Látlausar árásir hafa dunið á Gaza-borg yfir helgina. Þá hafa fimm látist af völdum vannæringar á síðasta sólarhring, þar á meðal tvö börn. Amnesty International sakar Ísrael um að svelta fólk vísvitandi. Viðræður um vopnahlé hafa farið fram í Egyptalandi, eftir að Benjamin Netanyahu fékk samþykkta áætlun um að taka yfir Gaza. Nú hefur AFP-fréttastofan eftir heimildum að Hamas hafi samþykkt tillögu að vopnahléi.
„Hamas hefur afhent svar sitt til milligöngumanna, þar sem staðfest er að Hamas samþykki nýja vopnahléstillögu án þess að krefjast breytinga,“ sagði heimildarmaður við AFP. Hann er sagður tengjast Hamas en hafa óskað nafnleyndar.
Þá var haft eftir palenstínskum heimildarmanni sem hefur upplýsingar um viðræðurnar að milligöngumenn muni „væntanlega tilkynna að samkomulag hafi náðst og ákveða hvaða dagsetningu viðræður hefjast á ný.“
Heimildarmaðurinn bætti við að „milligöngumenn hafi veitt Hamas tryggingar um að vopnahlé yrði komið á, ásamt skuldbindingu um að hefja aftur viðræður til að leita varanlegrar lausnar.“
Engin viðbrögð hafa borist frá ísraelskum stjórnvöldum vegna málsins.

Tilraunir fulltrúa frá Egyptalandi og Katar, ásamt Bandaríkjunum, hafa hingað til ekki skilað þeim árangri að hægt sé að að tryggja varanlegt vopnahlé í stríðinu, sem nú hefur staðið yfir í 22 mánuði og skapað alvarlega mannúðarkrísu á Gaza-svæðinu.
Annar palestínskur embættismaður sagði fyrr í dag við AFP að milligöngumenn hefðu lagt til 60 daga vopnahlé og gíslalosun í tveimur lotum.
Heimildarmaður úr palestínskri vígahreyfingu sem hefur barist við hlið Hamas í Gaza, sagði við AFP að áætlunin fæli í sér 60 daga vopnahlé og að „tíu ísraelskir gíslar yrðu látnir lausir á lífi,“ auk þess sem lík nokkurra Ísraelsmanna yrðu afhent.
Samkvæmt sama heimildarmanni yrðu „þeir gíslar sem eftir væru látnir lausir í annarri umferð, með því skilyrði að tafarlausar viðræður hæfust um víðtækara samkomulag,“ um varanleg stríðslok. „Með alþjóðlegum tryggingum,“ bætti hann við.
Af 251 gíslum sem Hamas tók til fanga í árásinni þann 7. október 2023, eru 49 enn í haldi. Af þeim telur ísraelski herinn að 27 séu látnir.
Árás Hamas leiddi til dauða 1.219 manns. Flestir þeirra voru óbreyttir borgarar, samkvæmt samantekt AFP sem byggði á opinberum tölum. Frá þeim tíma hefur Ísrael drepið meira en 62 þúsund Palestínumenn, sem voru einnig flestir óbreyttir borgarar, samkvæmt tölum frá heilbrigðisráðuneyti Gaza, sem Sameinuðu þjóðirnar telja áreiðanlegar.
Athugasemdir