Vignir Már Lýðsson hefur hlaupið síðan árið 2000. Hann segir að það haldist í hendur að vera góður í braut, götuhlaupum og víðavangshlaupum. Vignir er mjög góður hlaupari.
„Jú, ég hef unnið einhver hlaup, ég hef verið að hlaupa síðan árið 2000 en ég hef ekki unnið Íslandsmeistaratitil eða neitt sambærilegt, en ég hef tekið þátt í mörgum götuhlaupum.
Maður þarf að vera „all in“ til að ná þeim árangri en fólk er kannski með fjölskyldu og er í vinnu sem tekur tíma svo það getur verið erfitt. Það eru margir sem æfa nánast eins og atvinnumenn án þess að vera það, þetta er mjög stórt áhugamál og það er það líka hjá mér og hefur tekið stóran hluta af mínu lífi í gegnum árin.“
Sér fyrir mismunandi aðstæður
Vignir byrjaði í frjálsum íþróttum og í brautarhlaupum, hljóp 800 og 1.500 metra en sneri sér svo mikið að götuhlaupum. Hann hefur einnig verið í utanvegahlaupum.
Hann segir að hlauparar þurfi í fyrsta lagi að sjá fyrir sér endamarkið eða markmiðið sem þeir vilji ná og vinna sig í gegnum það í huganum.
Á hvað ertu að fókusera í hlaupunum, er það misjafnt eftir því hvers konar hlaup þú ert að fara?
„Nei, þetta er þannig að þú fókuserar á að gera þitt besta í hlaupinu og ég held að það skipti ekki einu sinni máli hvort það sé hlaup eða annað, það er ákveðinn fókus sem þarf að vera til staðar til að koma þér inn í það sem þú ert að gera, og gera það aftur og aftur, maður setur upp í kollinum mismunandi aðstæður sem geta komið upp þannig að maður hafi ákveðna mynd og geti séð fyrir sér atvik sem geta komið upp. Til dæmis ef maður er að hlaupa nýja braut, og veltir fyrir sér hvernig maður ætlar að takast á við, ef það verður vindur eða sól, fleiri brekkur en maður gerði ráð fyrir eða annað. Þetta er hluti af undirbúningnum fyrir keppni. Maður getur gert svona hugsunartilraunir og síðan ef viðkomandi atvik kemur upp þá er maður kannski búinn að gera sér í hugarlund hvernig maður ætlar að bregðast við.“
Hvað þarf til að komast á þann stað sem þú ert á, að vinna hlaup, er það fyrst og fremst að vera með réttan fókus?
„Maður þarf að æfa stöðugt í langan tíma, ég held að það sé númer eitt. En það er ekki nóg að æfa, maður þarf líka að geta skilað góðum árangri í keppni og þá þarf hausinn að vera í lagi, og setja sér raunhæf markmið, ekki setja sér stórt markmið til að ná á stuttum tíma heldur færri og smærri á ákveðnum tíma og geta þá náð þeim til þess að ná lokamarkmiðinu og líka að taka þátt í keppnishlaupum, „keep showing up“,“ segir Vignir.
Margir bestu hlauparar heims frá ákveðnu svæði
Vignir hefur farið sjö sinnum í æfingabúðir til Kenía. Þar er ýmislegt sem hlauparar sækjast eftir.
„Kenía er Mekka hlaupanna. Margir frægustu og bestu hlauparar heims eru frá Kenía. Flestir þessara hlaupara koma frá ákveðnu svæði í Kenía og eru af tilteknum ættbálki sem heitir Kalenjin, sem býr að mestu í vesturhluta landsins. Þar hefur myndast ákveðinn kúltúr fyrir hlaupum sem margir sækja í. Hann er þannig að þegar þú ert á þessu svæði kemst lítið annað að en hlaup og að ná árangri,“ segir hann.
