Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

„Ekki bara dropi í hafið heldur blaut tuska í andlitið á þessu fólki“

Að­eins 60 millj­ón­um verð­ur var­ið til verk­efna geð­heil­brigð­isáætl­un­ar þrátt fyr­ir að Ótt­arr Proppé hafi ít­rek­að tal­að um geð­heil­brigði sem áherslu­mál sitt í rík­is­stjórn. Gunn­ar Hrafn Jóns­son, þing­mað­ur Pírata, seg­ir fjár­hæð­ina móðg­un við geð­sjúka og að­stand­end­ur þeirra.

„Ekki bara dropi í hafið heldur blaut tuska í andlitið á þessu fólki“

Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, segir að tillaga ríkisstjórnarinnar um að einungis 60 milljón krónum verði varið til framkvæmdar aðgerðaáætlunar um geðheilbrigðismál, sem Alþingi samþykkti í formi þingsályktunar í fyrra, sé móðgun við fólk sem glímir við geðsjúkdóma og aðstandendur þeirra.

„Margumtöluð geðheilbrigðisáætlun stjórmvalda var vonarglæta fyrir marga sem eru í bráðri lífshættu eða eiga ástvini í þeirri stöðu. En 60 milljónir… það er ekki bara dropi í hafið heldur blaut tuska í andlitið á þessu fólki,“ segir Gunnar í samtali við Stundina. „Þetta dugar ekki einu sinni til að koma til móts við ört vaxandi þörf, hvað þá að það bæti ástand þeirra sem nú þegar eru búnir að velkjast um í kerfinu árum og áratugum saman.“ 

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að hann leggi mikla áherslu á geðheilbrigðismál. Við myndun ríkisstjórnarinnar í janúar gagnrýndi hann að málaflokkurinn hefði setið á hakanumog sagðist ætla að bæta úr því. Þegar fluttar voru fréttir af því að tveir menn hefðu svipt sig lífi inni á geðdeild síðla sumars steig Óttarr fram og talaði um mikilvægi þess að Íslendingar gerðu betur í geðheilbrigðismálum. Tiltók hann sérstaklega að verja þyrfti auknu fjármagni til málaflokksins. 

Fjárlagafrumvarp ársins 2018 var kynnt í gærmorgun. Í kynningarefni sem birt var á vef stjórnarráðsins er „geðvandi og sjúkrahúsþjónusta“ efst á lista yfir helstu áherslumál ríkisstjórnarinnar á fjárlagaárinu 2018. 

Þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið og greinargerð þess kemur í ljós að einungis er gert ráð fyrir 60 milljóna framlagi frá hinu opinbera til að standa undir þeim fjölmörgu verkefnum sem Alþingi samþykkti í formi ítarlegrar þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum síðasta vor. 

Með aukningunni, sem heyrir undir heilsugæslu í fjárlögum, er ætlunin að „fjölga sálfræðingum, geðheilsuteymum og meðferðarúrræðum við geðvanda“. Þá er lítillega minnst á geðheilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar í umfjöllun um fjárlagaliðinn lýðheilsa, forvarnir og eftirlit. Í þeim málaflokki er hins vegar ekki boðuð aukning fjárframlaga heldur dragast þau saman um 41,3 milljónir frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum.

Í kafla greinargerðar fjárlagafrumvarpsins um sérhæfða sjúkrahússþjónustu kemur fram að starfsfólki á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans verði fjölgað „í samræmi við stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum“.

Ekki er tekið fram hve miklum fjármunum eigi að verja til fjölgunarinnar en eins og Stundin greindi frá í gær munu útgjöld hins opinbera vegna þjónustu og reksturs Landspítalans aðeins aukast um 597 milljónir sem er langt undir því sem stjórnendur spítalans hafa fullyrt að þurfi til að tryggja viðunandi þjónustu við sjúklinga. Að því er fram kemur í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu munu framlög til geðheilbrigðis- þjónustu allt í allt aukast um 105 milljónir króna í frumvarpinu.

Gunnar Hrafn Jónsson er sá þingmaður sem hefur tjáð sig hvað mest um geðheilbrigðismál, en sjálfur hefur hann glímt við geðsjúkdóma og fjallað opinskátt um reynslu sína af þeim.

