Haustið 2016 voru haldnar kosningar - sem drógust í meira en hálft ár frá því að Panamaskandall felldi Wintris-greifann og N1-prinsinn úr Garðabænum.
Sá dráttur varð að mínu mati vegna óskýranlegrar linku af hálfu þáverandi þingmanna Samfylkingar og Pírata og tilrauna VG til að þóknast Sjálfstæðisflokknum.
Í þeim kosningum fékk SF sína útreið verðskuldað, Píratar lentu langt undir sínum björtu væntingum og VG sat stórmóðgað yfir að verða ekki með þá yfirburðastöðu sem þeir höfðu látið sig dreyma um. Viðreisn keypti sig inn á kosningamarkaðinn með margfölduðum framlögum valdamanna í fjármálalífi og Björt framtíð tórði í gegn um kosningar – að mínu mati eingöngu af því að áhrifamiklir skríbentar og álitsgjafar breyttu dauðvona pólitísku hræi í hálfgindings einsmálsflokk sem var á móti „búvörusamningum 2016“.
Benedikt Jóhannesson náði Óttari Proppé undir hendina og hélt honum þétt við hlið í gegn um allar samræður um mögulegar stjórnarmyndanir. Það samband hélt alla leið þangað til að fjármálaráðherrann Benedikt var búinn að afhjúpa algera niðurlægingu á heilbrigðisráðherranum Óttari í fjárlagafrumvarpi vegna 2018. Um sama leyti komst upp að pólitíska fjölskylda þeirra Bjarna og Benedikts hélt leyndahjúpi um aðild Benedikts Sveinssonar (ráðherraföður og náfrænda B Jóhannessonar) að uppreist æru eins af þeim umdeildu brotamönnum sem fjallað hefur verið um nýlega.
Já en hvað með VG?
Við allar samræður um stjórnarmyndun í nóvember og desember 2016 – kom á daginn að Katrín Jakobsdóttir skorti pólitískan þrótt til að koma heil og ákveðin til leiks – og þess vegna er eðlilegt að menn efist um að VG hafi í raun viljað nokkuð annað en þá samstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn sem búið var að leggja drög að þarna í skammdeginu. Katrín þorði að lokum ekki að setjast í þá stjórn nema Samfylking með sínum uppfærða varaformanni mundi skrifa upp á það með henni.
„VG vildi ekki með neinu móti stilla Bjarna Ben upp í neinni vörn á Alþingi þessa daga sem þingið átti að starfa.“
Við þingrofið 2017 vekur það athygli að VG greiðir fyrir því með öllum mögulegum ráðum að Bjarni Ben geti áfram setið í forsætisráðuneytinu og stjórnað sinni kosningabaráttu þaðan - þrátt fyrir að stjórnin hafi einmitt fallið vegna vantrausts á hann sjálfan. Það vekur líka athygli að þinglokin eru samin þannig að það þóknast Sjálfstæðisflokknum sérlega vel - - og VG vildi ekki með neinu móti stilla Bjarna Ben upp í neinni vörn á Alþingi þessa daga sem þingið átti að starfa.
Fráleitust er þó afstaða Vg til þess að vilja ekki standa að tillögu um að breyta stjórnarskrá og þá einungis þannig að heimilt verði að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili með samþykki Alþingis og með samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og taka vel í; já “VEL Í” – fabúleringar auðgreifanna og umboðsmanna þeirra að breyta stjórnarskrá á 12 árum.
Með þessari afstöðu VG og pólítísku kraftaleysi formannsins - og því að ganga síðan „óbundin til kosninga“ – grefur flokkurinn undan trúverðuleika stjórnmálanna. Þetta spillir líka fyrir eðlilegum væntingum umbótasinna og sósíalista um að hér verði mögulegt að reisa trausta umbótastjórn sem vinnur að lýðræði, félagslegu réttæti og endurreisn velferðar og almennrar menntunar.
Mikil er ábyrgð þeirra sem urðu þess valdandi að Sjálfstæðisflokkurinn rekur kosningabaráttu sína úr Stjórnarráðinu. Flokkurinn sá virðir í engu að stjórnin var orðin umboðslaus og er „starfsstjórn“ þótt sú skilgreining sé í raun ekki til samkvæmt gildandi stjórnskipan. Ráðherrarnir skipa nefndir, flytja þjóðvegi og leggja upp kynningar eða tillögur eins og þeir sem valdið hafa.
Ótrúlegt aldeilis hreint.
Athugasemdir