Á svona litlum heimavistarskóla eins og Menntaskólanum á Laugarvatni kom fólk á haustin, skrapp kannski heim um jólin, en var annars fram að vori, þannig að það þurfti að búa til sínar eigin skemmtanir og allt sitt þar. Samfélagið var mjög afmarkað og lokað, þannig að það varð mjög þétt og allir þekktust mjög vel.
Ég hef stundum líkt þessu við þvingað hjónaband þar sem fólk hefur engan kost annan en að vera saman ef það vill komast af í sínu umhverfi. Þegar ég kynntist síðan fólki sem hafði verið í skólum í Reykjavík, eins og Kennaraskólanum og MR, þá skyldi ég ekki alveg strax að það var ekki jafn nátengt og við vorum.
Þessi tengsl hafa haldist mjög mikið því þau voru ótrúlega sterk, og það er ennþá hópur fólks sem hittist reglulega. Það voru eitthvað um 120 nemendur þegar ég var þar, og lengst af voru í mínum bekk tæplega 50 en enduðu með því að vera 34 sem kláruðu. Það er allt annað en þeir 12–1.300 sem eru í Hamrahlíð þar sem ég kenni, en ég held upp á 40 ára kennaraafmæli mitt þar í haust.
Athugasemdir