Forsætisráðherra Íslands kallaði saman þjóðaröryggisráðið til fundar í dag, vegna þess að óþekktir drónar hafa sést á Norðurlöndunum, hugsanlega á vegum Rússa.
Á sama tíma er skref fyrir skref að eiga sér breyting á Bandaríkjunum, sem við höfum treyst á sem algera forsendu öryggis okkar. Þessar breytingar eru þess eðlis að fari þær yfir ákveðinn þröskuld, sem nú nálgast, getur ríkið sem við gerðum varnarsamning við, orðið mesta ógnin.
Undanfari einræðis
Með velviljaðri túlkun má segja að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi haft rétt fyrir sér með lykilmál sín. Iðnaður hefur flust frá Vesturlöndum og stóreflt stöðu einræðisríkisins Kína. Evrópsk ríki lögðu minna til varnarmála og treystu þess meira á Bandaríkin. Þau nýttu sér hernaðarlegan viðbúnað Bandaríkjanna til að uppskera friðarábata og fjármagna velferðarríki, á meðan lífaldur hvítra Bandaríkjamanna fór fallandi.
Donald Trump hefur þannig verið að bregðast við hnignun Bandaríkjanna, ekki síst hlutfallslega rýrnandi stöðu hvítra á tímum alþjóðavæðingar, tilflutnings starfa og félagslegra umbóta fyrir minnihlutahópa.
„Hvað eigum við eiginlega að gera við Ísland?“ spurði forsetinn
Rannsóknir á því hvað veldur uppgangi einræðis og upplausn lýðræðis hafa sýnt að undanfarinn er gjarnan einhvers konar niðurlæging sem íbúar upplifa. Þetta gerðist í Þýskalandi eftir Versalasamningana og kreppuna miklu á þriðja og fjórða áratugi síðustu aldar. Sama átti sér stað í Rússlandi á 10. áratugnum eftir fall Sovétríkjanna og hruns á lífsgæðum og stöðu landsins í heiminum.
Þessi „niðurlæging“ eða skert staða sem hvítir, oftast karlkyns, Bandaríkjamenn upplifðu, var í það minnsta nóg til þess að Donald Trump var kjörinn Bandaríkjaforseti í tvígang – og í seinna skiptið með stefnuskrá sem boðaði hefndir og upplausn lýðræðislegra gilda.
En þetta hefur ekki nægt til að veita honum fullt umboð til að afnema lýðræði, eða koma á blönduðu einræði í stíl við Rússland og fleiri nútímaleg einræðisríki.
Hvað á að gera við Ísland?
Meiri ástæða er fyrir Íslendinga til að fylgjast með ógnum gegn lýðræði í Bandaríkjunum heldur en langflest önnur lönd. Augljósa ástæðan er að öryggi Íslands er nánast alfarið á forsendum Bandaríkjanna, á sama tíma og Bandaríkjaforseti hefur hótað leynt og ljóst að hertaka næsta nágrannaríki okkar til að komast í auðlindir þess.
Ísland hefur varnarsamning við Bandaríkin sem veitir þeim – og þar með Trump – ríkar heimildir til að athafna sig hér á landi. Í vor var greint frá því að skjöl hefðu fundist meðal bandarískra yfirvalda um uppfærslu á varnarsamningnum, sem ekki var borinn undir Alþingi eða hvað þá landsmenn þegar hún var samþykkt af utanríkisráðherra árið 2017, í fyrri forsetatíð Donalds Trump.
Samkvæmt varnarsamningnum eru Íslendingar skuldbundnir til að veita bandaríska hernum aðgengi að og yfirráð yfir „operating locations“ á Íslandi, sem eru lítt skilgreindar, og að „tryggja öryggi og velferð bandarískra hermanna“. Komi upp „military emergency“, sem væntanlega er túlkunaratriði hvert er, verður Íslendingum skylt að samþykkja komu herliðs.
