Einn farsælasti tónlistarmaður Íslands, óperusöngvarinn Kristinn Sigmundsson, fékk ákúrur frá gjaldheimtumanni við salernin í tónlistarhúsinu Hörpu, vegna þess að hann tók ljósmyndir af frumlegum skiltum sem kynna salernisaðstöðuna og verðlagningu á henni.
„We don't take pictures here,“ sagði starfsmaður gjaldheimtu í salerni Hörpu við Kristinn, samkvæmt endursögn hans á Facebook. „Ég sagði honum: „It's a free country“.
„Not here,“ svaraði starfsmaðurinn, og benti aftur fyrir sig.“
Kynning á gjaldheimtu við salernin hefur verið stillt þannig fram að með skáletruðu misstóru letri stendur stórum stöfum: „Dream a little dream of WC“, og í smáu letri greint frá 300 króna gjaldi. „Hello, is it wc you're looking for“ segir í öðru skilti.
„Ég er ekki alveg viss um hvað mér á að finnast um gjaldskylduna en þessi skilti eru fyrir neðan allt. Hallærisleg að öllu leyti, og þar að auki bara á ensku. Og það í einu af helstu menningarhúsum á Íslandi. Þegar ég tók myndirnar æpti hlandkerinn á mig á vondri ensku með slavneskum hreim „We don't take pictures here.“
Miklar umræður hafa skapast um þá ákvörðun Hörpu að hefja innheimtu við salernin í húsinu. Harpa, sem notar slagorðið „Húsið þitt“, byrjaði í sumar að rukka 300 krónur fyrir hverja salernisferð. Píanóleikarinn Ingi Bjarni Skúlason sagði frá því fyrr í mánuðinum að hann hefði séð konu hafa hægðir milli bifreiða á bílastæðinu við Hörpu. „Ég horfði á það gerast! Ég hef aldrei séð annað eins!“ greindi hann frá á Facebook.
Athugasemdir