„Þúsundum kílómetra í burtu, í Norður-Atlantshafinu, þaðan sem ég kem, er annað loftslagskerfi að sýna bresti,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson umhverfisráðherra, á ræðu sinni fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin er í Belém við Amazonfljótið í Brasilíu.
Jóhann Páll lýsti þar hættunni sem steðjar að Íslendingum vegna þess að veltihringrás Norður-Atlantshafsins, AMOC, hefur verið að veikjast, sem ógnar mildu loftslagi Íslands miðað við hnattlegu.

„Nýjar rannsóknir benda til þess að AMOC sé ekki aðeins smám saman að veikjast, heldur sé hættan á stórum, skyndilegum breytingum raunveruleg - og hugsanlega nær en fyrri vísbendingar gerðu ráð fyrir,“ sagði Jóhann Páll í ávarpinu og bætti við að breytingin gæti „valdið djúpstæðri röskun á innviðum, lífkerfum og lífsgæðum, jafnvel á líftíma barnanna okkar“.
Jóhann Páll sagði boðaði auknar aðgerðir í loftslagsmálum.
„Við verðum að draga hraðar úr losun og forgangsraða loftslagsaðgerðum með fjölþættan ávinning. Við verðum líka að fjárfesta duglega í nýsköpun og tækniþróun, allt frá ofurheitum jarðhita til föngunar og niðurdælingar kolefnis. Við skulum ryðja burt hindrunum og stórauka framleiðslu á endurnýjanlegri orku,“ sagði hann í ávarpi sínu.
Í yfirlýsingu frá umhverfisráðuneytinu kemur fram að ráðherra muni meðal annars leggja áherslu á mikilvægi samstarfs ríkja í loftslagsmálum, hnignun veltihringrásararinnar, nýsköpun, föngun og förgun kolefnis og ofurheitan jarðhita. Þá muni hann einnig boða til sérstaks viðburðar um AMOC veltihringrásina og mögulega hnignun hennar í svokölluðum freðhvolfsskála (Cryosphere-skála), á fimmtudag, þar sem Dr. Stefan Rahmstrof mun halda erindi ásamt öðrum, en hann er einn fremsti sérfræðingur heims í áhrifum loftslagsbreytinga á hafstrauma.
Heimildin hefur reglulega fjallað um um hættuna sem steðjar að breytingu hafstrauma vegna loftslagsáhrifa síðustu ár.
Árið 2023 fjallaði Heimildin um nýja rannsókn danskra vísindamanna sem benti til þess að vendipunktur væri nær en áður hafði verið talið. Innan samhengis líkans þeirra voru 95% líkur á að veltihringrásin hrynji á tímabilinu 2025 til 2095 og líklegasti vendipunktur árið 2057, eftir 34 ár.
Þar var haft eftir öðrum af tveimur rannsakendunum að loftslag á Íslandi myndi verða líkt og nú er á Svalbarða, ef svo færi. „Ísland mun líklega verða fyrir 5-10 gráðu lækkun á hitastigi, sem hlýnun jarðar bætir þó upp að hluta,“ sagði Peter Ditlevsen, prófessor við Niels Bohr stofnunina í Kaupmannahöfn.
Í fyrra sagði Stefan Rahmstorf í samtali við Heimildina að niðurbrot AMOC yrði „katastrófa fyrir Ísland“ og hvatti stjórnvöld til aðgerða.
„Persónulega þá tel ég að áhættan á þessum breytingum í hafi sé svo alvarleg, sérstaklega fyrir Íslendinga og hin Norðurlöndin, að ríkisstjórn Íslands ætti umsvifalaust að grípa til aðgerða ásamt ríkisstjórnum hinna Norðurlandanna,“ sagði Rahmstorf.
Síðan þá hafa sumar rannsóknir bent til þess að hrunið sé ólíklegt fyrir árið 2100, en aðrar að vendipunkturinn sé óumflýjanlegur innan fárra áratuga og hrunið sjálft teygi sig yfir 50 til 100 ár, þar til hitastig að vetri fer allt niður í -50 gráður í norrænum borgum og sveiflur í veðurfari leiða til vaxandi óstöðugleika.





















































Athugasemdir