„Hernaðarlegt neyðarástand“ gæti verið túlkað með ýmsum hætti, líkt og Bandaríkjaforseti hefur gert með Washingtonborg, Los Angeles, Portland og Chicago, þangað sem forsetinn hefur ákveðið að senda herlið á þeim forsendum að neyðarástand ríki. Trump lýsti til að mynda yfir „neyðarástandi“ til að réttlæta álagningu tolla. Hann lýsti átta sinnum yfir neyðarástandi fyrstu 100 daga forsetatíðar sinnar, en ekki er ljóst hvaða afstöðu hæstiréttur landsins tekur.
Hingað til hefur herkænska Íslendinga legið í því að liggja lágt og halda sig utan radars. En líkt og Jens Stoltenberg, fyrrverandi framkvæmdastjóri Nató, segir frá í ævisögu sinni, er Trump að hugsa málið. „Hvað eigum við eiginlega að gera við Ísland?“ spurði forsetinn Stoltenberg, vegna lítils framlags til hernaðarútgjalda.
Þessi spurning mun líklega vakna aftur.
Sakleysi íslenskra sérfræðinga
Það er aðeins handfylli af sérfræðingum sem leitað er til um bandarísk stjórnmál og hernaðarmál, vegna mannfæðar Íslendinga. Þeir hafa lengst af verið bjartsýnir og tekið Trump lítið alvarlega, enda muni valddreifing halda aftur af honum.
Hann beitir ekki vopnum gegn andstæðingum sínum, sagði einn þáttarstjórnandinn á miðli sem er sérstaklega jákvæður á Trump. Almannaráðgjafi og yfirlýstur sérfræðingur um bandarísk stjórnmál, sem helst var leitað til í fréttamiðlum, mælti með því að orð hans væru síður tekin bókstaflega, því „þetta sé bara samningatækni“.
Nú hefur margt breyst. Ef vörðuð hefði verið leið í átt að einræði í upphafi árs, hefur Trump þrætt þá leið af festu, án þess að hafa náð áfangastað enn.
Eitt af því sem bent hefur verið á sem rök gegn því að Trump sé hvers kyns „fasisti“ er að fasismi felur í sér beitingu ofbeldis, gjarnan með vopnuðum sveitum í eigin þágu. Í Þýskalandi á þriðja og fjórða áratugnum voru það brúnstakkar nasista, á Ítalíu frá þriðja áratugnum svartstakkar Mussolinis.
ICE-sveitir Trumps eru núna orðin stærsta löggæslusveitin í Bandaríkjunum og þær hafa heimild frá Trump til alvarlegrar valdbeitingar. Hann hefur tekið yfir þjóðvarðalið og sent herflokka í borgir sem pólitískir andstæðingar hans stýra.
Loks hóf hann í síðasta mánuði að drepa grunaða fíkniefnasmyglara án dóms og laga, að sprengja upp báta.
Stuðningur við þjóðarmorð
Til viðbótar hefur Bandaríkjaforseti ýmist litið undan eða samþykkt þjóðarmorð Ísraelshers gegn Palestínumönnum. Auk þess hefur hann ýtt undir þjóðarmorð með því að tala fyrir brottflutningi íbúa á Gaza, í því samhengi að hann muni byggja Trump-Gaza í kjölfarið.
Undirliggjandi í friðartillögum Trumps um Palestínu í vikunni var að ef þær yrðu ekki samþykktar tæki við áframhaldandi þjóðarmorð. Hann tók enga skilyrðislausa afstöðu gegn því. Þvert á móti sagði hann að það yrði „mjög sorglegt“ ef skilmálar hans yrðu ekki samþykktir og forsætisráðherra Ísraels, sem stóð honum við hlið, lofaði að „klára verkið“.
