Ávarp forsætisráðherra Grænlands: „Ég verð að trúa“

For­sæt­is­ráð­herra Græn­lands, Jens-Frederik Niel­sen, seg­ir að unn­ið sé að sam­komu­lagi við Banda­rík­in, en hann þekki ekki inni­hald hugs­an­legs ramma­samn­ings sem for­seti Banda­ríkj­anna. „Ef við get­um ekki átt sam­skipti í rétt­um far­vegi þá er erfitt fyr­ir mig að vita hvað hef­ur far­ið fram.“

Ávarp forsætisráðherra Grænlands: „Ég verð að trúa“

Forsætisráðherra Grænlands, Jens-Frederik Nielsen, hélt blaðamannafund fyrir erlenda blaðamenn sem staddir eru í Nuuk í dag. Þar sagði hann að unnið væri að samkomulagi við Bandaríkin, en hann þekki ekki innihald hugsanlegs rammasamnings. Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur sagt að samkomulagi hafi verið náð vegna Grænlands og að sá samningur muni gilda að „að eilífu“. 

Prófsteinn á bandalag vestrænna þjóða

Fundurinn fór fram í menningarmiðstöð Nuuk þar sem forsætisráðherrann ávarpaði blaðamenn. Hóf hann fundinn á að árétta að Grænland væri enn í miðju alvarlegra atburða, í stöðu sem grænlenska þjóðin hafi aldrei viljað vera í. „Við finnum fyrir miklum þrýstingi á land okkar, bandamenn okkar og vini. Stuðningurinn frá Norðurlöndunum, Danmörku og Evrópu er ómetanlegur. Við erum meðvituð um að stuðningurinn krefst mikls af vinum okkar og bandamönnum og erum afar þakklát,“ sagði hann. 

Um leið sagðist hann gera sér grein fyrir því að það að verja alþjóðalög og grunngildi lýðræðis snerti ekki aðeins Grænlendinga heldur sé það prófsteinn fyrir heilindi vestrænna bandamanna. Markmið Grænlendinga og vilji þeirra sé að viðhalda friðsömum samræðum sem byggir á virðingu gagnvart stjórnarskrá þeirra, réttinum til sjálfstæðis og alþjóðalögum. 

Taka öryggismál alvarlega

Greindi hann frá því að bandarískir embættismenn hafi fundað með utanríkisráðherrum og samþykkt að halda áfram viðræðum í lokuðum samstarfshópi sem vinnur að lausn vegna áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi, án þessi að heilindum Danmerkur, Grænlands sé fórnað eða rétti þeirra til sjálfstæðis. 

Grænlandi taki öryggismál á Norðurslóðum alvarlega og sé skuldbundið NATO. Unnið verði að því að efla varnir svæðisins, meðal annars með langvarandi uppbyggingu verkefna á vegum NATO, aukinni hernaðarviðveru og heræfingum. 

„Ég trúi því að allir sem hafa stigið fæti á Grænland viti hvar við stöndum, en ég undirstrika það aftur: Grænland velur það Grænland sem við þekkjum í dag.“ Grænland sem er hluti af konungsveldi Danmerkur og hefur rétt til sjálfsstjórnar. „Það er ekki hægt að efast um vilja fólksins. Til að draga það saman: Við veljum konungsríki Danmerkur, við veljum Evrópusambandið, við veljum NATO.“

Staðan sem upp er komin sé ekki aðeins áskorun fyrir Grænland og Danmörku heldur snúist um skipan heimsins. „Við Grænlendingar erum friðsælt fólk. Það birtist meðal annars í því hvernig við nálgumst heiminn í kringum okkur, jafnvel þótt óvissuástand ríki. Við höfum og munum áfram sækjast eftir friðsælu samtali, sem fer fram á réttum vettvangi og eftir réttum boðleiðum.

Er Grænland öruggt?

