Mannekla í leikskólum er ekkert nýtt, það þekkir Halldóra Guðmundsdóttir, eða Doja eins og hún er gjarnan kölluð, mjög vel. Hún hefur starfað á leikskólanum Drafnarsteini alla sína starfsævi, frá því að hún útskrifaðist sem leikskólakennari árið 1999. Hún var leikskólakennari fyrstu tvö árin, tók síðar við sem deildarstjóri og gegndi því starfi í 9 ár, var leikskólastjóri í eitt ár og sem aðstoðarleikskólastjóri í sjö ár, áður en hún tók við starfi leikskólastjóra Drafnarsteins með sameiningu tveggja leikskóla. Hún hefur víðtæka reynslu af starfi og stjórnun leikskóla og hefur lokið meistaranámi í stjórnun menntastofnana við Háskóla Íslands.
„Ég lít ekki á þetta sem lausn en ég þekki þetta. Ég man eftir einu mannekluhausti, ætli það hafi ekki verið svona 2008 og það var krísufundur með foreldrum og þar var eitt foreldri sem rétti upp hönd og sagðist langa til að prófa að vinna á leikskóla. Barnið hennar var samt komið með pláss. Hún var í rafvirkjanámi en úr varð að hún fór að vinna á leikskólanum og ekki bara það, hún vann lengi og lærði svo leikskólakennarann. Hún vildi gefa af sér til samfélagsins en féll fyrir starfinu.“
Doja segir það hafa færst í aukana síðustu ár að foreldrar grípi til þess ráðs að sækja um starf á leikskóla til að tryggja börnum sínum leikskólapláss. „Núna er maður svolítið að heyra að fólk er í vandræðum og sér þetta sem lausn. Óttinn sem maður fær þá er að fólk komi í korter og fari svo en hvað gerir það fyrir mig? Og með mig meina ég skólann minn og börnin.“
Á að vera eftirsótt starf
„Mér finnst þetta stórkostlegasta starf í heimi, við ættum bara að vera með besta fólkið í þessu og fólk ætti að standa stolt í báða fætur að fá tækifæri og vera valið til að vinna með mikilvægasta fólkinu okkar. En það er ekki alveg sýnin,“ segir Doja. Hún hefur til að mynda fengið bréf þar sem hún er beðin að taka við fólki sem þrífst ekki í vinnu annars staðar. „Það er haldið að lausnin sé að slíka einstaklinga sé hægt að nota í leikskólum. Ég veit ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta, vera þakklát eða reið, af því að jú, við gefum alls konar fólki tækifæri til að vinna í leikskóla, það er ákveðin fegurð. Ég hef skýra stefnu að hafa ákveðinn þverskurð samfélagsins í vinnu.“ En það þýðir ekki að hver sem er hafi getu til að starfa í leikskóla.
„Mér finnst þetta stórkostlegasta starf í heimi“
Mikill meirihluti starfsfólksins á Drafnarsteini í dag er ófaglært, aðeins fjórir af þrjátíu starfsmönnum eru menntaðir í leikskólakennarafræðum, en nokkrir til viðbótar eru með kennararéttindi og leyfisbréf kennara. „Það telst bara ágætt. En það er fáránlegt,“ segir Doja, sem hefur tekið sem dæmi, á léttu nótunum þó, að bera nálgunina saman við heilbrigðiskerfið. „Myndum við vilja sjá spítala þar sem læknar og hjúkrunarfræðingar fást ekki til vinnu en það yrði leyst með því að ráða æðislegt fólk sem hefur áhuga á að hjálpa fólki? Maður getur fabúlerað með þetta, hvað erum við að sætta okkur við fyrir börnin okkar?“
Doja fær spurningu hvert einasta haust um hvort foreldrar geti ráðið sig til starfa á leikskólanum til að koma börnum sínum að á leikskólanum. „En ég er mjög sparsöm á það og útskýri fyrir fólki að ég er alltaf að leita að fólki sem er framtíðarstarfsfólk.“ Doja skiptir starfsfólki sínu í tvo hópa: Staðfugla og farfugla. „Og það verður alltaf þannig. Staðfuglarnir eru fólk með góða reynslu og menntun sem starfar lengi en farfuglarnir eru til dæmis ungt fólk sem er að taka sér hlé frá námi eða er ekki búið að ákveða hvað það ætlar að verða þegar það verður stórt. En um leið og farfuglarnir verða fleiri en staðfuglarnir þá er maður í vanda. Foreldrar sem eru að ráða sig til að koma börnunum sínum inn eru ekki að hugsa um þetta sem framtíðarstarf.“
„Um leið og farfuglarnir verða fleiri en staðfuglarnir þá er maður í vanda“
Einn af deildarstjórum á Drafnarsteini, Arnar Dan Kristjánsson, kom inn sem farfugl fyrir einu og hálfu ári þegar dóttir hans komst hvergi inn á leikskóla. Synir Arnars voru á Drafnarsteini og fjölskyldan hafði góða reynslu af leikskólanum. Arnar er dæmi um farfugl sem varð að staðfugli. Hann er á meðal viðmælenda Heimildarinnar í forsíðuumfjöllun nýjasta tölublaðsin um foreldra sem brúa bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar með því að hefja störf á leikskólum barna sinna.