Trump vinnur að því að fá samþykkt lög sem heimila honum að drepa án dóms og laga þá sem grunaðir eru um fíkniefnasmygl. Þeir verði skilgreindir sem „ólögmætir hermenn“ og baráttan gegn þeim „vopnuð átök“. Hann er nú þegar byrjaður á þessu, með því að hafa látið drepa 17 manns á tveimur bátum á Karíbahafinu. Annar þeirra var á leið aftur í land í Venesúela þegar hann lét sprengja hann í loft upp.
Um leið vinnur Trump að því að nýta skilgreiningu á hryðjuverkasamtökum fyrir aðra og víðari hópa.
Trump hefur formlega lýst andfasista, stundum undir merkjum Antifa en án nokkurrar formlegrar uppbyggingar eða skipulegra tengsla sín á milli, sem hryðjuverkamenn.
Virði mannslífa og réttindi fólks hafa rýrnað undir Trump. Það er hins vegar ekki endapunktur, heldur einkenni með forspárgildi.
Framtíðin ræðst ekki af því sem hefur verið hingað til, heldur hversu mikil völd Trump mun hafa á hverjum tímapunkti. Hann tekur nú skýr skref til að auka þau.
Alráðurinn – „Unitary executive“
Trumpismi vinnur eftir kenningu um að forseti sé alráður yfir framkvæmdavaldinu, sem kallað er „unitary executive“.
Á aðeins rúmum átta mánuðum hefur Donald Trump tekist að ganga mun lengra en á fyrra kjörtímabili sínu öllu í því að ná valdi yfir stofnunum Bandaríkjanna. Lykilstofnanirnar eru þær sem hægt er að nýta til valdbeitingar. Þannig náði Trump þeim árangri nýlega að fá fyrrverandi forstjóra Alríkislögreglunnar (FBI), James Comey, ákærðan með því að beita dómsmálaráðuneytinu, sem öllu jafna á að vera yfir stjórnmál hafið.
Hann hefur náð nánast fullu valdi yfir Alríkislögreglunni, með sýnilega óhæfum og öfgafullum en honum hliðhollum Kash Padel sem stjóra.
Sérfræðingar hafa bent á að dómstólar geti enn stöðvað Trump. Þeir hafa sannarlega tekið afstöðu gegn honum. En ef Trump nær fullri stjórn á öllum valdbeitingartólum ríkisins mun engu máli skipta hvað dómstólar úrskurða, ef þeir úrskurða þá gegn valdinu. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur reyndar þegar úrskurðað að forseti Bandaríkjanna geti ekki brotið lög með aðgerðum sínum sem forseti.
Stjórn Trumps breytti nýverið nafni varnarmálaráðuneytisins í stríðsmálaráðuneytið, til að undirstrika fyrirætlun sína. Í vikunni reyndi Trump síðan, með hjálp stríðsmálaráðherra síns, að sýna öllum yfirmönnum Bandaríkjahers vald sitt og valdbeitingargetu. Á sviði fyrir framan þá talaði Trump um „óvininn innra“ sem herinn myndi þurfa takast á við. Þótt hann hafi ekki úrskurðað þá sem hryðjuverkamenn með beinum hætti hefur Trump lýst pólitískum andstæðingum sínum og sjálfstæðum fjölmiðlum sem óvinum samfélagsins.
Beðið er eftir því sem getur réttlætt meiri valdbeitingu og valdatöku forsetans, sem um leið gæti hugsanlega réttlætt komu bandaríska hersins til Íslands.
Atburðurinn
Oft þarf til atburð sem nýttur er til þess að innsigla einræði.
Margir þekkja söguna af því þegar þýska þinghúsið, Reichstag, var brennt árið 1933, sem gaf nasistum átyllu til þess að herða völd sín og hreinsa upp pólitíska andstöðu. Í Ísrael var árás og fjöldamorð Hamas 7. október 2023 slíkur atburður gagnvart Palestínumönnum sem réttlætti yfirgengilega valdbeitingu og þjóðarmorð.
Nasistar héldu mikið upp á samflokksmann sinn, Horst Wessel, sem var myrtur árið 1930, að þeirra sögn af kommúnista. Nafni hans var haldið á lofti og sungið um sögu hans.
