Tolli, Þorlákur Morthens, segist vera kominn með brottfararspjaldið samkvæmt lögmálinu, en hann er 71 árs. „Ef heilsan leyfir þá er auðvitað helvíti gott að geta slagað upp í 85 ára eða nírætt. Ef maður er með góða heilsu þá getur það verið gaman.“
Hann segir að ellin leggist vel í sig. „Mér finnst ég hafa verið að mæta þessu á réttan hátt; það er að segja að ég sem sagt passa upp á mataræðið með einstaka sykurfrávikum og stundum miklum. Og fyrir tveimur árum fékk ég mér einkaþjálfara og fór að reyna að byggja upp vöðvamassa, svo í tvö ár er ég búinn að vera duglegur að mæta í ræktina. Svo er hitt; ég hef fengið að vera edrú í 30 ár.“
„Meginstefið í tilveru minni síðustu tíu ár er að komast að því hver ég er“
Hann þakkar fyrir það. „Það eru auðvitað rosaleg forréttindi og á þeim tíma hef ég fengið að endurfæðast oftar en einu sinni má segja. Meginstefið í tilveru minni síðustu tíu ár er að komast að því hver ég er, en það kemur til af því að eftir því sem hefur liðið á minn bata og edrúmennsku þá er ég að átta mig á því að ég er með frekar óljósar hugmyndir um það hver ég er. Sérstaklega síðustu fjögur ár hafa verið mjög töff tími. Síðasta ár er búið að vera í mínu innra landslagi það erfiðasta frá því að ég varð edrú, en um leið það gjöfulasta. Síðasta ár var það erfiðasta vegna þess að ég fór í mjög djúpa vinnu. Án þess að fara lengra með það þá fór ég í mjög óhefðbundna vinnu með sjálfan mig sem leiddi mig í dýpstu kima hugans og langt út fyrir það. Þetta kallast partavinna.“
„Slær út rökhugsun og opnar fyrir tilfinningareynslu“
Listamaðurinn er almennt mjög andlega þenkjandi. Hann talar meðal annars um Búdda og mætir reglulega í svokallað svett og hugleiðir. Hann talar um núvitundarhugleiðslu. „Svitahofið er alveg svakalega öflugt medesín í að opna og losa það sem vill fara út. Eitthvað sem viðkomandi vill losna við til að búa til pláss fyrir eitthvað nýtt, til að koma sjálfum sér á óvart. Af því að krafturinn í svitahofinu er það mikill að hann slær út rökhugsun og opnar fyrir tilfinningareynslu.“
Tolli hefur marga fjöruna sopið í lífsins ólgusjó. Æskuárin höfðu sín áhrif en þá byrjaði hann að teikna og var ljóst að drengurinn væri gæddur hæfileikum. Óregla og veikindi lituðu fjölskyldulífið og á unglingsárunum sá hann um sig sjálfur. Um árabil var hann sjómaður, verkamaður og skógarhöggsmaður. Eftir myndlistarnám hefur hann lifað af myndlistinni. Nú er Tolli farinn að mála í ljósari tónum. Hann gaf nýra, greindist síðan með krabbamein og sigraði.
Hér má lesa forsíðuvital Heimildarinnar við Tolla í heild sinni:
Athugasemdir