„Labbaði út með dauðadóm á bakinu síðasta þriðjudag. Er búinn að fá niðurstöður varðandi krabbann. Örið á vélindanu hefur búið til svo mikið mein á lifrinni að þeir segja þetta ekki meðferðartækt. Vikur, mögulega mánuðir eftir.“
Þetta skrifar Ásgeir H. Ingólfsson, skáld og blaðamaður, þar sem hann boðar til viðburðar sem hann kallar Lífskviðu og er ætlað að fagna lífinu, dauðanum, eftirlífinu, öðrum víddum og almennri ást og vinskap.
Einhverjum kann að koma orðið „æðruleysi“ í hug þegar maður sem hefur nýlega fengið þær fregnir að hann eigi ekki mikið eftir ákveður að bjóða til veislu, en Ásgeir frábiður sér það orð í samhengi við hans upplifun og sýn á stöðuna. „Mér er illa við þetta orð. Kannski hefur það átt vel við í fortíðinni þegar við vorum varnarlausari skepnur. Vandinn við þetta orð er að það er oft notað á undarlegan hátt. Það er stutt síðan margir sögðu að við þyrftum að takast á við afleiðingar loftslagshamfara af æðruleysi. Nei, við hefðum bara átt að vera reið og gera eitthvað í því,“ segir hann.
„Mig langaði ekki að fara í einhvern æðruleysisgír gagnvart þessu og hugsa að svona sé nú bara lífið, því auðvitað er ég alveg hundfúll að fá ekki nokkra áratugi í viðbót og ætla ekkert að breiða yfir það. Hins vegar þýðir það ekki að ég ætli að láta mér leiðast og leggjast í kör,“ segir Ásgeir.
Raunverulegu verðmætin
Hann hefur lengi verið búsettur í Prag, þar sem hann er með íbúð, en er nú kominn heim til mömmu á Akureyri. „Ég er ekki ferðafær en nú er kannski síðasti séns að hitta fólkið mitt; vini og fjölskyldu. Ég hef búið víða og fólkið mitt þekkir ekki endilega hvað annað, en mig langaði að koma þessu fólki saman á einn stað. Venjulega myndi ég bara drífa mig til Kaupmannahafnar ef ég vildi hitta vin minn sem býr þar, en nú þarf fólk að gjöra svo vel að koma til Akureyrar ef það vill hitta mig,“ segir hann.
„Það sem mig langaði að gera var að finna ljósmæður og ljósfeður og ritstjóra fyrir allt sem ég á
Ásgeir bendir á að hann sé ógiftur, barnlaus og eigi engar eignir. „Þegar ég heyri fyrst orðið krabbamein, að ég sé með krabbamein, þá eru engin börn sem ég þarf að hafa áhyggjur af og það er enginn arfur sem ég þarf að skipta. Það sem ég á eftir eru öll mín ókláruðu verk; þau sem ég er kominn áleiðis með og þau sem eru enn á byrjunarstigi,“ segir hann.
Það er því ákveðin heimspeki sem liggur að baki Lífskviðunni sem hann býður til á laugardag við Kjarnaskóg. „Ég held að við séum allt of mörg þar að hugsa, þegar við fáum að vita að við erum að fara að deyja, að við eigum ekkert meira eftir til að gefa. Það er kannski rétt miðað við þann strúktúr sem við höfum komið okkur upp í kapítalismanum þar sem það að deyja þýðir, jú, að fólk syrgir og allt það, en að fólk gerir erfðaskrá og er að hugsa um þá peninga sem það á.
Fyrir mörg okkar eru mestu verðmætin hins vegar bundin í tölvum, stílabókum; í tölvunni eigum við myndir og myndbönd, texta og ljóð, uppskriftir og tónlist, alls konar bara eftir áhugasviði fólks. Kannski getur einhver farið í þessi gögn síðar en kannski ekki.
Það sem mig langaði að gera var að finna ljósmæður og ljósfeður og ritstjóra fyrir allt sem ég á, til að hjálpa mér að koma því í eitthvert form eða halda áfram með verkin sem ég byrjaði á. Kannski getur einhver klárað skáldsöguna sem ég er bara búinn að skrifa fyrstu tíu blaðsíðurnar af.“
Lífskviðan er því fögnuður sköpunar þar sem Ásgeir mun deila sínum verkum, og því sem komið er af þeim, en þar verður einnig fjöldi annarra listamanna sem ætla að lesa upp ljóð, flytja tónlist, sýna myndlist.