Trumpistar reyndu hvað þeir gátu til að gera morðið á Charlie Kirk að atburði, sem gæfi ákveðið skotleyfi á vinstri menn. Nýlega héldu trumpistar á lofti atburði þar sem heimilislaus, svartur maður myrti hvíta konu í lest. Stuðningsmenn hans vildu fjármagna vegglistaverk af henni víða um Bandaríkin, til að undirstrika ógnina af heimilislausum og hugsanlega þeldökkum. Trump er almennt andsnúinn flóttamönnum, en gerir undantekningu þegar þeir eru hvítir, eins og gilti um Suður-Afríku.
Trump vinnur nú að því að glæpavæða heimilislausa, meðal annars með forsetatilskipun í júlí. Þáttarstjórnandi hjá Fox News talaði um að lóga ætti heimilislausum með eitursprautu. Hann baðst afsökunar, en mynstrið er til staðar.
Með því að draga úr mennsku tiltekinna hópa má réttlæta valdbeitingu gegn þeim. Leiðin til þess er oft að svipta þá mannlegri reisn. Hreinsun á heimilislausum var hluti af ástæðu þess að Trump sendi þjóðvarðliða til Washington.
Eftir að mannvirðið er afnumið af tilteknum hópum má víkka út hópana og því stærri sem þeir eru, þess þakklátari verða hin fyrir að standa utan þeirra.
Maðurinn í miðjunni
Mikilvægustu tæki Trumps í valdatökunni eru ógnir og óvissa, og svo glundroði, sem er blanda af því tvennu.
Því meiri óvissa sem ríkir, þess oftar verður svarið Trump. Enginn veit hvernig tollum verður háttað og allir þurfa að leita til hans. Þess vegna hefur auðugasta fólk heims komið til hans í röðum og færandi gjafir.
Trump fagnaði því í vikunni að Demókratar létu stöðva rekstur ríkisins með andstöðu við fjárlög, vegna þess að þá tækist að ganga lengra í að „skera burt fólk“ og skera niður í heilbrigðisstuðningi og bótum, sem færir enn fleira fólk í veikustu stöðuna. Öll mótmæli eða órói landsmanna kallar aftur á valdbeitingu.
Glundroði, sem kallar á inngrip og aukið umboð „sterka leiðtogans“, getur átt sér stað innanlands og á alþjóðasviðinu.
Skipting heimsins
Þekkt er að stríð geti stóraukið vinsældir valdhafa. Þannig náði Vladimir Pútín fyrst ævintýralegum vinsældum með grimmilegri innrás sinni í Téteníu – vegna meintrar hryðjuverkaógnar – og Úkraínu 2014.
„Stjórnmálin á Íslandi virðast eiga erfitt með að bregðast við augljósum ógnum í tæka tíð
Stórhuga leiðtogar hafa stundað að skipta heiminum á milli sín. Vitað er að Trump hefur meiri tengsl og meiri aðdáun gagnvart einræðislegum leiðtogum en fyrri Bandaríkjaforsetar.
Spánverjar og Portúgalir skiptu með sér heiminum eftir að hafa náð forskoti í hafsiglingum 1494.
Stalín og Hitler sömdu um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði sín á milli 24. ágúst 1939 með Molotov-Ribbentropp samningnum, viku áður en Þjóðverjar framkölluðu árás á sig sjálfa undir fölsku flaggi Póllands, til að réttlæta sína eigin innrás í Pólland og tryggja landbrú milli þýskra landsvæða, sem Þjóðverjar töldu sig þurfa.
Undanfari landvinninga er oft samningur og skilningur milli stórvelda eða valdamanna, rétt eins og sjá mátti þegar Pútín og Xi Jinping innsigluðu takmarkalausa vináttu nokkrum vikum áður en Pútín reyndi að hertaka Úkraínu í febrúar 2022.