„Hugmynd okkar Arnars var fyrst að hann kæmi inn en á núll einni ákváðum við að hann yrði deildarstjóri. Hann er þannig týpa með þannig bakgrunn, menntun og reynslu að ég treysti honum í það verk,“ segir Doja, en Arnar er menntaður leikari. Doja er samt sem áður á því að deildarstjórar eigi almennt séð að vera menntaðir leikskólakennarar. „En við erum í þannig landslagi að þá þyrftum við að loka mjög mörgum deildum. Við erum alltaf að gefa afslátt og afslættirnir eru alltaf að verða fleiri.“
Ekki lausn að fylla leikskólana af foreldrum
Allur gangur er á því hversu lengi foreldrar þurfa að skuldbinda sig í starfi en lágmarkið er sex mánuðir en algengara er að ráðningin nái yfir eitt ár. „Foreldrar eru oft með frábæra menntun og reynslu sem nýtist vel í starfi og þá þiggur maður það eða þiggur ekki þegar maður sé að manneskjan ætlar sér ekki að sinna starfinu af heilum hug,“ segir Doja, þó það síðarnefnda sé sárasjaldan raunin.
Þótt Doja sé sparsöm á að bjóða foreldrum starf þá hefur það reynst leikskólanum vel og veitir foreldrunum sömuleiðis góða innsýn í starfið sem unnið er á leikskólanum. „Foreldrar sem starfa í leikskóla fatta miklu betur hver raunstaðan er og hvað fer fram á leikskólanum. Það er æðislegt og frábært. En þetta fólk fer. Það er gallinn. En hvort það sé verra en einhver sem maður er að ráða í skamman tíma, það er ekki endilega þannig. Þetta er svo margþætt, en það er ekki lausnin að fylla leikskólana af foreldrum sem fá ekki pláss.“
Hver er þá lausnin?
„Að mennta fleiri er náttúrlega lausnin af því að þau sem eru menntuð haldast lengur, það er margsannað,“ segir Doja. Staðan er flókin í dag, ekki síst vegna nýyfirstaðinnar kjarabaráttu sem endaði með undirritun samninga í síðustu viku. Fram undan er mikilvæg uppbygging á ímynd kennarastarfsins að mati Doju. „Í þessum farsa sem er núna, kjarabaráttunni, hefur ímynd kennarastarfsins verið löskuð og það þarf tíma til að laga það. En mér finnst oft gott að fá tækifæri til að kynna starfið. Oft þegar fólk kynnist starfinu fer það svo í námið. Það er eiginlega bara þannig sem menntavísindasvið er að hala inn leikskólakennurum, það er fólk sem er búið að prófa starfið og fer þaðan inn í skólann.“
En vandinn er ekki bara leikskólans að sögn Doju. „Það er ekki í tísku að mennta sig til að vera þátttakandi í samfélaginu, að halda samfélaginu uppi. Ég hef áhyggjur af skólakerfinu okkar og heilbrigðiskerfinu, kerfi sem eru grunnstoðir samfélagsins. Við sem samfélag þurfum að vakna. Við viljum hafa allt upp á tíu en það á einhver annar að gera það. Þetta er bara eins og litla gula hænan.“ Þessu vill Doja, leikskólakennari, deildarstjóri og leikskólastjóri til 25 ára, breyta. „Ég brenn fyrir börnum og þeirra velferð. Alltaf.“
Sjá meira

Athugasemdir