deildinni minni voru sammála því, en það var ekkert sem nokkur maður taldi sig geta gert, engin ráð, engar leiðir, engin vernd, enginn formlegur stuðningur. Ég hafði þá verið í fullu starfi hjá skólanum sennilega í 4 ár. Ég lenti í svipuðu máli nýlega en karlmenn komu ekki að því máli, eingöngu konur, og ég tel það megi rekja til óskýrrar stjórnsýslu og úrræðaleysis, klaufaskapar og þekkingarleysis, en valdbeiting var það, ekki spurning. Ég hef síðustu ár beðið rektor um að stofna stöðu „umboðsmanns kennara“, sem mér þykir ekki veita af,en ekkert hefur orðið af því, veit ekki hvort af því verður nokkurn tímann.
Athugasemdir