Um þessar mundir á sér stað mótmælahreyfing í Serbíu sem er söguleg að bæði stærð og umfangi. Í fjóra mánuði hafa tugþúsundir mótmælt úti á götum og torgum, gengið tugi kílómetra milli borga, stöðvað starfsemi háskóla og menntaskóla og lokað fyrir umferð á stærstu vegum og brúm landsins. Mótmælendur berjast fyrir því að eiga framtíð í sínu eigin landi – framtíð án kerfislægrar spillingar og einveldisstjórnar. Á sama tíma og lýðræðið er í kreppu á Vesturlöndum öðlast það nýtt líf á Balkanskaganum.
Kornið sem fyllti mælinn
Þessi mótmælahreyfing í Serbíu byrjaði í kjölfar þess að steinsteypt skyggni fyrir ofan inngang lestarstöðvar í borginni Novi Sad hrundi og leiddi 15 manns til dauða, þann 1. nóvember síðastliðinn. Lestarstöðin hafði nýlega verið gerð upp og opnuð á ný með mikilli viðhöfn af hálfu yfirvalda. Slysið vakti mikla reiði meðal fólks og var talið skýrt dæmi um spillingu innan stjórnkerfisins. Undir stjórn forsetans Aleksandar Vučić, sem hefur gegnt því embætti síðan 2017, hefur serbneska þjóðin lifað við vaxandi spillingu og einveldisstjórn og var slysið kornið sem fyllti mælinn. En slysið hrundi einnig af stað hreyfingu sem hefur veitt þjóðinni langþráða von.
„Svo byrjuðu dökkklæddir menn að mæta á vökurnar til þess að brjóta þær upp og berja á mótmælendum“
Sú hreyfing hófst þökk sé háskólanemum. Þeir héldu fyrstu samstöðufundina í kjölfar slyssins, hóflegar og friðsamlegar vökur fyrir fórnarlömbin. Svo byrjuðu dökkklæddir menn að mæta á vökurnar til þess að brjóta þær upp og berja á mótmælendum. Þegar í ljós kom að ofbeldismennirnir voru tengdir yfirvöldum, fóru stúdentarnir í verkfall og stöðvuðu starfsemi háskólanna. Samfélagið stóð með þeim. Fyrir lok desember höfðu fleiri hópar bæst við á mótmælunum: prófessorar stúdentanna, menntaskólanemar, kennarar, bændur, lögmannafélag landsins, listamenn, eldri borgarar og svo mætti áfram telja. Allir höfðu fengið nóg af hegðun ríkisstjórnarinnar í sinn garð.
Engin pólitík, bara róttækt lýðræði
Á tímum þar sem klofning samfélaga eftir pólitískum línum virðist vera almenn regla er hjartnæmt að sjá hina breiðu og kröftugu samstöðu sem hreyfingin hefur náð að mynda í Serbíu. Þessi samstaða hefur náðst þökk sé þremur meðvituðum ákvörðunum. Í fyrsta lagi er hreyfingin ekki tengd neinum pólitískum flokki eða pólitískri stefnu. Í öðru lagi hefur hún ekki leiðtoga. Þegar stúdentunum er boðið í viðtal, sem vert er að taka fram að er aldrei gert af serbneskum ríkismiðlum, þá mætir alltaf nýr stúdent. Í þriðja og síðasta lagi eru allar ákvarðanir innan hreyfingarinnar teknar á lýðræðislegum allsherjarfundum. Þannig hafa stúdentarnir tryggt að hreyfingin lifi og deyi ekki með einni manneskju, stjórn eða stefnu. Útkoman er sönn alþýðuhreyfing: með því að tilheyra engum tilheyrir hún öllum.
„Kröfurnar eru afar hógværar fyrir svo öfluga hreyfingu, en í landi þar sem kerfisspilling er rótgróin verða þær að teljast róttækar“
Hvað vilja stúdentarnir?
Allt frá upphafi hreyfingarinnar hafa stúdentarnir gert fjórar skýrar og óbreyttar kröfur. Þeir vilja birtingu allra gagna varðandi endurbyggingu járnbrautarstöðvarinnar í Novi Sad; að ákærur og sakamál á hendur mótmælendum séu felld niður; að þeir sem ráðist hafa líkamlega á nemendur og prófessora séu sóttir til saka og sagt upp störfum gegni þeir opinberu starfi; og að lokum hækkun fjárframlaga til háskólamenntunar um 20%.
Kröfurnar eru afar hógværar fyrir svo öfluga hreyfingu, en í landi þar sem kerfisspilling er rótgróin verða þær að teljast róttækar. Stúdentarnir krefjast þess að stjórnkerfið tryggi mannréttindi þeirra og að þeir geti nýtt menntun sína og lifað með reisn í eigin landi. Afsagnir samgönguráðherra og forsætisráðherra landsins hafa ekki hægt á hreyfingunni því þær uppfylla ekki þessar kröfur, sem snúast um að umbylta kerfinu í heild sinni.
Serbneskir stúdentar og stuðningsmenn þeirra leita hvorki til austurs né vesturs að lausnum eða bjargvættum. Þeir vita hvernig á að stunda lýðræði og eru að sýna það í verki. Það eru heldur Vesturlönd sem ættu að horfa til Serbíu þegar kemur að því að bregðast við vaxandi ógnum við lýðræði í heimahögunum. Serbnesku stúdentarnir vísa okkur öllum veginn.
Athugasemdir