Popúlistaflokkar sækja nú í sig veðrið víða um hinn vestræna heim, en hafa enn sem komið er ekki gert sig gildandi í íslenskum stjórnmálum. Eða hvað? Til eru mismunandi gerðir af popúlisma, en allar þessar hreyfingar eiga það sameiginlegt að vísa vantrausti á hefðbundin stjórnmál og stjórnmálaelítur og boða breytta tíma. Á þetta við bæði um vinstri-, hægri- og þjóðernispopúlista, þó svo að þeir séu að öðru leyti á öndverðum meiði.
Þjóðernispopúlisminn hlaut fyrst brautargengi hérlendis með Frjálslynda flokknum í miðju góðærinu og átti nokkru fylgi að fagna, en flokkurinn hafði að mestu þurrkast út fyrir hrun. Sá flokkur sem hæst ber þjóðerniskyndilinn þessa dagana, Íslenska þjóðfylkingin svonefnda, hefur átt erfitt uppdráttar. Hún klofnaði fyrir kosningar í fyrra og kom ekki manni á þing, en hefur nú neyðst til að draga framboð sitt til baka sökum undirskriftafölsunar á stuðningsmannalistum.
Hulda Þórisdóttir, dósent í stjórnmálasálfræði, hefur rannsakað kosningahegðun Íslendinga undanfarinn áratug, þar á meðal viðhorf þeirra til innflytjenda. Kynnti hún niðurstöður sínar á málþingi Siðmenntar í mánuðinum. Kom þar í ljós að andúð á útlendingum var talsvert meiri fyrir tíu árum en í dag, jafnvel þótt umræða á samfélagsmiðlum kunni að gefa annað í skyn. Í þá daga skiptist þessi andúð nokkuð jafnt á milli hópa, en í dag má helst sjá hana hjá eldra fólki og ómenntuðu. Því má jafnvel segja að nokkrar kynslóðabreytingar séu að gera vart við sig, og að jafnvel þótt þessi hópur sé háværari er hann ekki endilega stærri. Eigi að síður hafa um 20 prósent kjósenda í dag áhyggjur af innflytjendum og hefur það mælanleg áhrif á kosningahegðun þeirra. Eftir nokkru er því að slægjast fyrir stjórnmálaflokka sem kynnu að fara þessa leið, enda er lausafylgi í íslenskum stjórnmálum í dag mikið.
Innkoma SDG
Framsóknarflokkurinn undir stjórn Sigmundar Davíðs daðraði vissulega við þjóðernispopúlisma. Sú bylgja sem reis gegn Icesave-samningunum var að mörgu leyti popúlísk (beint gegn elítum og menntafólki), en Sigmundi tókst að nýta sér hana til að afla Framsóknarflokknum kosningasigurs árið 2013. Enn sterkari þjóðernisundirtón var að finna í framboði Framsóknar- og flugvallarvina í sveitarstjórnarkosningum 2014. Lausafylgið hristist hins vegar fljótt af flokknum og undir stjórn Sigurðar Inga hefur hann færst aftur inn að miðju. Sigurður hefur fengið talsvert lof fyrir hjá þeim sem kjósa flokkinn ekki, en svo undarlega vill til að Sigmundur og nýr flokkur hans er nú með meira fylgi en hans gamli flokkur. Flokkur fólksins hefur líka tekið þjóðernispopúlismann upp á sína arma, en virðist vera að tapa fylgi til popúlistans Sigmundar. Segir þetta okkur kannski eitthvað um hvað persónuleikar og ekki bara stefnur geta skipt máli í stjórnmálum.
„Kjósendur Sjálfstæðisflokksins, eins og lesendur Moggans, verða stöðugt eldri og fækkar þeim hægt og rólega.“
Allt eru þetta slæmar fréttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þótt hann hafi misst mikið fylgi frá því fyrir hrun er hann enn stærsti flokkur landsins, en á í mestu erfiðleikum með að finna samstarfsflokka. Á velmektarárum sínum gat hann valið úr vonbiðlum, Framsóknarmenn og Alþýðumenn, Samfylking og meira að segja einu sinni sósíalistar gerðu hosur sínar grænar fyrir honum. En nú vill enginn vera memm. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins, eins og lesendur Moggans, verða stöðugt eldri og fækkar þeim hægt og rólega. Þó enn sem komið er sé þetta fólkið sem duglegast er að mæta á kjörstað er framtíð hægrimanna ekki björt. En Sjálfstæðisflokkurinn er langt í frá eini íhaldsflokkurinn sem glímir við þennan vanda.
