Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist fagna hugmynd Snorra Mássonar, varaformanns Miðflokksins, um að Ísland segi sig úr Evrópska efnahagssvæðinu (EES).
Snorri sagði á Alþingi í gær að hann vildi nýta heimildir í EES-samningnum til að hindra fólksflutninga til landsins. „Ef það virkar ekki, ef við hreinlega missum stjórn á eigin lýðfræðilegu örlögum, þá tel ég að hagsmunum okkar sé augljóslega betur borgið utan samstarfsins ef þetta heldur svona áfram mikið lengur,“ bætti hann við.
Þórdís Kolbrún, sem var utanríkisráðherra og fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn, brást við ræðu Snorra í færslu á Facebook síðu sinni í gær.
„Tortryggni Miðflokksins í garð hugmyndafræði um frelsi og alþjóðlegs samstarfs gat kannski ekki endað öðruvísi en með hugmyndum um að Ísland segði sig frá Evrópska efnahagssvæðinu og hætti í EES,“ skrifaði Þórdís Kolbrún. „Ég tel hugmyndina skaðlega og óábyrga. Samt fagna ég henni. Það er hollt fyrir lýðræðið að valkostir séu skýrir og stjórnmálamenn segi það sem þeir eru raunverulega að hugsa. Þá gefst tækifæri til dýpri umræðu um framtíð Íslands.“
„Það er hollt fyrir lýðræðið að valkostir séu skýrir“
EES-samningurinn gekk í gildi árið 1994 og hefur Ísland síðan, ásamt EFTA-ríkjunum Noregi og Liechtenstein, haft aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og fjórfrelsinu svokallaða, sem snýr að frjálsu flæði fólks, vöru, þjónustu og fjármagns innan svæðisins.
„Næsta verkefni Miðflokksins er að útskýra hvernig Íslandi væri betur borgið í efnahagslegu, menningarlegu, öryggislegu og pólitísku tilliti ef við setjum aðgengi að okkar langstærsta markaði í uppnám og fórnum frelsi okkar til þess að ferðast, mennta okkur, skapa og starfa hindranalaust í þeim ríkjum sem standa okkur næst,“ skrifaði Þórdís Kolbrún að lokum. „Ég bíð spennt.“











































Athugasemdir