„Það eru margar ástæður fyrir því að kenísku hlaupararnir eru góðir, fyrir utan kúltúrinn og líkamsbyggingu þeirra. Þetta svæði er í 2.400 m hæð en í svona mikilli hæð fer líkaminn að mynda fleiri rauð blóðkorn sem líkaminn notar til að taka upp súrefni. Þegar komið er til baka niður við sjávarmál þá er líkaminn að taka upp meira súrefni og getur „performað“ betur eða hlaupið hraðar. Margir hlauparar frá Bandaríkjunum og Evrópu sækja til Kenía til að soga í sig þessa menningu og maður fær líka orku frá fólkinu sem er þarna á svæðinu.“
„Það er gríðarleg fátækt þarna og hlaupin eru ákveðin leið út úr fátæktinni“
Bærinn sem flestir eru í heitir Iten. Hann er nánast úti í sveit og sjást hlauparar á öllum stígum. „Það alast allir upp við að hlaupa þannig að það verður svo mikil menning í kringum hlaupin. Á Íslandi fara allir í fótbolta um fimm til sex ára aldurinn og svo halda þeir áfram sem geta eitthvað en þarna fara allir í hlaup, prófa að hlaupa þannig að Keníamenn enda alltaf með ýmsa góða hlaupara. Það er gríðarleg fátækt þarna og hlaupin eru ákveðin leið út úr fátæktinni, því þeir sem eru góðir hlauparar geta farið að keppa í Evrópu, Bandaríkjunum eða Asíu og unnið sér inn verðlaunafé og annað slíkt.“
Vignir segist hafa farið með ýmsum hlaupurum til Kenía í gegnum árin, meðal annars Bjartmari Örnusyni, Arnari Péturssyni, Elínu Eddu Sigurðardóttur og Vilhjálmi Þór Svanssyni og síðast með Andreu Kolbeinsdóttur.
Ógleymanlegt augnablik
„Það sem verður svo augljóst í Iten er hversu einföld íþrótt hlaup eru. Þú ferð út á morgnana, reimar á þig skó og æfingin er byrjuð, og þannig er það hjá öllum, byrjendum jafnt sem atvinnumönnum. Og það sem er svo skemmtilegt er að sjá þá bestu í heimi í nákvæmlega sömu aðstæðum og þú ert sjálfar í,“ segir Vignir.

„Fyrir um 20 árum las ég bókina Train hard, win easy, eftir Toby Tanser, þar sem hann lýsir aðstæðum og lífi hlauparanna í Iten en ég heillaðist mikið af þeim lestri. Nú var ég kominn í sömu aðstæður og í bókinni en við sáum oft fræga hlaupara á skokki og lifðum í raun svipuðu lífi. Einn daginn var ég að hlaupa í hitanum í hádeginu og það voru ekki margir á ferli, að hlaupa, enda mesta traffíkin snemma á morgnana. Ég hljóp fyrir horn á malarstíg rétt við lítinn sveitabæ og úr hinni áttinni beygði annar hlaupari samtímis inn á sama stíg og ég. Ég sá ekki hver þetta var strax en áttaði mig fljótt á að þarna var Sifan Hassan, Ólympíumeistari í maraþoni, mætt. Ég hljóp með henni rúman kílómetra þangað til hún beygði af leið, en augnablik eins og þetta, að hlaupa einn með Ólympíumeistara, er eitt af þessum mörgu litlu atvikum sem gera upplifunina á þessum stað svo eftirminnilega og hvetjandi.“
Maraþonhlaup næst á dagskrá
Ýmislegt er fram undan hjá Vigni en hann er smám saman að ná sér af meiðslum sem hann lenti í og segir að utanvegahlaup gefi styrk fyrir þau. Hann hljóp Kaupmannarhafnarmaraþonið um nýliðna helgi og er á leið í hálfmaraþon í Helsinki þessa helgi. „Ég er ekki alveg í mínu besta formi. Ég meiddist fyrir tveimur árum og hef verið að koma til baka síðan, en ég er mjög bjartsýnn fyrir þetta ár ég hef þá trú að þetta verði árið sem ég næ að komast aftur inn í þetta æfingaprógramm sem maður þarf að vera í. Meiðslin geta dregið dilk á eftir sér en ég ætla að fókusera á æfingar og láta ráðast hvort ég taki þátt í maraþonum eftir maí.“
Athugasemdir