Hann bendir á að samkvæmt nýlegri könnun landlæknisembættisins fari ástandið í geðheilbrigðismálum ungmenna versnandi.

„Málaflokkurinn hefur verið vanræktur með skipulögðum hætti áratugum saman vegna rótgróinna fordóma gegn heilasjúkdómum. Ef 48 manns, aðallega ungmenni, myndu farast úr fuglaflensu á einu ári yrði engu til sparað í átaki til að bjarga mannslífum. Þegar slíkur fjöldi deyr vegna heilasjúkdóma er sett fram margra ára áætlun sem mætir ekki einu sinni brýnustu þörfum,“ segir Gunnar.

Gunnar Hrafn segist ekki hafa fengið upplýsingar um hvernig nákvæmlega standi til að fjárfesta í málaflokknum samkvæmt geðheilbrigðisáætlun. „Ég vona að það vanti eitthvað mikið inn í þessa útreikninga. Það virðist allavega ljóst að þetta á að dragast í mörg ár sem er óforsvaranlegt. Ef framlögin verða ekki margfölduð mun það kosta fjölda mannslífa á næstu árum og skapa dýrt langtímavandamál í formi tapaðs mannauðs sem endar jafnvel á örorku fyrir lífstíð,“ segir hann. „Með öðrum orðum, það kostar bæði mannslíf og peninga á morgun að vanrækja vandamálið í dag.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

ACD-ríkisstjórnin

Unnu náið með hæsta­réttar­dómurunum meðan þeir dæmdu Arn­fríðar­mál
Fréttir

Unnu ná­ið með hæsta­rétt­ar­dómur­un­um með­an þeir dæmdu Arn­fríð­ar­mál

Arn­fríð­ur Ein­ars­dótt­ir lands­rétt­ar­dóm­ari starf­aði sjálf sem vara­dóm­ari með tveim­ur þeirra hæsta­rétt­ar­dóm­ara sem tóku af­stöðu um hæfi henn­ar og bærni til að kveða upp dóma á sama tíma og mál­ið var til með­ferð­ar. Hinir þrír sem vald­ir voru í Lands­rétt í trássi við stjórn­sýslu­lög störf­uðu einnig ná­ið með hæsta­rétt­ar­dómur­un­um með­an Hæstirétt­ur tók fyr­ir mál sem hefði getað sett dóm­ara­störf fjór­menn­ing­anna í upp­nám.

Mest lesið

Gætu allt eins verið á hálendinu
2
ViðtalFerðamannalandið Ísland

Gætu allt eins ver­ið á há­lend­inu

Lydía Angelíka Guð­munds­dótt­ir, hjúkr­un­ar­fræð­ing­ur, sjúkra­flutn­inga­mað­ur og fé­lagi í björg­un­ar­sveit­inni Kára, seg­ir sjúkra­við­bragð í Ör­æf­um ekki í sam­ræmi við mann­fjölda. Ferða­þjón­usta þar hef­ur stór­auk­ist und­an­far­in ár. Hún seg­ir að það hægi á tím­an­um á með­an hún bíði eft­ir að­stoð. En sjúkra­bíll er í það minnsta 45 mín­út­ur á leið­inni. Færð­in geti orð­ið slík að sjúkra­bíl­ar kom­ist ekki í Ör­æf­in.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Ferðamenn hafi þrengt sér „inn í það allra helgasta“
4
ViðtalFerðamannalandið Ísland

Ferða­menn hafi þrengt sér „inn í það allra helg­asta“

Börn manns sem var jarð­að­ur frá Vík­ur­kirkju í júní segja að ís­lensk­ur rútu­bíl­stjóri hafi hleypt tug­um ferða­manna út úr rútu við kirkj­una um klukku­stund fyr­ir at­höfn. Ferða­menn hafi tek­ið mynd­ir þeg­ar kist­an var bor­in inn fyr­ir at­höfn, reynt að kom­ast inn í kirkj­una og tog­að í fán­ann sem var dreg­inn í hálfa stöng.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár