Þeir sem kjósa að haga seglum að mestu eftir vindi í lífsins ólgusjó og fylgja fjöldanum (og foringjanum) lenda sjaldnast upp á kant við samferðafólkið. Þeir þurfa reyndar á stundum að láta ýmislegt yfir sig ganga og jafnvel að kyngja eigin sannfæringu, en á móti kemur sú staðreynd að stundum er slíku leiðitömu fólki umbunað fyrir fylgispektina með vegtyllum af ýmsu tagi.
Svo eru hinir sem kjósa að fylgja sannfæringu sinni, jafnvel þó hún sé á skjön við vilja meirihlutans (og foringjans). Það þarf sterk bein til að gera slíkt, enda er oft hart sótt að viðkomandi og enda slíkar væringar stundum með útskúfun, eins og dæmin sanna, sem er synd, því að vinur er sá er til vamms segir.
Undanfarna daga höfum við fylgst með tveimur þingmönnum VG, þeim Rósu Björk Brynjólfsdóttur og Andrési Inga Jónssyni, fylgja þeirri sannfæringu sinni að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki á vetur setjandi vegna spillingar og subbuskapar. Sú skoðun var reyndar útbreidd meðal þingmanna VG fyrir síðustu kosningar, enda voru þeir óhræddir við að flíka henni, í ræðu og riti.
Svo gerðust þau undur og stórmerki eftir kosningarnar (kannski var þetta ákveðið fyrir kosningar, eins og bent hefur verið á) að formaður VG, Katrín Jakobsdóttir, ákvað að leita eftir ríkisstjórnarsamstarfi við flokkinn sem VG fordæmdi fyrir kosningarnar, flokkinn sem ataði hana meiri auri í kosningabaráttunni en dæmi eru um í íslenzkri stjórnmálasögu. Níu þingmenn VG kusu að fylgja leiðtoga sínum, væntanlega í samræmi við eigin sannfæringu, en Rósa Björk og Andrés Ingi voru á öðru máli.
Sagan segir okkur að nú muni fara áhugaverðir tímar í hönd í þingflokki VG. Í bók sinni, Villikettirnir og vegferð VG - Frá væntingum til vonbrigða, fjallar Jón Torfason ítarlega um örlög þeirra sem fóru gegn vilja flokksforystunnar í stuttri en átakamikilli sögu flokksins. Þar segir m.a.:
„Síðan bréf mitt [sic] í júlí ofbeldi /nauðung. Hef tekið afstöðu þegar allar upplýsingar hafa legið á borðinu og mun gera það aftur með nákvæmlega sama hætti og ég hef gert sem lögmaður í hartnær 30 ár. Get ekki annað enda hefur mér verið haldið utan við samn[inga] á öllum stigum og ekki sóst eftir þekkingu minni ... Þoli ekki fleiri hótanir ... Vil lýðræðisleg og þingræðisleg vinnubrögð.“
(Tilvitnun Jóns í dagbók Atla Gíslasonar. Bls. 156)
„Fleiri þingmenn, sem ekki vildu dansa möglunarlaust eftir pípu formannsins [Steingríms J. Sigfússonar], fengu að kenna á viðlíka fálæti af hans hendi. Raunar voru dæmi um eineltistilburði í fleiri flokkum, þótt ástandið hafi líklega verið einna verst í þingflokki Vinstri grænna.“
(Umfjöllun Jóns um framkomu Steingríms gagnvart Lilju Mósesdóttur. Bls. 162-163)
Lögum samkvæmt ber að leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrst allra mála á haustþingi ár hvert og ber að afgreiða það fyrir áramót. Gaman verður að sjá hvort Rósa Björk og Andrés Ingi sjái sér fært að styðja það. Í því samhengi er áhugavert að rifja upp viðbrögð flokksforystu VG þegar Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason sátu hjá við lokaafgreiðzlu fjárlaga 16. desember 2010:
Viðbrögð forystu VG voru líka harkaleg og formaðurinn lýsti því yfir að þremenningarnir gætu ekki setið áfram í þingflokknum „eins og ekkert hefði í skorist“. (Bls. 181) Formaðurinn, Steingrímur Jóhann, taldi nauðsynlegt að fá einhvers konar stuðningsyfirlýsingu við ríkisstjórnina og lagði fram skjal til samþykktar sem var ætlað, að skilningi þremenninganna, að múlbinda þau og knýja til að lýsa yfir fullum og skilyrðislausum stuðningi við ríkisstjórnina til framtíðar. Þau gátu illa sætt sig við þetta og raunar var umrætt plagg dregið til baka er leið á fundinn. Lilja Mósesdóttir lýsti yfir „að fullyrðingar um að hjáseta okkar við fjárlagafrumvarpið sé vantraustsyfirlýsing á ríkisstjórnina er komin frá þeim en ekki okkur“. (Bls. 183-184)
Það óþarft að tíunda nánar þessa sögu af innanmeinum VG, enda muna þeir sem fylgdust með þessari atburðaráðs að Atli og Lilja sögðu sig úr Þingflokknum, Ásmundur Einar gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur var bolað út með samstilltu átaki.
Eftir stendur spurningin: Hvað verður um Rósu Björk og Andrés Inga?
Athugasemdir