Endalok heimskerfis
Trump hefur ákveðið að brjóta upp regluvædda heimskerfið sem byggt var upp undir forystu Bandaríkjanna eftir seinni heimsstyrjöldina. „Frjálslynd heimsmynd“ með viðmiðum og reglum, sem byggjast á Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála SÞ. Sú heimsmynd er ein helsta forsenda sjálfstæðis Íslands.
Það er Trump í hag að rýmka heimildir stóru ríkjanna til að valdbeita þau minni, svo fordæmin réttlæti sömu heimildir fyrir hann.
Trump ákvað í sumar að stöðva 400 milljóna dollara hernaðarstuðning við Taívan til að nýta hann í samningsstöðu gagnvart Xi Jinping.
Það helsta sem hann vantar til að geta notað allt afl bandaríska alríkisins er full stjórn yfir hernum, það er að segja handan laga. Hann getur þó ráðið og rekið yfirmenn hersins, með aðkomu þingsins. Hann mun vinna áfram að yfirtöku hersins með þeim aðferðum sem honum eru opnar hverju sinni. Hingað til hefur hann stuðst við baráttu gegn jákvæðri mismunun og látið reka þeldökka og konur.
Hann vill að Donald Trump geti valtað yfir hvern sem þýðist honum ekki í Bandaríkjunum. Það sama vill hann fyrir Bandaríkin gagnvart heiminum, en það eru þó ekki öll lönd þannig að hann geti áreynslulaust valtað yfir þau. Eitt þeirra er þó Ísland.
Opin landgönguheimild
Dönsk yfirvöld kynntu nýlega aukningu á útgjöldum til varnarmála. Það sem vakti athygli var að þeir sniðgengu bandarísk vopn. Þar er tekið alvarlega að Bandaríkin ógna öryggi og landhelgi Danmerkur.
Á einhverjum tímapunkti, sem gæti gerst í nálægri framtíð, getur Trump öðlast svo mikil völd innanlands í Bandaríkjunum að hann getur hrint í framkvæmd draumum sínum og yfirlýsingum um útþenslu Bandaríkjanna. Samningsstaða Íslendinga gegn „samningamanninum“ Trump verður lítil sem engin ef hann hefur nær að breyta Bandaríkjunum í blandað einræði.
Augnablikið þegar og ef Trump kemst yfir þröskuldinn verður líklega of seint að bregðast við. Þá verður varasamt að bókstafskristið, karllægt, herskátt og einræðissinnað herveldi, með takmarkaðri virðingu fyrir réttindum og lífum þeirra sem þau flokka sem andstæðinga eða útlendinga, eigi opna landgöngu- og hernámsheimild á Íslandi. Á sama tíma hafa Bandaríkin fordæmalaust vald yfir Íslandi og Íslendingum, með því að eigendur samfélagsmiðla, samskiptakerfa og annarra innviða sem Íslendingar nota geta stýrt þeim eftir hagsmunum og kröfu bandarískra yfirvalda. Í nálægri framtíð er síðan líklegt að þróun gervigreindar geri framlag manneskju óþarft í fleiri og fleiri tegundum verðmætasköpunar, auk þess að valdbeiting getur verið framkvæmd af gervigreind án aðkomu samhyggðar.
Stjórnmálin á Íslandi virðast eiga erfitt með að bregðast við augljósum ógnum í tæka tíð, enda virðast þær stundum stærri en svo að það borgi sig að ræða þær.
En yfirlýsingar Bandaríkjaforseta og stigmögnun hans á valdbeitingu ættu að lágmarki að vera tilefni umræðu í þjóðaröryggisráðinu og til þess að marka skýra stefnu um lausn undan vaxandi geðþóttavaldi Trumps. Það er, vilji stjórnmálafólkið ekki með athafnaleysi sínu láta okkur fljóta „sofandi að feigðarósi“, eins og sagt var þegar efnahagslegur fellibylur skall á landinu að vestan.
Athugasemdir