Helgi Magnússon fjárfestir er ekki tengdur félögum sem hann á 100 prósenta eignarhlut í samkvæmt viðtekinni túlkun á ákvæði um „tengda aðila“ í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka. Þetta staðfestir Ríkisendurskoðun í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið. Út frá þessu áttu ásakanir um að Viðreisn hefði brotið lög með því að veita styrkjunum viðtöku ekki við rök að styðjast.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, sagði í gær að flokkurinn hefði stuðst við umrædda túlkun á lögunum þegar tekið var við 1,6 milljón króna fjárstyrk frá fjárfestinum og félögum sem hann á 100 prósenta hlut í á stofnári Viðreisnar, 2016. Styrkir einstaklinga og styrkir lögaðila voru metnir hvor í sínu lagi. Þannig var Helgi Magnússon sem einstaklingur ekki talinn tengjast félögum (lögaðilum) sem voru alfarið í eigu hans sjálfs.
Í svari Guðbrands Leóssonar, sérfræðings hjá Ríkisendurskoðun, við fyrirspurn sem Stundin sendi stofnuninni í gær kemur fram að á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga sé ljóst að tengsl Hofgarða ehf. og Varðbergs ehf. við Helga Magnússon falli ekki undir skilgreiningu laga um fjármál stjórnmálasamtaka á tengdum aðilum. „Verður [...] ekki séð að tengsl Helga og umræddra félaga falli undir ofangreinda skilgreiningu laganna á tengdum aðilum. Því sýnast bæði hann og bæði félögin hafa mátt styrkja Viðreisn í samræmi við ákvæði III. kafla laga nr. 162/2006,“ segir í svari stofnunarinnar.
Stundin sendi Ríkisendurskoðun fyrirspurn í gær og spurði hvort einkahlutafélög Helga teldust „tengd“ Helga samkvæmt túlkun stofnunarinnar á ákvæðum laga um fjármála stjórnmálasamtaka. Ríkisendurskoðun staðfestir að svo sé ekki. Jafnframt séu hvorki Helgi sjálfur né félög hans tengd Bláa lóninu ehf. og N1 ehf., enda séu hvorki hann né Varðberg ehf. skráð fyrir félögunum. Þá eigi Hofgarðar ehf. aðeins 6,18 prósenta hlut í Bláa lóninu og 2,24 prósenta hlut í N1, sem nægir ekki til að félögin teljist tengd samkvæmt lögunum.
Stundin spurði einnig hvort Ríkisendurskoðun teldi að lagaákvæðið „telja skal saman framlög tengdra aðila“ ætti við um mat á hámarksfjárframlagi lögaðila eða eingöngu um framsetningu í ársreikningi. Í svarinu segir: „Að mati Ríkisendurskoðunar felur ákvæði fyrst og síðast í sér leiðsögn og áréttingu á því að séu aðilar tengdir í skilningi laganna þá megi sameiginlegt framlag þeirra ekki fara fram úr hámarksframlagi sem einstökum lögaðila eða einstaklingi er heimilt að veita stjórnmálasamtökum. Aðalatriðið í þessu sambandi er eftir sem áður að tengsl aðila falli undir áðurnefnda skilgreiningu á tengdum aðilum í 5. tölul. 2. mgr. 2. gr. laganna.“
Undanfarna daga hefur Viðreisn legið undir ásökunum um að hafa brotið lög um fjármál stjórnmálasamtaka. Þannig fullyrti til dæmis Smári McCarthy, þingmaður Pírata á Facebook, að styrkveitingarnar til Viðreisnar væru ólöglegar. „Úbbs. Þetta er heldur betur ólöglegt,“ skrifaði hann og rötuðu ummælin í fréttir. Þá kallaði Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingkona Hreyfingarinnar, eftir afsögn Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, vegna málsins. Smári og Margrét byggðu ummæli sín á frétt Vísis um að Helgi og „félög honum tengd“ hefðu veitt Viðreisn 2,4 milljónir króna í styrki.
Samkvæmt svörum Ríkisendurskoðunar til Stundarinnar var þó Viðreisn á þurru landi og tók við fjárframlögum í samræmi við lögin eins og þau eru túlkuð af Ríkisendurskoðun. Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri flokksins, segir í samtali við Stundina að hún hafi fylgt leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar og verið meðvituð um þá lagatúlkun sem hér er vísað til.
Í svari við spurningu Stundarinnar um hvort Viðreisn hafi tekið við fjárframlögum í samræmi við lög segir Ríkisendurskoðun:
„Enn sem komið er hefur ekkert annað komið í ljós en að svo hafi verið. Tekið skal fram í þessu sambandi að stofnunin kýs að birta útdrátt úr ársreikningum stjórnmálasamtaka um leið og hún hefur gengið úr skugga um að þeir séu að formi til lagi og ekkert í þeim stingi í augu. Tilgangurinn með því að birta þessar upplýsingar sem fyrst er ekki síst sá að auðvelda fjölmiðlum og almenningi að rýna þær og benda á atriði, sem vekja tortryggni eða að ástæða væri að skoða sérstaklega og stuðla þannig að því að ákvæði laganna séu virt. Ef fram koma áreiðanlegar upplýsingar um að fjárframlög einstaklinga eða lögaðila til Viðreisnar séu ekki lögum samkvæmt mun stofnunin að sjálfsögðu bregðast við með viðeigandi hætti.“
Í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka eru „tengdir aðilar“ skilgreindir með eftirfarandi hætti í 2. gr.:
Lögaðilar þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.
Í 7. gr. laganna segir svo að telja skuli saman framlög tengdra aðila.
Athugasemdir