Eftir að Jens-Frederik Nielsen lauk máli sínu gaf hann sér nokkrar mínútur til þess að svara spurningum. Blaðamaður CNN fékk orðið: Er Grænland öruggt núna? spurði hann. „Enginn nema Grænland og konungsríki Danmerkur hafa umboð til þess að semja um Grænland,“ svaraði hann. „Varðandi samkomulagið sem hefur verið vísað til þá veit ég ekki hvað það innifelur. En ég veit að það er núna verið að vinna að lausn fyrir báða aðila. Við höfum sagt hér í Grænlandi að það eru rauðar línur, sem verður ekki farið yfir.“

Þar á meðal nefnir hann virðingu fyrir landinu, alþjóðalögum og sjálfstæði Grænlendinga. Grænlendingar eru reiðubúnir að auka samvinnu þjóðanna í efnahagsmálum og fleiri þáttum, en „það er eitthvað sem verður að ræða á grundvelli gagnkvæmrar virðingar.“ Vilji sé til staðar til að gera miklu meira í þeim efnum. 

„Hvað það varðar að vilja eiga Grænland, þangað til í gær gátum við ekki útilokað neitt. Viljinn til að eiga Grænlands birtist enn í orðræðu gærdagsins, en eins og ég segi þá höfum við frá upphafi sóst eftir því að eiga virðingarfullt samtal sem fram fer á réttum vettvangi.“ Nú sé það í sjónmáli.  „Ég er þakklátur fyrir það.“ 

Var ekki aðili að samtalinu

Aðspurður út í samskipti Donald Trump og Mark Rutte, framkvæmdastjóra Grænlands, segir hann: „Mér skilst að samræður forsetans og Rutte hafi verið um sameiginleg markmið og þætti sem hægt er að sammælast um, eins og að efla varnir á svæðinu.“

Grænlendingar séu reiðubúnir til að gera meira, innan ramma NATO, enda líti hann svo á að Grænlendar beri þar ábyrgð. Öryggi Norðurslóða sé mikilvægt. „Við erum öll sammála um það.“

„Fulltrúar frá Grænlandi og dönskum stjórnvöldum ræddu við Mark Rutte fyrir nokkrum dögum síðan og skilaboðin sem ég hef fengið er að það sem kom fram þar, um að við værum með skýrar rauðar línur, hafi verið miðlað til forsetans.“

Að öðru leyti viti hann hvað hafi farið fram í samtali sem hann var ekki aðili að. „Ef við getum ekki átt samskipti í réttum farvegi þá er erfitt fyrir mig að vita hvað hefur farið fram, öðruvísi en í gegnum fréttir.“

Treystir þú Trump?

Spænskur blaðamaður reisti spurninguna um hvort hægt væri að treysta því sem kom fram í ræðu Bandaríkjaforseta í ræðu hans á Davos í gær: Trúirðu hundrað prósent orðum herra Trumps að hann ætli ekki að taka yfir Grænland með hervaldi?

„Auðvitað verðum við að trúa því sem hann segir. Það sem ég vil trúa á er ramminn sem skapaði frið í heiminum fyrir mörgum, mörgum árum, eftir hryllilega tíma. Það sem við viljum trúa er að við séum nánir og ástkærir bandamenn hins vestræna bandalags. Og það er einnig það sem við verðum að trúa.

Eins og ég sagði, þetta snýst um heimsskipan. Þetta snýst um alþjóðlög. Þetta snýst um að virða landfræðileg heilindi. Ég trúi því að heimurinn muni ekki taka þessa beygju – svo hrikalega. Ég verð að trúa því. Og ég trúi á að hið vestræna bandalag og gott samstarf geti þróast til hins betra. Líka fyrir grænlenska fólkið og konungsríkið Danmörku.“ 

Eru Bandaríkjamenn velkomnir til Grænlands?

Forsætisráðherrann var einnig spurður hvernig hann sér fyrir sér samband Grænlands og Bandaríkjanna til framtíðar. Þangað hafi Bandaríkjamenn sótt í hernaðarlegum erindagjörðum, fyrir námugröft eða ferðamennsku, svo dæmi séu tekin. Eru Bandaríkjamenn velkomnir til Grænlands í náinni framtíð?

„Við viljum virðingarfullt og friðsælt samband við bandamenn okkar, trausta bandamenn til margra ára. En það leikur enginn vafi á því að orðræðan sem við höfum setið undir síðasta ár er óásættanleg fyrir okkur. Allt tal um að eignast Grænland er auðvitað óásættanlegt. Það hefur áhrif á hvernig fólk hugsar til hvors annars.“ 

Þrátt fyrir allt vonist grænlensk stjórnvöld og vinni enn að því að koma á góðu samtali, á réttum vettvangi, þar sem hægt er að stuðla að samstarfi og gagnkvæmri virðingu. Ef virðing er borin fyrir rauðum línum sem Grænlendingar hafa dregið, geti þessar þjóðir átt gott samband í kjölfarið. 

