Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands sem unnið hefur að skýrslu fyrir íslenska ríkið um erlenda áhrifaþætti hrunsins undanfarin ár, varar við innflytjendum „sem láta greipar sópa um þá sjóði sem við höfum safnað í fyrir okkur sjálf“.
Hannes, sem var lengi einn mest áberandi hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins, segist „ekki ætla að una því að vera kallaður rasisti“ vegna viðvarana sinna. Hann var viðmælandi í Bítinu á Bylgjunni í morgun og lýsti þar skoðunum sínum á æskilegum og óæskilegum innflytjendum og kallaði eftir því að 24 tíma reglan yrði tekin upp hér á landi. Í reglunni felst að hælisumsóknir flóttamanna eru afgreiddar á innan við sólarhring.
„Aðkomumenn láta greipar sópa“
Hannes telur að í skoðunum sínum um æskilega og óæskilega flóttamenn og öfgamúslima felist enginn rasismi. „Ég verð að játa það að ég ætla ekki að una því þó ég láti í ljós þessar skoðanir að vera kallaður rasisti eða fasisti. Það er ekki neinn fasismi að vilja ekki fá brotamenn til landsins. Öfgamúslima sem vilja segja okkur fyrir verkum og að konur gangi í búrkum. Það er ekki neinn rasismi eða fasimi. Og það er ekki neinn rasismi eða fasismi ef ég segi að velferðarríki sem við höfum byggt upp hér í hundrað ár og veitir okkur mikið öryggi, ef það koma aðkomumenn og láta bara greipar sópa um þá sjóði sem við höfum safnað í fyrir okkur sjálf. Ísland getur ekki leyst vanda heimsins. Við erum lítil fámenn þjóð á hjara veraldar og við höfum komið okkur upp, þrátt fyrir óblíða náttúru, gott land og við eigum að halda því,“ segir Hannes.
Skilgreinir æskilega innflytjendur
Hannes er yfirlýstur frjálshyggjumaður og styður frelsi einstaklingsins. Hann er hlynntur innflutningi fólks, en með þeim skilyrðum að fólkið flokkist undir það sem hann skilgreinir sem „æskilega innflytjendur“. Hann útskýrði ekki hvernig greina væri hægt á milli æskilegra og óæskilegra innflytjenda, með öðrum hætti en viljanum til að vinna og svo öfgum í trúarbrögðum.
„En óæskilegu innflytjendurnir eru þeir sem vilja bara fara á velferðarbætur“
Hannes sagði jafnframt að sér þætti æskilegur innflutningur á fólki til dæmis felast í því að hann gæti farið til Danmerkur og unnið. „Eða ef við hefðum boðið gyðingana velkomna sem komu hérna með fullar hendur fjár og voru duglegir tónlistarmenn og iðnaðarmenn hér fyrir heimstyrjöld. Það eru æskilegu innflytjendurnir. En óæskilegu innflytjendurnir eru þeir sem vilja bara fara á velferðarbætur og vilja fara að segja okkur hvernig við eigum að hafa heiminn,“ segir Hannes. „Ég er hlynntur frjálsum innflutningi á fólki ef það er á eðlilegum forsendum, það er að segja ef það er fólk sem vill flytja inn til þess að vinna. En á síðustu tímum hafa orðið til velferðarríki þannig að fólk sem flytur til Danmerkur og Svíþjóðar fær velferðarbætur. Svo er til annað sem er öfgamúslimastefna, þannig að fólk sem að flytur til Hollands, öfgamúslimar, fara skyndilega að gefa Hollendingum fyrirskipanir. Það er svipað og ef þú leigir út á Airbnb herbergi í húsinu og það kemur einhver leigjandi og hann fer að segja þér hvernig þú átt að vera klæddur,“ segir Hannes.
Samkvæmt skýrslu OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, frá því í fyrra, er atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi afar há.
84 prósent Íslendinga eru virkir á vinnumarkaði. Í skýrslunni kemur fram að atvinnuþátttaka innflytjenda er 84 prósent. Meðaltalið í ríkjum OECD er mun lægra, eða 65 prósent.
Gagnrýnir flóttamannaiðnað
Hannes segir að um „óæskilegu flóttamennina“ sé að verða til iðnaður. „Þeir valda svo miklum erfiðleikum og það verða til svo margir starfsmenn í kringum þá og þeir eru að verja sín störf. Fólk sem er í þessum geira, lögfræðingar og ýmsir umönnunaraðilar þeir sjá þarna risastórt verkefni og atvinnutækifæri fyrir sig.“
„Þeir valda svo miklum erfiðleikum“
Þá kallaði Hannes í útvarpsþættinum eftir því að 24 tíma reglan yrði tekin upp hér á landi. „Við ættum alveg hiklaust að taka upp 24 tíma regluna. Við erum þetta friðsæla land. Alltaf þegar ég kem til þessa lands eftir dvöl erlendis verð ég feginn að vera kominn til þessa friðsæla, örugga griðastaðar og reitar á jörðinni. Það sem við verðum að gera með öllum ráðum er að halda áfram að hafa þetta sem griðastað og friðarstað í heiminum,“ segir Hannes.
Áður hefur Hannes lýst því yfir að hann vilji að konum sé bannað að bera blæjur. „Auðvitað á ekki að banna konum að bera blæjur, af því að þær séu trúartákn. Það á að banna þeim það, af því að menn eiga ekki að fá að dulbúa sig á almannafæri, því að þá geta þeir komist undan ábyrgð á verkum sínum,“ skrifaði prófessorinn á Facebook-síðu sína.
Varar við hópi ungra manna
Þá vakti Hannes sérstaka athygli á þjóðerni árásarmanna í Þýskalandi í fyrra. „Viljum við þetta á Íslandi? Takið eftir því, hvaðan árásarmennirnir eru,“ skrifaði Hannes á Facebook þar sem deildi frétt um hópárás í Köln í Þýskalandi. Fram kemur í fréttinni að borgarstjórinn hafi kallað lögregluna til neyðarfundar eftir að 80 konur í borginni tilkynntu kynferðislegar árásir og rán á nýársnótt. Haft er eftir honum að gerendur séu af arabískum og norður-afrískum uppruna.
Hannes, sem meðal annars hefur kennt stjórnmálaheimspeki við háskólann, hefur látið talsvert að sér kveða í umræðum um flóttamanna- og fjölmenningarmál. Í pistli sem Hannes birti í september varaði hann við því að Íslendingar tækju á móti „ungum, atvinnulausum, ómenntuðum og herskáum körlum, sem munda farsímann í dag, en ef til vill eitthvað verra tæki annað á morgun“. Þá hefur prófessorinn hvatt fólk til að bera saman „lista yfir gyðinga, sem hafa fengið Nóbelsverðlaun, og Araba, sem hafa fengið Nóbelsverðlaun“.
Athugasemdir