Í vikunni var komið fyrir nýrri göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut sem tengir saman hina nýju Vogabyggð og Vogahverfi. Verkið er hluti af öryggisaðgerðum í tengslum við nýjan samgöngusáttmála og til stendur að brúin verði tekin í notkun í næsta mánuði.
Heimildin ræddi við tvo íbúa í Vogabyggð sem höfðu áður vakið máls á hættunni sem fælist í Sæbrautinni fyrir íbúa í hverfinu og spurði þá hvað þeim fyndist um nýju brúna.
Forvitnilegt hve margir muni nýta sér brúna
„Ég er mjög ánægð með göngubrúna. Ég get ekki beðið eftir að hún opni,“ segir Birta Sif Arnardóttir í samtali við Heimildina. „Ég held þetta breyti öllu. Um leið og hún verður opnuð er ég farin fram og til baka, þótt það væri ekki nema til að gera það.“
Heimir Freyr Hlöðversson er aðeins neikvæðari í garð brúarinnar. „Mér finnst þetta pínu hallærisleg framkvæmd. Þetta er algjör redding,“ segir hann.
Athugasemdir