Virkjun Hvalár snýst ekki um Sjálfstæðismenn, Tómas Guðbjartsson, verndunarsinna eða virkjunarsinna.
Hvalárvirkjun snýst um framtíðina.
Hvalárvirkjun snýst ekki um göngufólk í leit að innblæstri, heldur að mögulegum endalokum jarðar og útblæstri.
Lítið ljós í stærsta vandamáli mannsins.
Hvalárvirkjun er ekki aðför að óspilltu svæði, heldur lítið ljós í spilltum umhverfisheimi.
Útblástur og kolefnisspor ógna tilvist mannsins. Nýlega samþykkt Parísarsamkomulag er alþjóðleg samstaða um að ná tökum á því vandamáli sem manninum hefur ekki tekist að hefta, útblæstri. Vandamál sem m.a. stuðlar að hlýnun jarðar með ægilegum afleiðingum, ef ekkert verður að gert.
Hlýnun jarðar er stærsta vandamál heimsins í dag. Hver einasta þjóð, hver jarðarbúi er þar í ábyrgð. Þegar við brennum kolum, olíu eða öðrum sambærilegum aflgjöfum horfum við framhjá framtíðinni og angist komandi kynslóða. Líklegasta ástæðan fyrir léttlyndi okkar gagnvart þessu stærsta vandamáli mannsins er sú að líkur eru á því að okkar efnislega vera verði komin undir græna torfu, þegar ungabörn framtíðarinnar fara að þjást, vegna okkar.
„Í léttlyndu umhverfiskóma getum við því fundið okkur í „ókönnuðu“ víðerni Íslands, ósnertu auðvitað, og kjarnað sálina fyrir komandi átök vinnuvetrarins.“
Í léttlyndu umhverfiskóma getum við því fundið okkur í „ókönnuðu“ víðerni Íslands, ósnertu auðvitað, og kjarnað sálina fyrir komandi átök vinnuvetrarins. Í 100% þversögn við það sem við gefum okkur út fyrir að vera – en það er í lagi á meðan aðrir roðna af skömminni.
Uppbygging raforkukerfis Vestfjarða
Virkjun Hvalár snýst ekki um stóriðju á Vestfjörðum. Verkefnið er lykilþáttur í uppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða. Vestfirðir eru stóriðjulausir og verða það um ókomna framtíð. Hér væri hægt að minnast á olíuhreinsistöð til að þvæla aðeins málið. Það er óþarfi. Vestfirðingar eru löngu búnir að skila skömminni, og þakka fyrir reynsluna, sem einmitt hjálpar til við að halda fjórðungnum hreinum. Vestfirðingar eru umhverfisvænir, silfur umhverfisvottaðir af Earth Check og eru sem slíkir leiðandi afl í umhverfismálum sveitarfélaga á Íslandi.
Hvað er átt við þegar talað er um uppbyggingu raforkukerfis á Vestfjörðum? Vestfirðir eru ekki hringtengdir þegar kemur að raforkuflutningi, eins og vel flestir staðir landsins. Þegar byggðalínan fellur út, tekur við olíuvaraafl, sem brennir þúsundum lítra af olíu út í umhverfið. Þegar byggðalínan á Vestfjörðum gefur eftir, fer af stað keðjuverkandi umhverfisárás, sem raunverulega ógnar framtíð jarðar. Það þýðir ekki bara að heiðra Parísarsamkomulagið þegar við djöflumst í Trump. Við erum samkomulagið, og við höfum bein áhrif á það. Munum að stærsta vá mannkyns er útblástur og kolefnaspor, ekki skortur á heilun og kjörnun göngugarpa.
Þrjú umhverfisvæn byltingarskref
Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun, sem eru í nýtingarflokki, og Skúfnavatnavirkjun, eru allar fyrsta skrefið í uppbyggingarbyltingu raforkukerfis Vestfjarða. Tengivirki mun síðan rísa á Nauteyri, eða þar um kring, í Ísafjarðardjúpi. Skref tvö. Síðan hafa verið til rannsóknar í áratugi virkjanaverkefni í Súðavíkurhreppi. Nú er verkefnið hugsað sem tvær aðskildar virkjanir, Hvanneyrardalsvirkjun og síðan Skötufjarðarvirkjun. Með þessum virkjanakostum er komin raunverulegur möguleiki á að umbylta raforkukerfi Vestfjarða með hringtengingu. Skref þrjú.
Sé lesið í orð Tómasar Guðbjartssonar eru Vestfirðingar ekki þess virði að þessi þrjú skref séu tekin. Það sagði hann beint út í viðtali við mogunútvarp Rásar 1. Ég horfi á dóttur mína í dúkkó, á meðan ég skrifa þessa síðustu línu. Ég er auðvitað hlutdrægur, en er virkilega einhver ekki þess virði í augum fólks. Merkilegt.
