Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna harmar „rýran árangur“ loftslagsráðstefnunnar COP30 og varaði við því að „banvænt aðgerðaleysi“ leiðtoga gæti einn daginn talist glæpur gegn mannkyni.
Þjóðir innsigluðu hóflegt samkomulag á loftslagsráðstefnu SÞ í Amasón-frumskóginum í Brasilíu á laugardag þar sem mörg lönd sættu sig við veikari skilmála um að hætta notkun jarðefnaeldsneytis til að viðhalda einingu.
Í samkomulaginu er skorað á lönd að „hraða“ aðgerðum sínum í loftslagsmálum af fúsum og frjálsum vilja, en aðeins með óbeinu samþykki um að hætta notkun jarðefnaeldsneytis.
Í ávarpi á vettvangi SÞ um viðskipti og mannréttindi í Genf varaði mannréttindastjórinn Volker Turk við því að „rýr árangur COP30 í Belém“ sýndi fram á hvernig „valdaójafnvægi gagnvart fyrirtækjum ... birtist í neyðarástandi í loftslagsmálum“.
„Jarðefnaeldsneytisiðnaðurinn skilar gríðarlegum hagnaði á meðan hann leggur í rúst sum af fátækustu samfélögum og löndum heims,“ sagði hann.
„Það þarf að vera viðeigandi ábyrgð á þessu óréttlæti og öllum öðrum skaða sem tengist loftslagsóreiðu.“
Turk benti á nýlegan úrskurð Alþjóðadómstólsins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að „ríkisstjórnir þurfi að koma í veg fyrir verulegan skaða á loftslagi okkar, meðal annars með því að setja reglur um fyrirtæki“.
Og Mannréttindadómstóll Ameríkuríkja hefði einnig viðurkennt réttinn til stöðugs loftslags og skorað á lönd að „framfylgja áreiðanleikakönnun fyrirtækja og veita úrræði vegna loftslagstengds skaða“, sagði hann.
Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði á samkomunni í dag að hann velti því oft fyrir sér „hvernig komandi kynslóðir muni dæma aðgerðir leiðtoga okkar – og banvænt aðgerðaleysi þeirra – í loftslagskreppunni eftir 50, 100 ár“.
„Gæti ófullnægjandi viðbrögð nútímans talist vistmorð eða jafnvel glæpur gegn mannkyni?“























































Athugasemdir