Fór til Hollands um daginn. Hollendingar eru gamaldags miðað við okkur Íslendinga. Þar má til dæmis enn finna netkaffihús. Og það er víðar í Evrópu. Í Bretlandi og Frakklandi – meira að segja í Berlín. Hollendingar nota ennþá DVD diska í þónokkrum mæli. Það er eins og Netflix hafi gleymt Hollendingum. Nei, það er ekki rétt. Þeir eru með Netflix. En kannski hafa þeir bara svo lítinn áhuga á því af því þeir eru svo ánægðir með DVD diskana sína.
Í húsinu sem ég leigði var túbusjónvarp. Ég sakna túbusjónvarpanna. Það kviknaði svo fallega í þeim. Ég gleymi ekki gamla svart-hvíta Phillips-sjónvarpinu sem sprakk. Þetta var í kringum ’80, þegar allir vinir mínir voru komnir með litasjónvarp. Ég var ekkert smá glaður þegar ég sá eldglæringarnar skjótast aftan úr gömlu túbunni á meðan ég hugsaði að nú gæti pabbi gamli ekki annað en keypt litasjónvarp.
Og hann fór að velta hlutunum fyrir sér. Fór á milli raftækjaverslananna á Ísafirði – þær voru allavega tvær. Þegar hann var alveg að því kominn að kaupa Finlux á afborgunum – það átti bara að koma á morgun – þá kom hann þess í stað blaðskellandi með gamalt Nordmænde-tæki sem kórfélagi hans hafði barasta gefið honum – og það var svart-hvítt! Ég get ennþá grafið upp ísköld vonbrigðin í minningunni. Síðan áttu eftir að líða heil sex ár þangað til fjölskyldan keypti loksins litasjónvarp og þá var ég orðinn 18 ára – við það að flytja að heiman!
En túbusjónvarpið í Hollandi var allavega litasjónvarp. Og þar var talsvert af sjónvarpsstöðvum. Ein þeirra sýndi aðallega gamlar bíómyndir á kvöldin. Þeir voru með þemu. Bruce Almighty og Liar Liar sama kvöldið. Eitt laugardagskvöld var þrusu stuð á þeim: Lethal Weapon 2 og Mad Max 2! Ég datt inn í þessa dagskrá þeirra eins og barn á brjósti. Ég fann allt í einu hvað ég hafði saknað þess að láta mata mig. Allt þetta tal um að línuleg dagskrá væri orðin úrelt hvarf úr huga mér á örskotsstundu. Það er dásamleg hvíld í að setjast fyrir framan sjónvarp og horfa á eitthvað sem aðrir hafa ákveðið. Það sparar manni endalausan, nagandi valkvíða.
„Nú var ég allt í einu að uppgötva að minn nútími var svona meira fyrir 20 árum. Þá var ég nútímamaður – en ekki lengur.“
En svo skrapp ég í miðborg Haag. Þangað hafði ég komið síðast fyrir röskum 20 árum og verið nokkuð ánægður með. Þar hafði ég fundið úrval af hressilegum verslunum og kaffihúsum í þröngum verslunargötum – dálítið eins og nútímaútgáfa af Marokkó – eða þannig var það allavega í minningunni. En núna var það talsvert öðruvísi. Þröngu göturnar voru þarna svosem – og svo komu torg hér og þar. En verslanirnar voru orðnar afar einsleitar. Ég taldi að minnsta kosti fjórar H&M. Nokkrar C&A. Primark. Marks & Spencer. Og nokkur kaffihús – sem öll hétu Starbucks. Og ef maður var svangur var hægt að velja um MacDonalds og Burger King.