„Ég horfi á dóttur mína í dúkkó, á meðan ég skrifa þessa síðustu línu. Ég er auðvitað hlutdrægur, en er virkilega einhver ekki þess virði í augum fólks. Merkilegt.“
Að byggja á olíuvaraafli er bæði óumhverfisvænt, óhagkvæmt og gerir búsetu og atvinnulíf að annars flokks kosti. Gerir Vestfirðinga að annars flokks kosti og skerðir möguleika og lífsgæði barna framtíðarinnar. Það er ekki valmöguleiki fyrir upplýst fólk. Það er ekki stefna sem siðuð stjórnvöld geta fylgt eftir.
Fyrir utan þessa Vestfirðinga, þarf að virkja?
Samkvæmt raforkuspá Orkustofnunar mun raforkuþörf almennings, ekki stóriðju, aukast um 100 megavött á áratug til ársins 2050. Til samanburðar þá er verður heildarafl Hvalárvirkjunarinnar 55 megavött. Í dag er þessi vöxtur ekki til í kerfinu.
Svo ætlum við að rafvæða bílaflotann samkvæmt umhverfisráðherra, frábært framtak og ábyrgt og kostar ennþá meiri raforku en spááætlun gerir ráð fyrir.
Í stuttu máli gerir framtíðin ráð fyrir margskonar lifnaðar og atvinnubreytingum, sem allar eiga það sameiginlegt að skipta út mengandi aflgjöfum fyrir umhverfisvæna raforku.
Náttúran nýtur vafans
Það er ekki sjálfsagt að virkja hálendi Íslands. Það er ekki auðveld fimma að temja perlur Íslands til nýtingar og nytja. Slíkt er með réttu óðsmanns- og þolinmóðsæði að fara fram í umræðu með hugmynd um virkjanaáform. Hvað þá að láta það raungerast. Það er gott, þannig á það að vera. Náttúran á að njóta vafans. Alltaf og í öllum tilvikum.
#natturanaadnjotavafans
Hún gerir það.
Verkefni eins og Hvalárvirkjun fara í gegnum ferli sem kallast á stofnanamáli rammaáætlun. Í því ferli fær verkefnið, eða öllu heldur náttúran, þá faglegustu meðferð sem völ er á hverju sinni. Það er hins vegar einn galli á gjöf njarðar. Þegar verkefni fær faglega meðferð, þá gildir það sama fyrir báða hópa, virkjunarsinna og virkjunarandstæðinga. Sama í hvorum hópnum maður telur sig, ræður maður ekki útkomunni. Náttúran nýtur vafans. Verkefnahópur, undir stjórn Stefáns Gíslasonar, sem stýrir vinnu rammaáætlunar er besta mögulega meðferð sem náttúran getur fengið. Stefán þessi er einmitt einn fremsti utanvegahlaupagarpur Íslands og þekkir hálendi Íslands jafn vel og aðrir þekkja sínar skurðstofur.
Hvalárvirkjun hefur gengið í gegnum rammaáætlun, gegnumlýst og þolprófuð, og niðurstaðan er sú að verkefnið er sett í nýtingarflokk. Náttúran naut og nýtur vafans.
„Ef náttúran á að njóta vafans, er Hvalarárvirkjun fyrirmynd sem við getum tileinkað okkur.“
Hvalárvirkjun snýst ekki um Sjálfstæðismenn og full kok. Hún er einfaldlega miklu mikilvægari en örmagna flokkapólitík. Hún er verkefni sem fékk nýtingarhlutverk rammaáætlunar og hlaut síðan þverpólitíska staðfestingu þingheims. Hvalárvirkjun er vel reynt verkefni innan stjórnsýslu og stjórnmála Íslands, mögulega hefur ekkert verkefni fengið jafn faglega og upplýsta meðferð.
Ef náttúran á að njóta vafans, er Hvalarárvirkjun fyrirmynd sem við getum tileinkað okkur.
