Ágætur maður var um daginn á Facebook að hugleiða hvort við værum farin að ofvernda börnin okkar. Það var að minnsta kosti minn skilningur út úr þessum orðum hér:
„Börn voru alltaf án öryggisbelta og úti um allt í bílsætunum þegar ég var alast upp og langflestir foreldrar reyktu, bæði heima við og í bílum. Krakkar föndruðu öskubakka í handmennt í skólanum. Við krakkarnir fengum fáránlega langt sumarfrí, dorguðum við höfnina eftirlitslaus, löbbuðum allra okkar ferða, unnum í fiski fyrir tíu ára aldur og lékum okkur úti öll kvöld. Mikið er maður þakklátur að hneykslaða fólkið hafi ekki haft Facebook þá til að nöldra á.“
Ég skildi sosum alveg hvað hann var að tala um og þetta sama hefur vissulega líka hvarflað að mér. En þá gleymum við stundum hvað alvarleg slys voru hræðilega algeng á þessum „frjálsu tímum“, ekki síst banaslys meðal barna.
Ég skoðaði baksíður Morgunblaðsins í júní og júlí 1966. Hvað kom í ljós?
5. júní: 16 ára færeyskur piltur drukknar í Reykjavíkurhöfn á leið út í togara.
7. júní: 22 ára piltur drukknar í Oddastaðavatni á Snæfellsnesi þegar bát með honum og tveim öðrum piltum hvolfir. Enginn var í lífvesti. Lífgunartilraunir báru ekki árangur.
9. júní: Miðaldra sjómaður drukknar í Reykjavíkurhöfn.
11. júní: Sendiferðabíll keyrir á 4 ára dreng.
12. júní: Þriggja ára drengur hleypur fyrir bíl og slasast í Reykjavík.
14. júní: 11 ára drengur stórslasast er hann lendir í drifskafti á steypuhrærivél. Sama dag er greint frá því að stúlka hafi slasast illa á höfði þegar bíll sem hún var í fór veltu í Eyjafirði.
21. júní: Maður fellur fyrir borð á bát í Breiðafirði og drukknar.
22. júní: Sex ára drengur fellur fram af bryggju á Siglufirði. Lífgunartilraunir báru ekki árangur.
25. júní: Banaslys við Ísafjörð. 36 ára vefhefilsstjóri deyr.
26. júní: Í Keflavík keyrir bíll glannalega á tvo pilta. Annar fótbrotnar á báðum fótum, hinn deyr. Hann var 18 ára.
28. júní: 18 ára skipverji á síldarbát deyr þegar hann fær löndunarkrana í höfuðið í Neskaupstað.
30. júní: Strætisvagn keyrir á 16 ára dreng á skellinöðru. Drengurinn deyr.
4. júlí: Mjög alvarlegt bílslys á Akureyri. Vörubíll keyrir á 10 ára dreng á hjóli. Drengurinn slasast mjög illa á höfði.
12. júlí: Fimm ára drengur frá Keflavík var við leik ásamt öðrum börnum í bát við Þingvallavatn og féll útbyrðis. Lífgunartilraunir báru ekki árangur.
Í Hafnarfirði var þriggja ára drengur að leik ásamt systkinum sínum og öðrum börnum á svonefndum Balakletti í höfninni. Fellur drengurinn niður af klettinum og í sjóinn. Lífgunartilraunir báru ekki árangur.
14. júlí: Í Reykjadal drukknar 5 ára telpa sem var að leik ein úti að kvöldlagi. Finnst í metra djúpri tjörn. Lífgunartilraunir báru ekki árangur.
15. júlí: Fimmtán ára piltur verður undir skúffu á steypuhrærivél við undirstöður að nýjum hitaveitugeymi í Öskjuhlíð. Hann deyr.
16. júlí: Sex ára gamall drengur fellur fram af bryggju á Siglufirði og drukknar. Hann var að leik með öðrum börnum á sama stað og drengur drukknaði nokkrum vikum fyrr.
Sama dag er frétt um að miðaldra maður hafi farist í bílslysi í Önundarfirði. Kona hans slasast mikið, 10 ára sonur minna.
19. júlí: Hvammstangi: Drengur á öðru ári drukknar þar í flæðarmálinu. Hann hafði verið að leik með eldri systkinum sínum. Skyndilega vantaði drenginn og þó þau fyndu hann fljótlega báru lífgunartilraunir ekki árangur.
26. júlí: Tvítugur piltur fellur í höfnina í Reykjavík. Lífgunartilraunir báru ekki árangur.
Íslenskur skipverji á norsku síldarskipi við landið fellur útbyrðis og drukknar.
27. júlí: 19 ára piltur hverfur í Tálknafirði.
29. júlí: Fimmtán ára piltur verður fyrir dráttarvél í Ölfusi og deyr.
Fjórtán ára piltur verður fyrir dráttarvél á Fáskrúðsfirði og deyr.
Mér reiknast til að 16 ungmenni frá 22 ára og yngri hafi dáið á þessum tveimur mánuðum. Vissulega var hrinan í júlí óvenju slæm, en samt: Þarf einhverra frekari vitna við um það af hverju við VERNDUM börnin okkar?
Athugasemdir