Ársverðbólga í Rússlandi dróst verulega saman árið 2025, samkvæmt gögnum frá hagstofu ríkisins sem birt voru í dag, en það virðist sem aðgerðir seðlabankans til að hemja verðhækkanir hafi borið árangur.
Seðlabanki Rússlands hélt stýrivöxtum nálægt 20 prósentum í næstum tvö ár þar sem mikil hernaðarútgjöld, sem í upphafi gáfu rússneska hagkerfinu byr undir báða vængi, ýttu einnig undir gríðarlega verðbólgu.
Verðhækkanir hægðu á sér og námu um sex prósentum á síðasta ári, að sögn Rosstat-hagstofunnar.
Þetta er mikill samdráttur frá þeim 10 prósentum sem mældust árið 2024 og var einnig undir því sem seðlabankinn og sérfræðingar höfðu spáð.
Árið 2025 hóf bankinn að lækka stýrivexti smám saman eftir því sem verðhækkanir drógust saman og fyrirtæki kvörtuðu undan háum lántökukostnaði sem hefur íþyngt hagvexti.
Í síðasta mánuði sagði Rosstat að hagvöxtur hefði verið nálægt núlli á þriðja ársfjórðungi.
Í nóvember lækkaði verðbólgan niður í um sex prósent úr sjö prósentum mánuðinn á undan, sem er mesta 12 mánaða lækkun ársins 2025, að sögn Rosstat.
Bankinn stefnir að fjögurra prósenta verðbólgu fyrir árið 2027.
Verðbólga á Íslandi hefur hins vegar farið vaxandi síðustu mánuði. Hún var 4,5% í síðasta mánuði og gera markaðsaðilar við að hún hækki töluvert, eða í 5,1%.
Stjórnvöld í Kreml hafa hækkað skatta til að sækja í vasa borgara og fyrirtækja til að brúa fjárlagagat síðasta árs sem nam um 50 milljörðum dala, eða sem nemur 6,3 billjónum króna.
Á fjórum árum stríðsins í Úkraínu hafa hernaðarútgjöld Rússlands rokið upp úr öllu valdi, á meðan olíu- og gastekjur þeirra hafa dregist saman vegna viðskiptaþvingana.
Árið 2025 jukust hernaðarútgjöld Rússlands um þrjú prósent frá árinu 2024, sem samsvarar um sjö prósentum af vergri landsframleiðslu (VLF), samkvæmt mati Alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi (SIPRI).













































Athugasemdir