SÁÁ er orðið stórt félag sem þolir vel gagnrýni þótt vissulega sé snúið fyrir fagfólkið að stunda þras og þrætur á vettvangi fjölmiðla. Á löngum tíma hafa samtökin hagað rekstri sínum skipulega og farið vel með fjármuni. Fjárfestingar hafa verið í fasteignum sem samtökin hafa byggt sjálf án þess að fara á hausinn. Þannig virðast samtökin vera stærri en þau eru í raun og veru og liggja vel við höggi.
Faglegt starf SÁÁ hefur verið stefnumiðað og fylgt framförum í læknisfræði og náttúruvísindum eftir því sem þeim vindur fram og efni standa til. 25 þúsund einstaklingar hafa komið í 75 þúsund meðferðir til SÁÁ. Að baki þeim eru jafnmargar reynslusögur. Þeir sem stöðugt spyrja um hvort alltaf sé sama fólkið á Vogi mega í huganum reyna að koma 25 þúsund einstaklingum inn á spítalann sem tekur að hámarki 60 sjúklinga í rúm.
Gamlar hugmyndir og viðhorf um að vímuefnafíkn sé ekki sjúkdómur heldur ístöðuleysi, karakterbrestur, skortur á siðferði eða afleiðing af einhverju allt öðru en neyslu vímuefna eiga jafnan greiðan aðgang í fjölmiðla. Slíkt lesefni er auðvitað meira spennandi heldur en þurrpumpulegar tölur og upplýsingar um tæknileg atriði. Reynslusögur er hægt að mála sterkum litum á síðum fjölmiðla þar sem þagað er um batasögurnar á meðan grimmd sjúkdómsins er stöðugt fréttaefni. Fórnarlömb og sökudólgar eru aðalhlutverkum og lesendur sveiflast með í geðshræringu. Framhaldssögur eru í pípunum því neysla áfengis og annarra vímuefna er í hæstu hæðum.
Dæmi eru um að frásagnir um illa meðferð á konum hjá SÁÁ hafi birst í fjölmiðlum. Konur í meðferð hjá SÁÁ eru velkomnar og njóta forgangs á biðlistum því algengt er að konur bíði lengur en karlar með að leita sér hjálpar. Átta þúsund íslenskar konur hafa komið í áfengis- og vímuefnameðferð til SÁÁ. Það er ekki tala úr lausu lofti gripin með skoðanakönnun eða reynslusögum, heldur staðreynd sem hægt er að sannreyna. Þetta er mikill fjöldi sjúklinga og ennþá fleiri meðferðir og reynslusögur. Sögur þeirra kvenna sem stigið hafa fram eru litnar alvarlegum augum hjá samtökunum og reynsla þeirra nýtt til gagns – eins og raunar öll upplifun sjúklinga af meðferðinni, bæði karla og kvenna. En ef ill meðferð á konum hjá SÁÁ væri almenn staðreynd, sérstaklega í ljósi þessa mikla fjölda, myndi hún örugglega birtast okkur sem alvarlegar athugasemdir og aðgerðir hjá opinberum eftirlitsaðilum. Það ætti ekki fara framhjá neinum.
Fíknlækningar eins og þær hafa verið stundaðar hjá SÁÁ í áratugi, hafa lengst af siglt upp á móti straumi þekkingar í sálgreiningu, sálarfræði og félagsvísindum. Smátt og smátt hefur þó komið í ljós að hin djarfa tilgáta sem Jellinek gaf út í bók 1960, The Disease Concept of Alcoholism, hefur staðist ágætlega villuprófanir og endurteknar tilraunir til afsannana og í dag lítur læknisfræðin á tilgátuna sem ákveðið þekkingarviðmið á þessu sviði og útskrifar lækna sem sérfræðinga í fíknlækningum. Það var gæfuspor hjá SÁÁ að hafa strax á upphafsárum samtakanna ákveðið að fylgja þessi stefnu þótt róðurinn hafi stundum verið þungur.
Engar töfralausnir á flóknum heilbrigðisvanda fíknar eru í sjónmáli. Stöðugt er verið að reyna bæta meðferðina og engum hjá SÁÁ dettur í hug að komið sé að endimörkum þekkingar á þessu sviði. Leikmenn og fjölmiðlafólk sem telur sig á einhvern hátt vita betur en læknar og sérhæft heilbrigðisstarfsfólk, þarf samt sem áður að beina gagnrýnni hugsun sinni að sjálfum sér líka - svona til vonar og vara. Mikil þörf er á meiri og betri meðferð, styttri biðlistum og greiðu aðgengi að fullvaxinni heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóm. Höfum í huga að pólítíkusar og embættismenn munu seint hafa frumkvæði að því að efla heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóm.
Nútímasamfélag eins og okkar sem lítur á vímuefna- og lyfjaneyslu einstaklinga sem sjálfsagða og eðlilega hegðun getur ekki á sama tíma afneitað afleiðingunum neyslunnar. Hluti fólksins verður veikur, það er óumflýjanlegt. Reynslusögurnar eru mismunandi og nánast óteljandi og erfitt væri að reka heilbrigðisþjónustu með því að vera stöðugt að stökkva úr einu í annað. Gott skipulag tryggir heilbrigða nýtingu fjármuna og handleiðsla lækna og annarra sérfræðinga tryggir vit, þekkingu, stefnumið og síðast en ekki síst siðferði. Grasrótin heldur samt sem áður á fjöregginu og ræður framtíðinni með upplýstum ákvörðunum.
Þann 1. október næstkomandi verður SÁÁ 40 ára. Hingað til lands koma margir af áhrifamestu læknum og sérfræðingum á sviði fíknlækninga og erfðafræði í heiminum og tala á afmælisráðstefnu SÁÁ. Þar gefst vonandi gott tækifæri til að efla skilning samfélagsins á þessum flókna heilbrigðisvanda og tækifæri til að eiga hlutlægt og gagnvirkt samtal við fræðafólk sem sannarlega stendur fremst meðal jafningja á þessu sviði í dag. Allir eru velkomnir á afmælisráðstefnu SÁÁ í haust og þangað ættu pólitíkusar, fagfólk, fjölmiðafólk og áhugasamur almenningur að mæta með opinn huga, sitt gagnrýna hugarfar og góða skapið.
Athugasemdir