Það kemur malbik á vegi í fyrsta sinn í sögu hreppsins, síðsumars árið 2015. Stórvirkar og másandi vinnuvélar hlunkast áfram með tilheyrandi ískri og jarðhræringum. Jörðin nötrar undan átökunum þegar gömlu malarvegirnir hverfa undir bundið slitlag. Að vísu er aðeins malbikað framan við helstu byggðagjarnana til að rykbinda. Nútíminn er samt mættur þótt í mýflugumynd sé. En þetta er framför. Það er bros á hverju andliti í Árneshreppi. Einn vegstubbur er í botni Norðurfjarðar, sá nær að kaupfélaginu. Ekki átti að malbika planið framan við verslunina og bensíndælu N1. Sveitarfélagið átti ekki þær tvær milljónir sem þurfti. Eftir fund ráðamanna hreppsins, Vegagerðarinnar og olíufélagsins, var ákveðið að leggja í púkk. Og planið fékk sitt slitlag. Annar stubbur er í Melavík. Þá fengu íbúarnir í Trékyllisvík sinn stubb og við Djúpuvík var lagt slitlag. Loks var flugbrautin á Gjögri malbikuð. Það var mál manna að miklu lengra þyrfti að ganga til að tryggja heilsársbúsetu í héraðinu. En það breytir ekki því að byltingin er komin í þetta afskekkta hérað sem best er lýst með bókartitli Hrafns Jökulssonar, Þar sem vegurinn endar.
Slæmir fyrirboðar
Á sama tíma og íbúar Árneshrepps fagna malbikinu sínu hrannast upp slæmir fyrirboðar um enn frekari búseturöskun. Aðeins eiga tæplega 50 manns lögheimili í hreppnum og hluti þeirra hugar að brottflutningi. Kvóti til fiskveiða er ekki til staðar þótt svæðið liggi að gjöfulum fiskimiðum sem íbúarnir nýttu um aldir sér til framfæris. Þær veiðar sem nú eru stundaðar eru að mestu af aðkomumönnum sem stunda strandveiðar eða skemmtiveiðar á sumrin þegar best er og blíðast. Þess á milli syndir þorskurinn óáreittur í flóanum.
Jarðir eru til sölu með kvóta. Vandinn er hins vegar sá að verðmæti kvótans er óljóst þar sem búvörusamningurinn rennur út árið 2017. Eftir þau tímamót veit enginn hvaða breytingar verða og hvort bændur fái sínar 7 þúsund krónur á ári með hverri kind. Fjárfesting í kvóta er því áhættusöm. Og það getur verið sniðugra fyrir bændur sem komnir eru á aldur að bregða búi og leggja inn kvótann en fá samt beingreiðslurnar. Lítið er um kynslóðaskipti. Bændur eldast og þegar þeirra tími tekur enda lýkur hugsanlega búsetu á jörðum þeirra. Fjölmargar jarðir hafa farið í eyði undanfarna áratugi. Mörgum rennur þetta til rifja þar sem svæðið er einstaklega fallegt og býður upp á fjölmarga möguleika í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaiðnaði, ef réttar aðstæður skapast.
Athugasemdir