Vaktin hefur verið krefjandi hjá Hrafnhildi Steinunni Sigurþórsdóttur hjúkrunarfræðingi sem sinnti erfiðu heimilisofbeldismáli. „Það er að koma kona hérna inn í fyrsta skipti sem er í rosalega mikilli krísu og það kemur í ljós í samtali við hana að þetta er stelpa sem er verið að beita andlegu, fjárhagslegu, kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Og hún er ofboðslega hrædd að vera hérna hjá okkur, hana langar að fara og hún er hrædd,“ segir Hrafnhildur.
Þetta er eitt af þessum málum sem fylgir henni heim af vaktinni. „Auðvitað taka svona mál alltaf meira á mann þegar maður sér að manneskjan er undir alveg gríðarlegu álagi og er búin að vera að ganga í gegnum alveg ótrúlega mikið af erfiðum hlutum. Maður gefur 110 prósent, alltaf,“ segir hún og bætir því við að þetta séu mál sem sitja í henni í einhvern tíma. „Það er ótrúlega mikilvægt þegar maður er með svona mál að viðra það og tala við samstarfsfólk, einhvern sem maður má tala um þessi mál við. Maður má ekki tala um þessi mál við hvern sem er því við erum bundin þagnarskyldu. Þannig að þetta þarf að vera einhver sem má í rauninni tala við.“
Mæðgurnar fara saman af vakt
Leiðin heim fyrir Hrafnhildi er upp á Akranes þar sem hún býr. En hún fer ekki ein því á heimleiðinni er mamma hennar, Júlíana Viðarsdóttir, í bílnum. Hún starfar sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni. Það eru því oft viðrunarfundir hjá þeim mæðgum á leiðinni heim af erfiðum vöktum. „Við tökum örugglega rúnt á eftir þar sem við ræðum þetta. Það er bara heppnin sem við erum með, við mæðgurnar, að geta talað um erfið mál. Það eru ekkert allir sem eru þar,“ segir Hrafnhildur.
Spurð hvort það hafi verið mamma hennar sem kveikti áhuga á hjúkrunarnáminu svarar hún; „Nei, ég get ekki sagt það. En eftir að ég byrjaði í hjúkrun þá hefur hún verið mér mikil fyrirmynd. Hún er alveg ótrúlega flott og það er ótrúlega gaman að fá að sjá mömmu sína í þessu hlutverki, að stýra ótrúlegum aðgerðum hérna inni á spítalanum sem vaktstjóri,“ segir Hrafnhildur. Með stolti bætir hún við. „Vá, þetta er mamma mín. Það er geggjað.“
Læra af hvor annarri
Júlíana bregst auðmjúk við þessu fallega hrósi frá dóttur sinni. „Ohhhh,“ segir hún og lítur brosandi á dóttur sína. En hvernig líst mömmunni á að dóttirin sé að vinna á bráðamóttökunni, stundum á sömu vöktum og hún? „Mér leist ekkert mjög vel á það. Ég var mjög lengi búin að reyna að segja henni að koma ekki hingað en svo verður maður bara að leyfa fólki að gera það sem það langar. Maður bannar ekki neinum neitt,“ segir Júlíana og lítur á dóttur sína. „Hún er náttúrlega mjög flottur hjúkrunarfræðingur og ég er mjög stolt af henni.“
Nám í hjúkrunarfræði þróast og Jónína segist læra af dóttur sinni. „Já, hún hefur alveg kennt mér því það er náttúrlega aðeins síðan ég var í skólanum,“ segir Júlíana. Dóttirin lærir líka af mömmunni. Þær nýta tímann vel í bílnum á leið úr og í vinnu. „Við keyrum saman á milli þannig að hún gat spurt á leiðinni upp á Skaga,“ segir mamman. „Ég geri það enn þá,“ bætir Hrafnhildur við og mamma hennar er ánægð með það. „Það er bara mjög fínt. Hún getur rætt ýmislegt við mig og þá er það bara búið þegar við komum heim,“ segir Júlíana. Dóttirin bætir við: „Svona viðrun á leiðinni heim er rosagóð stundum,“ segir Hrafnhildur og brosir.
Búa ekki saman
Hvað með ósætti þeirra á milli í vinnunni eða á leiðinni í eða úr vinnu? „Það var það svona í den,“ segir Hrafnhildur og kímir. „Já, en ekki lengur. Við búum ekki saman,“ segja þær báðar hlæjandi. Dóttirin bætir við: „Og það hefur breytt öllu. En nei, nei, ekkert ósætti eins og er, sjáum til,“ segja mæðgurnar og líta brosandi á hvor aðra.
Júlíana gegnir stundum stöðu vaktstjóra á bráðamóttökunni en það starf hlýtur að teljast til annasamari starfa á landinu. Vaktstjórinn þarf að halda mörgum hlutum á lofti í einu, hafa yfirsýn og verður fyrir stanslausu áreiti - hvort sem er í gegnum síma, talstöð eða frá samstarfsfólki.
Sér Hrafnhildur fyrir sér að hún verði vaktstjóri eins og mamma hennar? „Já, þetta er stór spurning. Þegar maður er nýbyrjaður að taka þessi skref þá virðist þetta starf vera ótrúlega mikið og stórt. Það er mikil reynsla sem felst í því að þurfa að stjórna öllu hérna inni. Og þetta er alveg brekka sem maður sér ekki toppinn á, en maður veit að á einhverjum tímapunkti þá endar maður þar. Þannig að það verður bara spennandi að sjá hvort maður nái því,“ segir Hrafnhildur.
Athugasemdir