Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, segist ekki telja hneykslismál Sjálfstæðisflokksins sambærileg við það sem gagnrýnt hefur verið hjá öðrum flokkum þótt hann hafi brugðist við athugasemd um valdníðslu Sjálfstæðisflokksins með því að telja upp mistök og galla annarra stjórnmálaflokka.
Hann sakar Stundina um útúrsnúning og tilbúning vegna fréttar sem birtist í dag, laugardag. Í Facebook-færslu sem Ari birti í kvöld segir hann að með upptalningu sinni á mistökum og göllum annarra stjórnmálaflokka en Sjálfstæðisflokksins hafi hann ekki verið að leggja mat á „innbyrðis ágæti eða ekki-ágæti flokkanna“. Hann skrifar: „Ástæða þess að ég taldi upp fyrrgreinda (sjá fréttina enn á ný) romsu um afstöðu manna til allra flokka er sú að í umræðum á netinu hafa sumir þá afstöðu að ekki megi ræða hvað sameinar og sundrar flokkum þegar kemur að stjórnarsamvinnu - nema við suma flokka af því að þeir eru á einhvern hátt "í lagi”.“
Í frétt Stundarinnar var bæði vitnað í orð Ara Trausta og ummæli Katrínar Jakobsdóttur, formanns flokksins, sem hún lét falla í Harmageddon eftir að hún var spurð hvort hvort hún óttaðist ekki að tilhneiging Sjálfstæðisflokksins til frændhygli kynni að flækjast fyrir í hugsanlegu stjórnarsamstarfi við flokkinn. „Ég held að það séu vandamál í öllum flokkum,“ svaraði Katrín.
Hér má lesa frétt Stundarinnar í heild.
Hér að neðan má svo sjá lesa athugasemd Ara Trausta sem hann hefur birt á Facebook-síðu sinni:
Í tilefni af dapurlegum útúrsnúningi Stundarinnar - sjá vefsíðu þeirra. Það er alrangt að ég telji það sem Sjálfstæðisflokkur hefur verið gagnrýndur fyrir sé sambærilegt við það sem hefur verið gagnrýnt hjá öðrum flokkum. Ef lesendur lesa færsluna mína úr frétt Stundarinnar er augljóst að þarna er um upptalningu að ræða á því sem tína má saman úr máli manna allt aftur að hruninu. Ekkert mat er lagt á innbyrðis ágæti eða ekki-ágæti flokkanna. Um Sjálfstæðisflokkinn skrifa ég aðeins - endurtek aðeins: "Og D-ið, um hann má skrifa margt og ófagurt". Og orðið daðra nota ég í lok færslunar vegna þess að hún er m.a. svar við þeim orðrum að VG daðri við íhaldið. Við "döðrum" sem sagt við alla og erum nýbúin að "daðra" við þrjá flokka. Það er hreinn tilbúningur Stundarinnar að ég telji að "hneykslismál Sjálfstæðisflokksins séu ekki til fyrirstöðu". Það hef ég hvergi sagt né skrifað. Af hverju er því þá haldið fram? Ástæða þess að ég taldi upp fyrrgreinda (sjá fréttina enn á ný) romsu um afstöðu manna til allra flokka er sú að í umræðum á netinu hafa sumir þá afstöðu að ekki megi ræða hvað sameinar og sundrar flokkum þegar kemur að stjórnarsamvinnu - nema við suma flokka af því að þeir eru á einhvern hátt "í lagi". Fyrir kosningar kom skýrt fram að VG lokaði fyrirfram ekki dyrum á aðra flokka - ekki fremur en hinir flokkarnir. Þau orð efnum við, annað væri óheiðarlegt. Óformlegar eða formlegar viðræður við flokka er aðeins viðurkenning á að þeir eru fyrir á þingi og verði að skoðast í þessu tiltekna samhengi við stjórnarmyndun. Henni er heldur ekki lokið fyrr en allir til þess bærir aðilar tilvonandi samstarfsflokka hafa samþykkt gjörningin. Viðræður VG, Framsóknar og Sjáflstæðisflokks er enn fjarri því endamarki og enginn getur sagt til um hver endirinn verður. Orð eins og sori, óheiðarleiki, seld samviska, skoðanaleysi, sjálfsmorðsleiðangur eða önnur viðlíka eiga hér ekki við.
Athugasemdir