Af einhverjum ástæðum hefur það orð komist á að Brynjar Níelsson sé svo voðalega sniðugur. Hann á að vera svo hreinskiptinn og opinskár, stundum kjaftfor og jafnvel óforskammaður, í honum svolítill uppreisnarseggur en alltaf réttur og sléttur og alveg eldklár maðurinn.
Jæja já?
Mér hefur nú alltaf þótt heldur lítið til Brynjars koma síðan ég sat með honum fund um Guðmundar- og Geirfinnsmálið í Þjóðleikhúskjallaranum fyrir nokkrum árum. Þar var umræðuefnið hvort ekki væri loksins ástæða til að taka þau mál til endurskoðunar formlega í kerfinu.
Eins og venjulega þegar á reynir, þá reyndist hinn kjaftaglaði „uppreisnarseggur“ vera dyggur þjónn kerfisins í öllum sínum málflutningi og sá litla ástæðu til að hrófla við málunum.
Þá skoðun mátti hann auðvitað hafa. Verra var hins vegar það yfirlæti sem hann sýndi almennum fundargestum þegar hann gaf stærilátur í skyn að það þýddi ekkert fyrir þá að reyna að hafa skoðun á þessum flóknu málum; hann með sína menntun og reynslu vissi ævinlega miklu betur.
Þó var salurinn uppfullur af áhugamönnum um Guðmundar- og Geirfinnsmál, fólki sem var vissulega ekki allt lögfræðimenntað en hafði eytt í það mörgum árum ævi sinnar að rannsaka þessi mál, pæla í gegnum fjöll af skjölum, skýrslum og dómum – rekið áfram af hugsjónum um réttlæti og sanngirni fyrir alla, en mætti þarna hrokafullum lögfræðingi sem raunar var ofan í kaupið augljóst að hefði mun grynnri þekkingu á málinu en margir fundargestir.
Síðan á þessum fundi hef ég hneigst til að glotta kalt þegar talið berst að því hvað Brynjar Níelsson sé klár og sniðugur og heiðarlegur í málflutningi.
Samt hefði ég seint trúað því að Brynjar ætti eftir að standa í þeim sporum að virka eins og varðhundur kerfisins um barnaníðing og kynferðisglæpamann. Að sjálfsögðu ætla ég honum ekki annað en deila skoðunum okkar flestallra á viðurstyggð glæpa Róberts Árna Hreiðarssonar/Roberts Downeys en vegna þess að Robert er innan úr kerfinu, þá er eins og kerfinu renni sjálfkrafa blóðið til skyldunnar að skjóta fyrir hann skildi eftir því sem kostur er.
Þrátt fyrir allt.
Ef það er rétt sem Birgitta Jónsdóttir fullyrðir að Brynjar hafi – sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis – blekkt nefndarmenn til að samþykkja að algjör trúnaður yrði að ríkja um hina frægu „valinkunnu“ meðmælendur Roberts Downeys, þá er Brynjar nefnilega óhjákvæmilega lentur í því varðhundshlutverki sem ég nefndi áðan.
Kannski ekki um glæpamanninn sjálfan, heldur frekar þá „valinkunnu“ sem við hljótum að álykta – út frá því hve mikil áhersla er lögð á að verja þá – að séu einmitt komnir á einn eða annan hátt úr kerfinu sjálfu, þótt Birgitta hafi reyndar ekki kannast við nöfn þeirra samkvæmt því sem hún sagði á Harmageddon.
En það er einfaldlega svívirðilegt að sú ímynd skapist að formaður þingnefndar skuli hugsanlega taka raunverulega eða ímyndaða hagsmuni einhverra kerfisgúbba fram yfir þá hagsmuni þjóðarinnar að fá að vita hvernig málum er háttað í samfélaginu og ráðum ráðið.
Og grípi jafnvel til blekkinga í því skyni, ef orð Birgittu er rétt.
Maður þykist orðið ýmsu vanur um undirferlin og lygarnar sem tíðkast í íslensku valdakerfi. En að vinnumenn almennings, eins og Brynjar Níelsson er, skuli komnir í þá stöðu að jafnvel Sjálfstæðismenn eins og Gísli Marteinn Baldursson hefur að minnsta kosti til skamms tíma verið, skuli túlka gjörðir Sjálfstæðismanna svo að þeir virðist „kóa með níðingi“.
Því Brynjar er ekki einn. Hildur Sverrisdóttir, Haraldur Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson, fulltrúar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, kusu líka að bregðast skyldum sínum í nefndinni með því að flýja af fundi frekar en horfast í augu við hina „valinkunnu“. Þeim var ætlað og þeim bar skylda til að kynna sér málefni varðandi uppreist æru Roberts Downeys en þau svikust um þá skyldu.
Með Brynjar sem formann, þá var þeim kannski vorkunn. En þau svikust samt um í vinnu sinni fyrir íslenskan almenning.
Athugasemdir