Írski söngvarinn Bono var ekki á Íslandi síðustu daga, þótt margar fréttir hefðu birst í ýmsum fjölmiðlum um veru hans hér. Íslenskir fjölmiðlar hafa í dag verið að leiðrétta fréttir þessa efnis.
„Hann keypti sér steinselju og súrdeigsbagettu. Hann var reyndar með aðra bagettu með sér þegar hann mætti til okkar en vildi greinilega aðra,“ sagði viðmælandi Vísis í fyrstu frétt af mörgum um komu Bonos til Íslands á föstudaginn í síðustu viku.
„Bono verslaði í Frú Laugu“ var frétt á mbl.is 3. nóvember. „Afgreiðslukonan var alveg grunlaus en henni þótti gleraugun kunnugleg,“ sagði viðmælandi Morgunblaðsins.
Bono fór í gæludýrabúð, var önnur frétt á mbl.is. „Hann kom hérna í dag. En hann keypti ekki neitt,“ sagði viðmælandi Morgunblaðsins.

Bono keypti steinselju og súrdeigsbagettu í Frú Laugu, var endursögn Nútímans.is af ferðum hans hérlendis.
Bono fór á Prikið, sagði í frétt Vísis.is. Birt var paparazzi mynd af honum því til sönnunar, þar sem hann sást sitja eins og hver annar óáreittur með bjór.
Nú er komið á daginn að Bono var ekki á Íslandi. Allar fréttirnar áttu við um tvífara hans, Serbinn Pavel Sfera. Hann spilaði meðal annars á gítar í Bankastræti fyrir hóp fólks. Vísir.is, sem sagði fyrstu frétt af málinu, hefur nú greint frá misskilningnum í fréttinni „Tvífari Bono dregur Íslendinga á asnaeyrunum“.
Bono varði hins vegar áramótunum á Íslandi 2013. Eða svo var sagt.
Athugasemdir