Spáði falli Play og fékk skammir

Flug­stjór­inn Jón Þór Þor­valds­son full­yrti að Play væri með­vit­að að selja ferð­ir sem vit­að væri að „yrðu aldrei flogn­ar“. Play sak­aði hann um „rang­færsl­ur og dylgj­ur“.

Spáði falli Play og fékk skammir
Tekist á fyrir lendinguna Einar Örn Ólafsson og félagar í Play Air svöruðu fullum hálsi þegar formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, Jón Þór Þorvaldsson, lýsti því hvernig endalokin blöstu við hjá Play Air.

„Hvað er að fara að gerast núna hjá Play? Hver er að fara að borga það? Nú er verið að selja ferðir, sem að við vitum að verða ekki flognar,“ sagði Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), í byrjun mánaðarins, þegar hann boðaði að félagið stefndi í þrot.

Viðbrögð forsvarsmanna Play Air voru að saka hann um „dylgjur“. Play Air tilkynnti í morgun fyrirvaralaust að starfsemi félagsins hefði verið stöðvuð og eru þúsundir farþega strandaglópar fyrir vikið.

Jón Þór, sem starfar hjá Icelandair og er þess utan fyrrverandi varaþingmaður Miðflokksins, sagði í samtali við Bylgjuna 2. september síðastliðinn blasa við af lestri ársreikninga Play og yfirlýsinga forsvarsmanna félagsins, að ekki yrði farið í ferðir sem þá væru seldar. 

„Það er mikilvægt að almenningur og fjölmiðlar geri sér grein fyrir að maðurinn sem tjáir sig með þessum óábyrga og vafasama hætti er starfsmaður Icelandair“
Yfirlýsing Play Air
2. september 2025

„Já, ég held að það sjái það allir, félagið sem er á Íslandi, félagið sem er skráð á Möltu verður kannski áfram til, en félagið sem er skráð í Kauphöll það ætlar allavega að skila inn flugrekstrarleyfinu þannig að það verður ekki flugrekandi. Hvað verður það þá? Verður þetta ferðaskrifstofa? Nei. Verður þetta farmiðasala? Líklega, já. En hver er þá ábyrgðin gagnvart neytandanum?“

Play svaraði fullum hálsi

Jón Þór ÞorvaldssonVaraði við því að ekki yrði farið í flugferðir sem verið væri að selja hjá Play.

Forsvarsmenn Play Air svöruðu fullum Jóni Þór fullum hálsi í yfirlýsingu til DV og Vísis, sem fjölluðu um fyrrnefnd viðtal. Þar var hann sakaður um „rangfærslur og dylgjur“:

„Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), hvers félagsmenn eru langflestir starfsmenn Icelandair, hefur farið mikinn í opinberri umræðu um flugfélagið Play og látið hafa eftir sér ummæli sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en rangfærslur og dylgjur í garð Play. Það er mikilvægt að almenningur og fjölmiðlar geri sér grein fyrir að maðurinn sem tjáir sig með þessum óábyrga og vafasama hætti er starfsmaður Icelandair, samkeppnisaðila Play, og hefur beina hagsmuni af því að ráðast gegn Play. Það styttist í kjaraviðræður milli FÍA og Icelandair og formaðurinn greinilega að setja sig í stellingar fyrir þau átök.“

Play Air boðaði allt aðra framtíðarsýn en Jón Þór lýsti, sem og aðra en þá sem raungerðist. 

„Þá er Jón Þór með spádóma um framtíð Play og því talið rétt að benda á eftirfarandi: Félagið tryggði sér nýverið 2,8 milljarða frá fjárfestum til að styðja við breytingar á viðskiptamódeli félagsins. Þetta sýnir tiltrú fjárfesta á félaginu og framtíð þess. Nýja viðskiptalíkanið gerir ráð fyrir að fjórar vélar verða gerðar út frá Íslandi og þeim verður flogið með áhöfnum frá Íslandi og á nýgerðum íslenskum kjarasamningum. Sex vélar verða leigðar út til annarra flugrekenda í Evrópu og félaginu þannig tryggðar jafnar tekjur yfir árið sem styrkir rekstrargrundvöll félagsins til muna. Er búist við miklum afkomabata í kjölfarið.“

Lífeyrissjóðir lögðu fram milljarða

Svo virðist sem íslenskir lífeyrissjóðir hafi tapað milljörðum á þátttöku í fjármögnun Play og að bæst hafi í tap almennings með skuldabréfaútgáfunni sem Play vísaði til í yfirlýsingu sinni. 