Vestfirðingar eru ekki þess virði
Ein andstyggilegasta birtingarmynd umræðunnar um Hvalárvirkjun, og almennt um stærri uppbyggingarverkefni á landsbyggðinni, er viðkvæðið: „Greyin! Þau vita ekki hverju þau eru að fórna fyrir tilfinningalausa fjárfesta sem hafa engan áhuga á þeim. Þau vita ekki hvað þau eiga. Þau eiga ekki heimtingu á byggðainnviðum, til þess er of fallegt í kringum þau.“ Hvort sem um ræðir virkjanaáform, eldisuppbyggingu eða vegasamgöngur er sunnanblærinn litaður af rasískum nýlendutón. Heimamaður veit ekki að það er verið að plat‘ann, hann hefur ekki séð fegurðina, skilur hana ekki, er ekki þess virði að hún sé skynsamlega nýtt, og það sem verst er, heimkynni hans þurfa ekki að vera til. Eina ráðið er að hafa vit fyrir honum, hann er svo vitlaus og heimkynni hans aum í fjallasölum eilífðarinnar.
Nú verður sjálfsagt sagt að þetta séu órökstuddar dylgjur, þetta hafi engin sagt. Eftirfarandi eru bara nýleg dæmi um hvað suðrið færir okkur Vestfirðingum í umræðu um okkur sjálfa og framtíð svæðisins:
Tómas Guðbjartsson, viðtal á Rás 1 um Hvalárvirkjun;
„Fáir hafa litið þessi víðerni á Ströndum eigin augum. Skýrir það að einhverju leyti viljann til að virkja þarna? „Ég held að rödd náttúruverndarsinna hafi ekki heyrst nógu vel. Margir hafa ekki komið þarna og ekki einu sinni séð þessa fossa á mynd.“ Tómas segist hafa hitt forsvarsmenn fyrirtækja sem tengjast þessum áformum en hafa ekki komið að fossunum, aðeins séð þá ofan af heiðinni. „Það er hluti af vandamálinu að margir sem tjá sig um þetta, jafnvel Vestfirðingar, hafa ekki komið þarna og vita ekki hvað er undir.“
„Tómas segir að þarna séu náttúruperlur á heimsmælikvarða. Vestfirðingar verði að átta sig á að það er verið að plata þá, orkan fari í stóriðju fyrir sunnan.“
„Það er ekki þess virði að virkja þarna til þess að tryggja Vestfirðingum rafmagn. Vestfirðingar verða að átta sig á því að þarna liggja þeirra mestu auðævi og til komandi kynslóða – þessi ofboðslega fallega náttúra á Vestfjörðum.“
Dofri Hermannsson, fyrrverandi varaborgarfulltrúi, opinber umræða um Hvalárvirkjun á FB greinarhöfundar: „Það munu fleiri koma vestur um lengri eða skemmri tíma ef náttúran er vernduð og byggt á styrkleikum svæðisins. En Árneshreppur verður aldrei þéttbýli og er það ekki bara allt í lagi?“.
Gísli Sigurðsson, þjóðfræðiprófessor við Háskóla Íslands, umræða á Vísi um eldisuppbyggingu á Vestfjörðum: „Talsmenn aflandsfyrirtækjanna hafa kosið að beita fyrir sig hagsmunum almennings á Vestfjörðum – líkt og þegar almennir borgarar eru notaðir sem hlífiskjöldur í hernaði.“
#Vestfirðingareruþessvirði
Yfirleitt er umræðan heilbrigð, henni mætti vel líkja við virkjun lýðræðisins. Ef vel tekst til flæðir umhverfisvæn orka um menninguna sem nýtir hana til uppbyggingar og bættrar velferðar mannsins. Ef illa tekst til virkjum við umræðuna til eigin geðþótta, hrösum um staðreyndir um leið og tilgangurinn helgar öll meðöl. Þannig birtist mér nýleg umræða um Hvalárvirkjun. Fullyrðingar um horfna fossa, bláeygða og svanga Vestfirðinga og ljóta stóriðju er í senn fyrirlitning á fólki og staðreyndum.
Framundan er stórkostleg bylting í atvinnu - og innviðauppbyggingu Vestfjarða. Bylting sem er sjálfbær, stóriðjulaus, umhverfisvæn og býr komandi kynslóðum tækifæri, búsetufrelsi og velferð.
Svo heldur Tómas Guðbjartsson áfram að þræða óbyggðir Vestfjarða, finna fossa og mynda sig. Ef hann er hræddur um að Vestfirðingar þekki ekki perlur fjórðungsins, er það ástæðulaus ótti.
Getur á móti verið að Tómas átti sig ekki á blómastrandi mannlífi Vestfjarða, náttúrufegurð fólksins og lífinu sem það skapar á hverjum degi. Virðinu ómetanlega sem býr í samfélagi, dóttur minni og öllum hinum. Kannski er þörf á að segja honum sögur að vestan, merkja myndir af mannlífi sem lifir í sátt við umhverfi og framtíð. Lífi sem gerir ekki aðrar kröfur en að standa jafnfætis öðrum Íslendingum.
#Vestfirðingareruþessvirði
Athugasemdir