Tékkneski vopnaframleiðandinn CSG var skráður á hlutabréfamarkaðinn í Amsterdam í dag og safnaði 3,8 milljörðum, eða 555 milljörðum íslenskra króna, í stærsta frumútboði (IPO) í varnarmálageiranum í heiminum.
Skráningin metur fyrirtækið, sem er lykilbirgir skotfæra og vopna til NATO-ríkja og Úkraínu, á 25 milljarða evra, samkvæmt yfirlýsingu frá markaðnum í Amsterdam.
Á sama tíma hafa norrænir lífeyrissjóðir minnkað fjárfestingu í bandarískum ríkisskuldabréfum, sem fjármagna hallarekstur bandaríska ríkisins. Bandaríkjaforseti hefur hótað „stórum hefndaraðgerðum“ ef Evrópa dregur úr þessum fjárfestingum. Evrópuþjóðir eiga samtals bandarísk ríkisskuldabréf og hlutabréf í Bandaríkjunum að andvirði 8 þúsund milljarða dala en alríkið skuldar samtals 38 þúsund milljarða dala.
Þetta var „stærsta frumútboð í varnarmálageiranum sem skráð hefur verið í heiminum, bæði hvað varðar upphæð sem safnaðist og markaðsvirði,“ sagði kauphöllin. Upphæðin jafngildir um fjórðungi af heildarútgjöldum íslenska ríkisins.
Samkvæmt útboðslýsingu fyrirtækisins er CSG „annar stærsti framleiðandi meðalstórra og stórra skotfæra í Evrópu og stærsti framleiðandi smærri skotfæra á heimsvísu miðað við sölu.“
Nærri 70 prósent af sölu þess er til NATO-ríkja og fyrirtækið telur sig munu hagnast á því að bandalagið auki vopna- og skotfæraframleiðslu til að bregðast við ógnunum frá Rússlandi.
Á leiðtogafundi í Haag á síðasta ári skuldbundu NATO-ríkin sig til að auka útgjöld til varnarmála í fimm prósent af framleiðslu fyrir árið 2035.
Fyrirtækið sagðist selja hergögn í meira en 70 löndum um allan heim og vera með 14.000 starfsmenn.
CSG var stofnað í Tékklandi en hefur einnig verksmiðjur á Indlandi, Ítalíu, Serbíu, Slóvakíu, Spáni, Bretlandi og í Bandaríkjunum.
Michal Strnad, stjórnarformaður CSG, fagnaði því sem hann kallaði „sögulegan áfanga“ með frumútboðinu.
„Við erum stolt af samsetningu tékkneskrar iðnaðararfleifðar okkar og alþjóðlegrar framleiðslu okkar,“ bætti þessi 33 ára frumkvöðull við.















































Athugasemdir