Allar vörur frá Íslandi til Bandaríkjanna bera 10% toll frá og með 5. apríl næstkomandi. Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti rétt í þessu tolla á allan innflutning með forsetatilskipun sem byggir á því að neyðarástand sé við lýði vegna viðskiptahalla Bandaríkjanna.
Ísland, eins og Bretland, sleppur við að fá á sig enn hærri tolla. Evrópusambandið þarf hins vegar að þola 20% tolla og Kína 34% tolla.
Þá fær Japan á sig 24% toll og Indland 26%.
Demókratar vara við því að vörur muni hækka í verði.
Eswar Prasad, prófessor í viðskiptastefnu við Cornell-háskóla, segir í samtali við New York Times að um sé að ræða „skyndileg endalok“ frjálsra og opinna alþjóðaviðskipta, sem byggðu á reglum sem Bandaríkin komu á. „Í stað þess að lagfæra reglurnar sem mörg viðskiptalönd Bandaríkjanna nýttu sér sannarlega í eigin þágu, hefur Trump valið að sprengja upp kerfið sem rammar inn alþjóðaviðskipti,“ sagði hann.
„Ef þú vilt að tollarnir á þig séu núll, þá framleiðir þú vöruna hér í Bandaríkjunum,“ sagði Trump.
Samkvæmt New York Times eru tollarnir hærri en hagfræðingar sérfræðingar í stefnumótun höfðu búist við.
Athugasemdir