Fjárfestar hafa lagt félaginu til 17 milljarða króna frá sumrinu 2021, eins og kemur fram í yfirferð fréttavefsins ff7.is, áður túrista.is. Samkvæmt staðhæfingu fréttamiðilsins hafði Play þegar fengið greidda 2,8 milljarða króna, sem safnað var í skuldabréfaútgáfu í lok sumars, með 17,5 prósent vöxtum.

Meðal þeirra sem tóku þátt í skuldabréfaútgáfunni var lífeyrissjóðurinn Birta. 

Þetta er eitt af því sem Jón Þór Þorvaldsson gagnrýndi í viðtali við Bítið á Bylgjunni í byrjun mánaðar. „Þar eru sem sagt fjárfestar lokkaðir að stofna þessi félög, meðal annars lífeyrissjóðir, á þeim forsendum að það standi til að fara í félagsleg undirboð, lækka laun um 19 til 37 prósent og rýra öll kjör þeirra sem munu starfa hjá félaginu.“ Hann lýsti því að endalok Play blöstu við.

„Þeir eru að segja að þeir ætli að skila inn flugrekstrarleyfinu þannig að það verður ekki lengur tengihöfn hér á Íslandi og það verða færri vélar. Þetta verða ekki íslenskar áhafnir. Það er verið að flytja félagið úr landi í raun og veru til þess að ráða fólk á lægri launum, sem gengur reyndar ekki vel, niðri í Austur-Evrópu.“

Kröfuhafar farnir af stað

Play tilkynnti rekstrarstöðvun sína til kauphallarinnar í morgun, með tilvísun í að fjölmiðlaumfjöllun hafi verið neikvæð. „Rekstur félagsins hefur lengi gengið verr en vonir stóðu til, flugmiðasala hefur ekki gengið vel síðustu vikur og mánuði í kjölfar neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar um reksturinn og þá hefur ríkt ósætti á meðal hluta starfsmanna félagsins vegna breytinga á stefnu þess,“ sagði í tilkynningunnni. Þar var jafnframt beðist afsökunar.

„Ljóst er að þúsundir farþega þurfa að endurskipuleggja heimför, á um það bil 400 missa vinnuna og samstarfsaðilar fyrirtækisins verða fyrir tjóni. Við þetta tilefni leggja stjórn og stjórnendur PLAY áherslu á að allt hafi verið reynt til þess að niðurstaðan yrði önnur. Þessi ákvörðun er sú allra þungbærasta í stöðunni og er hún aðeins tekin í ljósi þess að aðrar leiðir töldust fullreyndar.  Stjórnin biður alla þá sem verða fyrir neikvæðum afleiðingum vegna þessarar niðurstöðu innilega afsökunar.“

Í umfjöllun Innherja á Vísi.is kemur fram að Play hafi verið í vanefndum og innheimtuaðgerðir hafnar. Yfirvofandi væri fundur kröfuhafa á mánudag í næstu viku. Þar kemur jafnframt fram að fjárfestar sem keyptu skuldabréfin hafi fengið veð í öllu hlutafé dótturfélaga, Fly Play Europe og Play Lithuania, ásamt hugaverkaréttindum, vörumerkjum, vefsíðu og hugbúnaðarlausnum.

Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Gjaldþrot Play

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Brotthvarf að meðaltali hærra úr íslenskum háskólum en í OECD-ríkjum
3
Fréttir

Brott­hvarf að með­al­tali hærra úr ís­lensk­um há­skól­um en í OECD-ríkj­um

Nið­ur­stöð­ur nýrr­ar skýrslu OECD um há­skóla­mál sýna að brott­hvarf er hærra á Ís­landi en að með­al­tali í OECD-ríkj­um. Þá seg­ir að tryggja þurfi að ís­lensk­ir há­skól­ar standi jafn­fæt­is öðr­um OECD há­skól­um. „Þess­ar nið­ur­stöð­ur stað­festa að há­skóla­mál­in þurfa að njóta sér­stakr­ar at­hygli,“ seg­ir Logi Ein­ars­son menn­ing­ar-, ný­sköp­un­ar- og há­skóla­ráð­herra.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár