Í byrjun árs var ég með nokkuð skothelt plan fyrir 2017. Það leit út fyrir að allt myndi ganga samkvæmt áætlun, það er, ég myndi halda áfram námi mínu og ná öllum markmiðum tengdum því. Einnig ætlaði ég að halda áfram að skrifa pistla fyrir Stundina. Kannski vinna aðeins smá aukavinnu meðfram fullu námi. Fara í jóga nokkrum sinnum í viku. Sinna fjölskyldunni og vinum. Njóta gæðastunda með einkasyninum. Iðka áhugamálin mín. Rækta innri mann. Hugleiða.
Hljómar eins og gott plan. En fullkomlega óraunhæft. Það er engin leið til þess að gera þetta allt saman vel og vera 100 prósent á öllum vígstöðvum. En raunhæft taldi ég þetta vera, enda allir í kringum mig með svipað marga bolta á lofti, ef ekki bara nokkuð fleiri. Flestir kannast við það að vera alltaf með símann við hendina, alltaf til taks ef vinnan kallar, alltaf að svara tölvupóstum, helst jafnóðum og þeir berast, vinna yfirvinnu og vera svo dugleg að segja fólki frá því hversu mikil yfirvinna var unnin, hversu lítið var sofið, hversu mörg verkefni séu framundan, hversu lítill tími er til að borða, sofa, elska, hreyfa sig og bara vera til.
„Annaðhvort drepum við dugnaðinn eða dugnaðurinn drepur okkur.“
Dugnaður af þeirri stærðargráðu sem við höfum vanist og teljum vera raunhæfan á ekki að vera til fyrirmyndar. Það er ekki heilbrigt samfélag sem er fífldjarft í dugnaðinum, dugnaðinum sem rænir lífsgæðum frá okkur sjálfum og okkar nánustu. Dugnaðinum sem gerir okkur veik, fjarlæg, tímalaus og étur okkur að innan, bókstaflega, þar sem líffærin eru á fullu í yfirvinnu við að halda þessari streituvél gangandi.
Ég vil ekki horfa upp á fleiri manneskjur verða veikar af dugnaðinum, ég vil samfélag þar sem við stærum okkur af því að geta unnið minna en afkastað meiru.
Kjósum samfélag þar sem við fáum tækifæri til þess að ná aftur heilsu eftir að hafa nándar nærri því drepið okkur með dugnaðinum. Annaðhvort drepum við dugnaðinn eða dugnaðurinn drepur okkur.
Athugasemdir