Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að ráðherrum hafi þótt óþægilegt að veita mönnum sem framið hafa gróf brot uppreist æru og þess vegna hafi málin verið lengi til afgreiðslu í ráðuneyti dómsmála. Þetta kom fram í framsögu ráðherra á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar sem stendur nú yfir. „Þetta hefur legið þungt á mörgum ráðherrum, en á endanum hefur í öllum tilvikum verið tekin sú ákvörðun að bregða ekki út af þeirri stjórnsýsluhefð sem hefur myndast,“ sagði Sigríður. Um leið tók hún skýrt fram að ábyrgðin á veitingu uppreist æru væri ekki embættismanna heldur ráðherra. „Ég veit að ráðherrum hefur fundist þungbært að afgreiða tilteknar umsóknir um að veita uppreist æru,“ sagði ráðherra. „En menn hafa líka viljað halda sig við jafnræðið og stjórnsýslureglur.
Mikil reiði blossaði upp í vor eftir að greint var frá því að kynferðisbrotamaðurinn Robert Downey hefði fengið uppreist æru og öðlast lögmannsréttindi á ný. Robert var dæmdur í þriggja ára fangelsi árið 2008 fyrir að brjóta gegn fjórum stúlkum, einni sem var fjórtán ára þegar brotin voru framin og þremur sem voru fimmtán ára. Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, lagði til við forseta Íslands þann 14. september 2016 að Robert fengi uppreist æru og óflekkað mannorð en bréfið var undirritað af Guðna Th. Jóhannessyni forseta tveimur dögum síðar og öðlaðist þá formlegt gildi. Eins og Stundin greindi frá á dögunum fékk annar kynferðisbrotamaður, Hjalti Sigurjón Hauksson, uppreist æru sama dag en hannvar dæmdur árið 2004 fyrir að hafa nauðgað stjúpdóttur sinni nær daglega frá því hún var um 5 ára gömul þar til hún var tæplega 18 ára.
Fram kom í máli Sigríðar fyrir allsherjar- og menntamálanefnd að ráðherrar á undanförnum árum hefðu verið meðvitaðir um alvarleika brota þeirra sem sóttu um uppreist æru. Þess vegna hefðu mál verið lengi til afgreiðslu. Niðurstaða lögfræðinga ráðuneytisins hefði hins vegar verið sú að ráðherrum bæri lagaleg skylda til að sæma mennina óflekkuðu mannorði.
Athugasemdir