Bretland og Bandaríkin á valdi popúlista
Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum horfir upp á að þjóðin verði stöðugt fjölbreyttari, en kjósendur hans eru að mestu leyti einsleitir, eldri og hvítir. Til lengri tíma litið hlýtur fylgi hans að fara minnkandi, sem er dauðadómur í tveggja flokka kerfi. En hægrimenn þar í landi gera þó ýmislegt annað en að spila golf og skoða fasteignaverð í Flórída. Skömmu eftir hrun spratt hin svokallaða Teboðshreyfing fram, sem talaði til fólks sem áður hafði haft lítinn áhuga á stjórnmálum og hafði talsverð áhrif á þingkosningar þar í landi. Síðan kom jú popúlistinn Donald Trump, sem dró flokkinn á eftir sér nauðugan viljugan í Hvíta húsið. Tókst þannig íhaldsmönnum þar í landi, og nánast þvert á eigin óskir, að vinna æðsta embættið með því að nýta sér kraft popúlistahreyfinga. Og þó að margir repúblikanar í dag séu hálfuppgefnir á honum eiga þeir erfitt með að snúast gegn honum og missa þannig popúlistafylgi hans.
„Þetta sýnir vanda þess fyrir hefðbundna hægriflokka að reiða sig á popúlistahreyfingar.“
Í Bretlandi tókst David Cameron í kosningunum 2015 að vinna hreinan meirihluta fyrir íhaldsflokk sinn í fyrsta sinn í næstum 20 ár. Gerði hann þetta meðal annars með því að sækja fylgi til UKIP-hreyfingar Nigel Farage og lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í Evrópusambandinu. Þetta snerist hins vegar fljótlega í höndunum á Cameron, atkvæðagreiðslan fór á annan hátt en vonast var til og sagði hann af sér í kjölfarið. Hreini meirihlutinn glataðist síðan í kosningum sumarið 2017. Þetta sýnir vanda þess fyrir hefðbundna hægriflokka að reiða sig á popúlistahreyfingar.
Annars konar popúlistar
Í Frakklandi hefur annars konar popúlisti komist til valda og bar hann sigur af þjóðernispopúlistahreyfingu Marine Le Pen. Macron Frakklandsforseti er alþjóðasinnaður og vill, ólíkt þeim Farage og Trump, leggja áherslu á alþjóðastofnanir og alþjóðlega verslun. Macron er hægripopúlisti en er í raun á öndverðum meiði við þjóðernispopúlista í flestu; vill minni ríkisafskipti og er hlynntur alþjóðavæðingu. Íslensku popúlistaflokkarnir Viðreisn og Björt framtíð eru af svipuðum meiði. Þjóðernispopúlistar vilja hins vegar loka sig af frá umheiminum og nota ríkið til að jafna kjörin fyrir þjóðina, og mættu því ef til vill kallast þjóðernissósíalistar.
Á Norðurlöndunum hafa menn sveiflast á milli þessara stefna. Popúlistaflokkar spruttu fyrst fram í Danmörku og Noregi snemma á 8. áratugnum og vildu þá lækka skatta, en báðir þessir flokkar nefndust „Fremskritt(d)spartiet“. Á seinni hluta 9. áratugarins breyttu þeir hins vegar um stefnu og vildu nú efla velferðarkerfið, en þó ekki fyrir alla. Innflytjendur áttu ekki að njóta góðs af því og ótti við múslima fór að verða áberandi. Fremskrittspartiet norska er nú í ríkisstjórn ásamt íhaldsflokknum Höyre, en hið danska Fremskridsparti hefur svo gott sem þurrkast út. Fyrrverandi meðlimurinn Pia Kjærsgaard stofnaði í staðinn Dansk Folkeparti, sem hélt svipuðum hugmyndum á lofti og er orðinn næststærsti flokkur landsins. Hann hefur enn ekki komist í ríkisstjórn en veitti ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen hlutleysi og hefur haft mikil áhrif á stjórnmálaumræðu í landinu.
