Við sættum okkur við að samfélag okkar sé ekki fullkomið. Við getum heldur ekki sinnt öllu sem er gagnrýni vert, þá gerðum við fátt annað en mæðast.
Sumu verðum við því að sleppa framhjá okkur, þótt erfitt sé.
En mál þeirra feðgina Abrahim Maleki og Haniye dóttur hans er ekki hægt að láta framhjá sér fara.
Myndasyrpa og grein Heiðar Helgadóttur segir sögu þeirra.
En af hverju þurfum við að lesa þetta? Af hverju þurfum við að skoða þessar myndir vitandi að innan skamms á að vísa þessu fólki úr landi, algjörlega að ósekju?
Er einhver ástæða fyrir því að þetta fólk fái ekki uppfyllta þá ósk sína að búa hér á landi?
Einhver ástæða ... önnur en sú að hér býr vont fólk?
Að minnsta kosti mætti ætla að á valdastólum sitji vont fólk.
Ég er löngu búinn að gefast upp á Útlendingastofnun og Kristínu Völundardóttur yfirmanni þar. Hún er óhæf í starfi og hefur ekki til að bera þá mannúð sem þarf í slíkt djobb.
En við þurfum ekki að fara eftir bókstaf Kristínar Völundardóttur.
Heyrirðu það, Sigríður Á. Andersen? Heyrirðu það, Bjarni Benediktsson? Heyriðu það, Þorgerður Katrín? Heyrirðu það, Óttarr Proppé? Heyrirðu það, Þorsteinn Víglundsson? Heyrirðu það, Unnur Brá Konráðsdóttir?
Þið eruð stjórnvöld.
Þið hafið vald og tæki til að leyfa föður og ellefu ára dóttur hans að búa hér með okkur.
Látið eftir ykkur að nota þau tæki. Látið eftir ykkur að leyfa kærleikanum að ráða ferðinni, ekki smásmugulegri lagatækni.
Látið eftir ykkur mannúðina.
Hún býr í brjósti ykkar allra.
Abrahim og Haniye munu ekki gera okkur neitt þótt þau fái að búa hér hjá okkur.
Af hverju ættum við þá að vísa þeim burt?
Af hverju?
Athugasemdir