Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnir í dag umfangsmikla nýja tolla sem hann kallar „Frelsisdags“-aðgerð. Hann heldur heiminum enn í óvissu um umfangið fram á síðustu stundu, en óttast er að aðgerðirnar gætu hrundið af stað alþjóðlegu viðskiptastríði. Trump hefur haldið því fram að tollarnir muni koma í veg fyrir að Bandaríkin séu „rænd“ og fleyta bandarískum iðnaði inn í nýtt „gullaldarskeið“.
Forsetinn kynnir aðgerðirnar í Hvíta húsinu klukkan 16 að staðartíma - eftir að markaðir á Wall Street loka - eða klukkan átta í kvöld að íslenskum tíma. Þótt Trump fullyrði að hann hafi tekið ákvörðun um gagnkvæma tolla á lönd sem hafi skaðað Bandaríkin, viðurkennir Hvíta húsið að hann sé enn að klára útfærslur, minna en sólarhring fyrir kynningu, að því er AFP greinir frá.
Repúblikaninn og milljarðamæringurinn hefur lengi haft sterkar skoðanir á tollum og telur þá lausn á viðskiptahalla Bandaríkjanna, hvort sem um er að ræða bandamenn eða andstæðinga.
Gagnrýnendur segja hins vegar að bandarískir neytendur muni bera meginþungann þegar innflytjendur á vörum hækka verð, og að tollarnir gætu aukið líkur á efnahagslægð bæði innan Bandaríkjanna og utan.
Órói hefur verið á alþjóðlegum mörkuðum í aðdraganda þessa, en lönd sem líkleg eru til að verða fyrir högginu hafa kallað eftir viðræðum, á meðan þau undirbúa gagnaðgerðir.
Sagðist ætla að vera ljúfur
Aðgerðin undirstrikar einnig vaxandi gjá milli Bandaríkjanna undir stjórn Trump og margra nánustu bandamanna þeirra – ekki aðeins í viðskiptum, heldur líka í öryggis- og varnarmálum. Trump heldur spilunum enn þétt að sér. Hann hefur hins vegar talað um aðgerðirnar í nokkrar vikur og gaf upphaflega í skyn að tollarnir myndu einfaldlega samsvara þeim sem aðrar þjóðir leggja á.
Á mánudag sagði hann einungis að hann ætlaði að vera „mjög ljúfur“ án þess að skýra það frekar. Bandarískir miðlar greindu hins vegar frá því að Trump væri að velta fyrir sér 20% tollum sem gilti fyrir öll lönd en einnig að skoða þriðja kost þar sem sum ríki fengju sérmeðferð.
Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði að í gær að Trump væri á ráðgjafarfundi, daginn fyrir tilkynninguna, til að „fullkomna hana svo þetta verði fullkominn samningur“. Tollarnir munu taka gildi „strax“ eftir kynninguna í dag, bætti hún við – og útilokar þar með frekari viðræður við önnur ríki áður en aðgerðir taka gildi.
Trump hefur áður dregið til baka tollaaðgerðir á síðustu stundu, einkum gagnvart bandalagsríkjum eins og Kanada og Mexíkó. Þrátt fyrir það valda áform hans vaxandi ótta um víðtækt viðskiptastríð sem gæti hækkað verð og valdið röskunum á mörkuðum um allan heim.
ESB og Kanada munu svara fyrir sig
Evrópusambandið og Kanada eru meðal þeirra sem hafa lýst því yfir að þau muni svara fyrir sig. „Við munum bregðast af yfirvegun, til að verja hagsmuni Kanada,“ sagði kanadíski forsætisráðherrann Mark Carney í gær.
Evrópusambandið - sem Trump hefur sakað um að reyna að „fokka“ í Bandaríkjunum - gaf út á þriðjudag að enn væri vonast eftir samkomulagi. Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, ræddi við Trump um „árangursríkar viðræður“ um fríverslunarsamning við Bandaríkin. Víetnam tilkynnti í gær að þar yrðu tollar lækkaðir á fjölda vara til að koma til móts við Trump.
Á meðan eru önnur útflutningslönd að mynda bandalög til að bregðast við áformum Washington, þar sem Kína, Japan og Suður-Kórea hafa hraðað viðræðum um fríverslunarsamning. Mexíkó lækkaði hagvaxtarspá sína fyrir árið 2025 úr 2-3 prósentum niður í 1,5-2,3 prósent, með vísan til spennu við stærsta viðskiptalönd sitt, Bandaríkin.
Gæti skapað enn meiri óvissu
Þessi mikla óvissa um hvað Trump hyggst gera hefur aukið óróa á fjármálamörkuðum. Hagfræðingateymi HSBC, undir forystu Max Kettner, varaði við því að tilkynningin í dag um tollana myndi ekki binda enda á óvissuna
„Við teljum að möguleikarnir séu jafnvel meiri á að 2. apríl markist af enn meiri óvissu – og þar með langvarandi veikleika í helstu hagvísum,“ sögðu þau.
Trump hefur notað tolla sem vopn í utanríkisstefnu allt frá sínu fyrra forsetatímabili. Hann fullyrðir að tollarnir muni endurvekja veikburða framleiðslugetu Bandaríkjanna og segir fyrirtækjum að þau geti forðast tolla með því að flytja starfsemi sína til Bandaríkjanna.
Ef það dregur úr framleiðslu á allskonar vörum eða kemur í veg fyrir aukningu á þeim þá gæti það jafnframt dregið úr framleiðslu á allskonar óþarfa sem endar annars á ruslahaugum heimsins.