Semsagt, miðbær eins og nokkurn veginn allir aðrir miðbæir í öllum borgum hins vestræna heims. Það var þarna – í miðborg Haag – sem ég fékk allt í einu alveg skelfilega tilfinningu sem ég fór strax að gagnrýna sem krísu míns eigin miðaldra sjálfs: mér fannst nútíminn orðinn leiðinlegur. Ég sem hafði alltaf talið mig mikinn nútímamann. Skildi ekkert í öllum þessum fortíðarfíklum sem áttu sér þann draum æðstan að hverfa aftur til 1920. Ég vildi hvergi annars staðar vera en í nútímanum. En nú var ég allt í einu að uppgötva að minn nútími var svona meira fyrir 20 árum. Þá var ég nútímamaður – en ekki lengur.
Þetta var dapurleg uppgötvun – í nokkrar mínútur. Þangað til ég ákvað að gefa því séns að þetta snerist kannski ekki alveg um mig. Það var kannski ekkert að mér, heldur öllum hinum vestræna heimi. Það sem gerir nútímann svo leiðinlegan er að markaðsfræðin er komin á ákveðna endastöð. Þekkingin og tæknin er orðin slík að stórfyrirtækin – þar með taldar verslana- og kaffihúsakeðjurnar – telja að þeim hafi tekist að reikna mannkynið út. Og í krafti fjármagnsins hefur þeim tekist að yfirtaka miðborgirnar. Leigusalarnir fagna þeim og öll þyrpumst við í búðirnar þeirra til að geta keypt handklæðin á lægra verði – þótt þau séu framleidd af þrælabörnum á Indlandi.
Algóryþminn hefur svo breiðst út í flest sem tilheyrir afþreyingariðnaðinum. Það er reyndar stórmerkilegt að algóryþmi stóru kvikmyndafyrirtækjanna rímar á einhvern undarlegan hátt við heila hins 94 ára gamla Stan Lee sem skóp á sínum tíma ofurhetjur sem tröllríða nú kvikmyndahúsum heimsins.
Allt sem áður þótti hættulegt er ekki lengur hættulegt. Rokktónlist ógnar engum lengur. Það hefur tekist að reikna hana út. Einu sinni ógnuðu Sex Pistols breskum húsmæðrum í sjónvarpsþætti um hábjartan dag með því að rífa kjaft við gestgjafann. Þetta olli hneykslan um allan heim. Í dag myndu Sex Pistols aldrei mæta í svona þátt – enda hefðu menn vit fyrir þeim. Fólk sem horfir á spjallþætti á daginn er ekki líklegt til að kaupa plötur með Sex Pistols. Slíkt fólk hlustar á Barry Manilow. Þeir sem aðhyllast þungarokk mæta á sérstakar þungarokkshátíðir. Fólk sem fílar diskó fer á diskóhátíðir. Pönk er fyrir börn og hárgreiðslukonur. Það er búið að flokka allt niður í snyrtilega bása. Síðasta vígið var kannski Marilyn Manson – fyrir einmitt tuttugu árum. Hann ógnaði smá – en svo kom bara Osama Bin Laden og tók þetta allt í nefið. Hvenær kemur plata með ISIS?
En þetta er kannski ekki allt svo voðalega slæmt. Ég keypti mér flatskjá fyrir nokkrum mánuðum. Hann var ódýr og passaði vel inn í stofuna. Það var svo ekki fyrr en ég kveikti á honum að hjartað tók aukakipp. Hann var að gerðinni Finlux! Litasjónvarpið sem pabbi eignaðist aldrei! Þetta er í dag minn uppáhaldsgripur. Draumar æsku minnar sem ég hélt að væru glataðir hafa allt í einu ræst.
Og það er enn hægt að finna víraða og „hættulega“ tónlist ef maður nennir að leita. Elli Grill er góður. Hann er Megas rappsins. Nýjar bíómyndir eru líka oft góðar – að ég tali nú ekki um sjónvarpsþætti! Og svo er miðbær Reykjavíkur alveg laus við H&M, Starbucks, MacDonalds og Burger King – allavega eins og stendur. Enn er von. Eða ekki? Hvað veit ég svosem?
Athugasemdir