„Auðvitað er erfitt þegar þú heyrir á hverju kvöldi hótanir um að taka yfir Grænland.“

Það breytir því þó ekki að málið hefur haft mikil áhrif á alla þjóðina.

„Auðvitað er erfitt þegar þú heyrir á hverju kvöldi hótanir um að taka yfir Grænland. Þar til í gær gátum við ekki útilokað neitt. Reyndu að ímynda þér hvernig það er fyrir Grænlendinga, fólkið hér, friðsælt fólk, að heyra það og sjá í fjölmiðlum alla daga að einhver vilji svipta þá frelsinu,“ segir hann og grænlenskur blaðamaður sem situr við hlið blaðamanns Heimildarinnar andvarpar þungt, svo auðsýnt er að staðan hefur fengið þungt á hann. Forsætisráðherrann heldur áfram:  „Það getur auðvitað gert það að verkum að Grænlendingar sjái þetta öðruvísi.“ 

Enn haldi grænlensk stjórnvöld í vonina um að hægt sé að koma á virðingarfullum samskiptum og friðsælu samstarfi. Gagnvart þessari áskorun séu það ekki aðeins hagsmunir og frelsi Grænlendinga sem sé undir, heldur eitthvað allt annað og miklu stærra. Málið snúist í raun um heimsskipan, sem hefur stuðlað að friði í áratugi. „Það er ekkert sem á að spila með.“ 

Eftir fundinn spurði grænlenski blaðamaðurinn: Af hverju heyrist ekkert frá Bandaríkjunum um þennan samstarfshóp? 

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Umdeild gjaldskylda við Reykjanesvita: „Þetta er bara slóði“
4
UmhverfiðFerðamannalandið Ísland

Um­deild gjald­skylda við Reykja­nes­vita: „Þetta er bara slóði“

Sam­kvæmt lóða­leigu­samn­ingi hef­ur fyr­ir­tæk­ið Reykja­nes Aur­ora heim­ild til að inn­heimta bíla­stæða­gjöld í 500 metra radíus við Reykja­nes­vita þrátt fyr­ir að leigja að­eins hluta af því landi. Eig­and­inn seg­ir að reynt hafi ver­ið á gjald­heimt­una fyr­ir dómi og hún úr­skurð­uð hon­um í vil. „Þetta er bú­ið að vera vand­ræða­mál,“ seg­ir Kjart­an Már Kjart­ans­son, bæj­ar­stjóri Reykja­nes­bæj­ar.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Erla Björg hættir sem ritstjóri: „Stundum hef ég þurft að minna mig á æðruleysið“
2
Innlent

Erla Björg hætt­ir sem rit­stjóri: „Stund­um hef ég þurft að minna mig á æðru­leys­ið“

Erla Björg Gunn­ars­dótt­ir er hætt sem rit­stjóri á frétta­stofu Sýn­ar. Í færslu á sam­fé­lags­miðl­um seg­ir hún að í ár­anna rás hafi hún unn­ið eins og hún gat með sí­breyti­leg­an far­veg þar sem hún hafi stund­um þurft að minna sig á æðru­leys­ið og hverju hún gæti stjórn­að. „Eft­ir marga slíka hringi kem­ur að þeim tíma­punkti að það er best að kveðja og hleypa nýj­um kröft­um í bar­átt­una.“

Mest lesið í mánuðinum

„Allt í einu koma þessi skrímsli upp úr jörðinni“
5
Innlent

„Allt í einu koma þessi skrímsli upp úr jörð­inni“

Und­ir­skrifta­söfn­un er haf­in til að mó­mæla fram­kvæmd­um í Skafta­felli. Fund­ur um breyt­ing­ar fram­kvæmd­anna var hald­inn um há­sum­ar. „Það dugði til að gera skyldu sína,“ seg­ir íbúi á svæð­inu. Íbú­ar ótt­ast að sam­keppn­is­hæfni muni minnka ef fyr­ir­hug­uð ferða­g­ist­ing rís. „Ég sé ekki ann­að en að þetta auki tekj­ur og at­vinnu á svæð­inu,“ seg­ir Pálm­ar Harð­ar­son, sem stend­ur að fram­kvæmd­inni ásamt Arctic Advent­ur­es.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu