Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gengið lengra og lengra í yfirlýsingum sínum um að taka yfir Grænland, sjálfstjórnarsvæði innan danska konungdæmisins, en margir velta fyrir sér hvers vegna hann vill yfirtaka það þegar Bandaríkin hafa nú þegar víðtækan aðgang að eyjunni á norðurslóðum.
Hvað segir í varnarsamningi Danmerkur og Bandaríkjanna um Grænland? Hvað er Danmörk að gera til að efla öryggi sitt? Eru Kína og Rússland raunveruleg ógn? Og hvað segir sjálfstæðishreyfing Grænlands?
Hér eru svör við þessum fjórum lykilspurningum.
Hernaðarviðvera Bandaríkjanna
Árið 1941, þegar síðari heimsstyrjöldin stóð sem hæst, heimilaði hin hernumda Danmörk Bandaríkjunum að byggja og reka herstöðvar á Grænlandi, svo lengi sem átökin stæðu yfir, í því skyni að vernda amerísku heimsálfuna.
Við lok stríðsins höfðu Bandaríkin 15 herstöðvar á Grænlandi. Í dag er aðeins ein eftir, Pituffik-flugstöðin á norðvesturströndinni, sem JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti í mars.

Staðsetning Grænlands er hernaðarlega mjög mikilvæg, þar sem hún liggur á stystu leið fyrir flugskeyti milli Rússlands og Bandaríkjanna. Hún er því mikilvægur hluti af eldflaugavarnarskildi Bandaríkjanna.
Grænland, þar sem búa 57.000 manns, „er mikilvægur hluti af þjóðaröryggisvörnum Bandaríkjanna,“ sagði Marc Jacobsen, sérfræðingur í málefnum norðurslóða við Konunglega danska varnarmálaháskólann, í samtali við AFP.
Frá árinu 1951 hefur samningur Dana við Bandaríkin – endurskoðaður árið 2004 – gefið bandaríska hernum nánast ótakmarkað leyfi til að gera það sem hann vill á grænlensku yfirráðasvæði, svo lengi sem hann tilkynnir Danmörku og Grænlandi það fyrirfram.
„Ríkisstjórn Bandaríkjanna mun hafa samráð við og tilkynna ríkisstjórn Konungsríkisins Danmerkur, þar á meðal heimastjórn Grænlands, áður en verulegar breytingar á hernaðaraðgerðum eða mannvirkjum Bandaríkjanna á Grænlandi eru framkvæmdar,“ segir í 3. grein samningsins.
Fjárfestingar Dana í öryggismálum
Trump hefur haldið því fram að Danmörku hafi mistekist að tryggja öryggi Grænlands, sem er 2,2 milljónir ferkílómetra að stærð, eða um fimmtungur af stærð allrar Evrópu og 21 sinnum stærra en Ísland.
En Danmörk hafnar þessum fullyrðingum og leggur áherslu á að hafa úthlutað nærri 90 milljörðum króna (1,76 billjónir íslenskra króna) til að efla öryggismál árið 2025.
Til viðbótar boða Evrópuþjóðir þátttöku í vörnum landsins.
Sírius-sveitin, sem hefur það hlutverk að verja gríðarstórt, að mestu óbyggt svæði eyjunnar í norðaustri sem er 972.000 ferkílómetrar, ferðast yfir ísinn á hundasleðum. Sveitin samanstendur af 12 hermönnum og um 70 hundum.
En til að verja allt landsvæðið, sem er 81 prósent þakið ís, hefur danski herinn fjárfest í fimm nýjum norðurslóðaskipum, loftvarnarratsjárkerfi, auk dróna og sjóeftirlitsflugvéla.
Einnig verður lagður sæstrengur fyrir fjarskipti milli Grænlands og Danmerkur. Tveir strengir tengja eyjuna þegar við Ísland og Kanada.
Viðvera Kínverja og Rússa
Í nýlegri skýrslu frá hernaðarlegri leyniþjónustu Danmerkur kom fram að Rússland, Kína og Bandaríkin kepptust öll um að gegna „stærra hlutverki“ á norðurslóðum.
Grænland býr yfir óunnum auðlindum sjaldgæfra jarðmálma og gæti orðið mikilvægur aðili þar sem bráðnun heimskautaíss opnar nýjar siglingaleiðir.
Í ágúst 2025 sáust tvö kínversk rannsóknarskip starfa á norðurslóðum, norður af Bandaríkjunum og Kanada, langt norður af Grænlandi.
„Það er mikilvægt að Donald Trump skilji að það eru ekki rússnesk og kínversk skip meðfram strönd Grænlands,“ sagði Jacobsen.
Kína er einnig nánast fjarverandi í efnahagslífi Grænlands.
Hið hálf-opinbera fyrirtæki Shenghe Resources á 6,5 prósenta hlut í ástralska námufyrirtækinu Energy Transition Minerals, sem vill þróa námusvæði sjaldgæfra jarðmálma á Suður-Grænlandi. Það verkefni er þó stöðvað um þessar mundir.
Að auki var Kína meinað að fjárfesta í nýjum flugvöllum á Grænlandi.
„Grænlenska ríkisstjórnin hafði sett stórt kínverskt ríkisfyrirtæki á forvalslista til að veita tæknilega aðstoð við byggingu nýrra flugvalla fyrir átta árum, en Danmörk og Bandaríkin buðust til að fjármagna flugvellina með því skilyrði að kínverski verktakinn yrði ekki valinn,“ sagði Jesper Willaing Zeuthen frá Álaborgarháskóla í samtali við AFP.
Viðvera Kína á norðurslóðum beinist nú aðallega að Norðursiglingaleiðinni og hefur landið stundum tekið þátt í æfingum með rússnesku strandgæslunni í Beringssundi, samkvæmt mati frá Dansk Institut for Internationale Studier.
Leiðin til sjálfstæðis
Ríkisstjórn Grænlands í Nuuk og dönsk stjórnvöld Kaupmannahöfn hafa ítrekað sagt að landið sé ekki til sölu og að aðeins Grænland geti ákveðið framtíð sína.
Þar er nú við völd samsteypustjórn sem hefur engin áform um að sækjast eftir sjálfstæði frá Danmörku í nánustu framtíð.
Flokkurinn Naleraq, sem vill skjótt sjálfstæði og varð annar í þingkosningum á Grænlandi í mars, er ekki í ríkisstjórn.
Þótt sumir flokksmanna vilji fara fram hjá Danmörku og semja beint við Bandaríkin er opinber stefna flokksins sú að „Naleraq vill ekki að Grænlendingar verði bandarískir. Rétt eins og við viljum ekki vera danskir.“
Fyrir ári sögðust 85 prósent Grænlendinga vera andvíg því að ganga í ríkjabandalag með Bandaríkjunum, samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í dönskum og grænlenskum fjölmiðlum.



































Athugasemdir