„Nú, hann er í flokknum,” sagði forviða formaður sjálfstæðisfélagsins í þorpinu fyrir vestan. Hann stóð andspænis fokreiðri, ungri konu, sem var rukkuð um félagsgjaldið í sjálfstæðisfélaginu og kannaðist ekki við að hafa óskað eftir aðild að þessum félagsskap.
Reglurnar í þorpinu voru skýrar. Ef mennirnir voru í flokknum þá voru konurnar og börnin sjálfkrafa skráð inn þegar. En þarna kom babb í bátinn. Ég hafði náð í eiginkonu að sunnan og hún féllst á að setjast að í þorpinu. Vandinn var hins vegar sá að hún hallaðist til vinstri og vildi jöfnuð fremur en frelsi til að græða. Hún var sósíalisti, ef ekki kommúnisti. Þetta spurðist út og þorpið stóð á öndinni. Góður og gegn kapítalisti hafði flutt inn kommúnista og svaf hjá honum.
Sjálfur var ég ungur gefinn flokknum. Afi og pabbi höfðu verið þar. Og trúaður á frelsi og einkaframtak var ég sáttur. Flokkurinn var og er með þá yfirlýstu stefnu að standa vörð um frelsi einstaklingsins og leyfa honum að þrífast. Það er ekki í stefnu flokksins að raða sínu fólki á ríkisjötuna og krækja sér í bitlinga fyrir frændur og vini. En stundum er sagt að menn prediki eitt en praktíseri annað. Forystumennirnir hafa gjarnan staðið í viðskiptum en flestir farið á hausinn í einkaframtaki sínu og drifið sig að ríkisjötunni.
Konan mín fékk sínu fram. Hún var afskráð úr félaginu sem varð til þess að pískrað var í þorpinu um að ég væri ekki húsbóndi á mínu heimili. Síðan eru liðnir margir áratugir. Ég sef ennþá hjá kommanum. Tvisvar var ég skráður úr flokknum, óspurður, og jafnoft krafist þess að fara inn aftur. En ég hef kosið það sem mér sýnist. Enn bærist með mér sú von að heiðarlegur leiðtogi komist til valda og rétti af kúrsinn. En líklega er það borin von. Nútíminn er trunta. Einkaframtakið býr í aflandinu.
Athugasemdir