Aðildarríki ESB studdu í dag frestun til eins árs á tímamótareglum gegn skógareyðingu sem hafa mætt harðri andstöðu frá fyrirtækjum og viðskiptalöndum, að sögn erindreka sem AFP ræddi við.
Innleiðingu laganna, sem banna innflutning á vörum sem valda eyðingu skógar og hefur þegar verið frestað um eitt ár, yrði frestað til loka árs 2026 samkvæmt áætlunum sem meirihluti aðildarríkja styður. Þær þurfa enn samþykki Evrópuþingsins.
Undir forystu Þýskalands og Austurríkis studdu ESB-ríkin einnig að löggjöfin yrði endurskoðuð í apríl á næsta ári, áður en hún tekur gildi.
Evrópusambandið hefur undanfarið unnið að því að einfalda regluverk og vinda ofan af ákvörðunum um strangari kröfur varðandi umhverfisvernd og mannréttindi, til þess að hjálpa Evrópuríkjum í harðri samkeppni við Kína og Bandaríkin.
Nýja frestunin gengur lengra en sex mánaða aðlögunartímabil fyrir stór fyrirtæki sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafði þegar lagt til, en styður jafnframt kröfu um að draga úr kröfum um skýrslugerðir, meðal annars fyrir lítil fyrirtæki.
Pierre-Jean Sol Brasier hjá umhverfissamtökunum Fern sagði að þessi aðgerð sendi „hörmuleg skilaboð á öllum sviðum“ og kallaði hringlandaháttinn varðandi lögin „skrípamynd af vanhæfri stefnumótun ESB“.
„Við erum að skapa óstöðugleika fyrir fyrirtæki sem hafa fjárfest fyrir milljónir“ til að uppfylla kröfurnar, varaði Sol Brasier við og sagði að nú væri opið fyrir „að löggjafar ESB tæmdu“ textann að innan.
Stórt skref í umhverfisvernd
Lögin gegn skógareyðingu, þekkt sem EUDR, voru samþykkt árið 2023 og voru lofuð af umhverfissamtökum sem stórt skref í baráttunni fyrir verndun náttúrunnar og gegn loftslagsbreytingum.
En lögin hafa mætt harðri andstöðu frá viðskiptalöndum, þar á meðal Brasilíu og Bandaríkjunum, auk stjórnvalda í nokkrum ESB-ríkjum, sem halda því fram að fyrirtæki muni líða fyrir skriffinnsku og auknum kostnaði.
Lögin banna vörur sem framleiddar eru á landi þar sem var eytt skógi eftir desember 2020, en meðal áhættuvara eru allt frá kaffi til kakós, soja, timburs, pálmaolíu, nautgripa, prentpappírs og gúmmís.
Fyrirtæki sem flytja slíkar vörur til 27 ríkja Evrópusambandsins þurfa að leggja fram yfirlýsingu ásamt staðsetningargögnum og gervihnattagögnum til að sýna fram á að vörurnar komi ekki frá eyðilögðu skóglendi.
Samkvæmt upphaflegu áætluninni þurftu fyrirtæki sem síðan kaupa, vinna og selja vörurnar – til dæmis sælgætisframleiðendur sem kaupa kakó til að búa til súkkulaði – einnig að leggja fram slík skjöl.
En framkvæmdastjórnin ákvað síðar að aukaathugunin gæti ofhlaðið upplýsingatæknikerfið sem hannað var til að styðja við reglurnar – og kallaði eftir því að krafan yrði felld niður fyrir alla nema fyrstu innflytjendur.
Nestlé ósátt við frestun
Hringlandaháttur um lögfestinguna hefur bæði truflað umhverfisvernarsinna og svo sum fyrirtæki sem hafa þegar fjárfest til að uppfylla þær.
Ítalski súkkulaðiframleiðandinn Ferrero og svissneski matvælarisinn Nestlé eru meðal tveggja tuga fyrirtækja sem vöruðu við því í vikunni að frekari eins árs frestun myndi „lengja lagalega og markaðslega óvissu, refsa þeim sem eru fyrstir til að bregðast við og verðlauna aðgerðaleysi.“
„Við höfum lagt upp í þessa fjárfestingu í góðri trú vegna þess að við héldum að það væri skýr stefna – og nú er varpað efasemdum á hana,“ sagði Francesco Tramontin, háttsettur stjórnandi hjá Nutella-framleiðandanum Ferrero, á blaðamannafundi á mánudag.




















































Athugasemdir