Í Svíþjóð breytti nýnasistaflokkurinn Svergiedemokraterna um ímynd á 10. áratugnum, fór að notast við blóm sem einkennismerki sitt frekar en kyndla og er nú orðinn næststærsti flokkur landsins. Íhaldsflokkurinn Moderaterna var um tíma með þreifingar um að starfa með þeim, en galt fyrir vikið afhroð í kosningum og formaðurinn sagði af sér. Í Finnlandi eru þjóðernispopúlistarnir Sannir Finnar næststærsti flokkurinn og eru í ríkisstjórn.
Það vekur kannski athygli að vinstri popúlistar hafa lítið látið á sér kræla í þessum löndum, en eru áberandi í Suður-Evrópu, svo sem á Spáni og Grikklandi. Þó má kenna Bernie Sanders við vinstripopúlisma í Bandaríkjunum, og jafnvel Jeremy Corbyn í Bretlandi, þótt hann eigi langa þingsetu að baki. Hvorugur þeirra hefur þó enn sem komið er komist til valda. Á Íslandi mætti hugsanlega setja Pírata, Samstöðu Lilju Mósesdóttur (ef einhver man enn eftir henni) og Besta flokk Jóns Gnarr í þennan hóp.
Mun hægrið rísa á ný?
Ný hægristjórn virtist útilokuð fyrir síðustu kosningar þar til Viðreisn birtist skyndilega og veitti slíkri nauman meirihluta. En nú, þar sem bæði hún og Björt framtíð eru að þurrkast út, er erfitt að sjá nýja hægristjórn í spilunum í bili. Bjarni Benediktsson á mikið undir að fá að leiða næstu ríkisstjórn, því ef það tekst ekki er stjórnmálaferli hans að öllum líkindum lokið. Hæpið er að flokkurinn leggi aftur í eyðimerkurgöngu undir hans stjórn og það er næstum orðið tímabært að fara að velta því fyrir sér hver taki við. Guðlaugur Þór gæti orðið einhvers konar millibilsleiðtogi, þó er hann varla líklegur til að sópa til sín atkvæðum, rétt eins og Guðni Ágústsson leiddi Framsókn á milli hins gamla veldis Halldórs Ásgrímssonar og hins nýja leiðtoga Sigmundar Davíðs. Óvæntir hlutir gætu þó gerst, sem dæmi má nefna að Þorgerður Katrín gæti brátt orðið formaður í leit að flokki og Sjálfstæðismenn flokkur í leit að formanni.
„Hægrihliðin í íslenskum stjórnmálum í dag er í molum. En einmitt það gæti gefið einhverjum sóknarfæri sem ekki bauðst þegar hægrimenn voru sameinaðir undir hatti Sjálfstæðisflokksins.“
Þar sem ólíklegt er að Framsókn nái fyrri styrk í fyrirsjáanlegri framtíð, og hæpið að nýir hægripopúlistar á borð við Viðreisn birtist í bráð, er því líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi fyrr eða síðar að reiða sig á hægripopúlista vilji hann komast aftur til valda. Þeir kjósendur eru nú dreifðir á milli Flokks fólksins, Sigmundar Davíðs og þeirra örfáu sem enn eru í Þjóðfylkingunni. En takist að mynda sterkan þjóðernispopúlistaflokk gæti hann náð allt að því 20 prósenta fylgi, og þá fer hægristjórn að verða möguleg á ný. En reyndin af samstarfi þjóðernispopúlista og íhaldsmanna er oftast sú að annar aðilinn gleypir hinn á endanum, svo ekki er víst að slíkt samstarf yrði farsælt til lengdar.
Hægrihliðin í íslenskum stjórnmálum í dag er í molum. En einmitt það gæti gefið einhverjum sóknarfæri sem ekki bauðst þegar hægrimenn voru sameinaðir undir hatti Sjálfstæðisflokksins. Niðurlæging hans gæti fært þróunina hérlendis nær því sem gerst hefur í nágrannalöndunum. Ekki er þá víst að Íslendingar standist freistingar þjóðernispopúlismans jafn vel í framtíðinni og þeir hafa gert hingað til.
Athugasemdir