Fjölmiðlafyrirtækinu Pressunni ehf. hefur verið stefnt, ásamt DV ehf., út af samtals rúmlega 40 milljóna króna skuld við sænskt fjölmiðlafyrirtæki sem heitir NRS Media. Þetta segir lögmaður NRS Media, Hulda Rós Rúríksdóttir, aðspurð um stefnuna gegn Pressunni ehf. en aðalmeðferð fer fram í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok september.
Árangurslaust fjárnám
Hulda Rós segir að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá Pressunni og DV ehf. út af skuldinni og að málaferlin hafi því verið þrautalending eftir síendurteknar innheimtuaðgerðir. „Þessi krafa er til staðar og staða hennar í dag er um 40 milljónir króna,“ segir Hulda Rós, en um er að ræða tvö aðskilin mál gegn Pressunni annars vegar og DV ehf. hins vegar.
Málin tvö bætast við málaferli félagsins Útvarðar ehf. gegn Pressunni út af rúmlega 90 milljóna króna skuldar sem er tilkomin vegna viðskipta með hlutabréf í DV árið 2014.
Athugasemdir