Steinar Bragi rithöfundur er einn þeirra fjölmörgu sem hefur hjálpað Ásgeiri að skipuleggja viðburðinn og velur Ásgeir að sitja fyrir á mynd sem fylgir þessari grein með bók Steinars Braga í hönd, Gólem. Sjálfur sigraðist Steinar Bragi ungur á illvígu krabbameini. Bókin er saga úr dystópískri framtíð, um unga konu sem hefur það að atvinnu að deyja, en nafnið vísar einnig til Tékklands, þar sem Ásgeir hefur verið búsettur.
Í Tékklandi er Gólem þjóðsöguleg vera sem hefur oft verið innblástur listamanna þar sem hún er notuð sem táknmynd fyrir sköpun mannsins og farvegur spurninga um ábyrgð á eigin gjörðum.
Vildi ekki skilning
Ásgeir segir að árið 2025 hafi í raun byrjað hjá honum um miðjan nóvember 2024 þegar hann hrasaði við að labba niður lágan útistiga í Tallin þar sem hann var á ferðalagi. Hann harkaði af sér verkinn eftir fallið og fór í bíó en þar sem verkurinn varð þrálátur grunaði hann að rifbein hefði brákast við að detta og ákvað að leita til læknis. Eftir röntgenmyndatöku kom í ljós að lifrin var sködduð en eitthvað meira var að, sem læknarnir áttuðu sig ekki almennilega á. Svarið kom síðar, eftir mun fleiri rannsóknir: Krabbamein.
Hann segir að læknarnir hafi reynt að vera skilningsríkir en það hafi ekki verið það sem hann þurfti á að halda: „Ég fór bara í survival mode. Ég vildi vita tímalínuna og hvað ég gæti gert í stöðunni.“ Þarna var ekki orðið ljóst að staðan væri jafnalvarleg og hún er í raun. Ásgeir skrifaði á Facebook-síðuna sína um miðjan desember: „Svo er bara að losna við þetta nautheimska krabbamein og fara að gera eitthvað af viti.“
„Þá komu tárin
Um tíma velti hann fyrir sér að vera áfram í Prag en á endanum komu móðir hans og systir út, vörðu með honum jólunum og síðan fóru þau öll saman heim til Íslands og norður á Akureyri. Ekkert pláss hafi verið fyrir annað en praktík þegar hann fékk krabbameinsgreiningu frá læknunum. „Ég vildi bara vita sem mest. Síðan flutti ég heim og talaði við mömmu. Þá komu tárin. Það var gott að gráta saman.“
Kannski hafi hann heldur ekki leyft sér fyrr að upplifa slíkar tilfinningar. „Síðan áttaði ég mig á því að það er ekkert notalegt að vera einn á nóttunni,“ og samþykkti hann að flytja aftur heim.
Óþægilega skýr niðurstaða
Eftir frekari rannsóknir segir Ásgeir að niðurstaðan sé að vonin um að losna við krabbameinið sé ekki lengur raunhæf. „Þetta er það mikið af meinvörpum á lifrinni að læknarnir segja fá ef nokkur dæmi séu um að meðferð dugi til. Læknirinn sem ég talaði við á miðvikudag var mjög opinn með að það væru líklega bara vikur eða mánuðir eftir.“
Sem leikmaður áttar hann sig ekki almennilega á því hvort það er stutt eða langt síðan hann fékk fyrst að vita af krabbameininu. „Það er svo mikil bið í þessu; þú ert að bíða eftir upplýsingum, um hvar krabbinn er, hann gat verið um allt. Ég vissi ekkert hvað yrði. Síðan var niðurstaðan allt í einu óþægilega skýr.“
Ásgeir segir bæði erfitt að vita ekki nóg og geta haldið í vonina, og svo að fá að vita hversu svört staðan er. „Það er erfitt að vita ekkert. Núna get ég þó gert öðruvísi plön en þegar ég hélt að það væri hægt að skera mig upp og þá yrði ég góður. Það er allt öðruvísi að vita að það er ekkert hægt að gera. Á endanum er það auðvitað verra. Þótt óvissan sé slæm þá er samt skárra að upplifa óvissu með þokkalegri von.“ Nú sé vonin ekki lengur til staðar.
„Ég túlka þetta sem einhvers konar reiði, svona Rage Against The Machine: Ég ætla samt að halda partí
Þrátt fyrir að einhver von felist í heitinu Lífskviða þá er það ekki tilfinningin sem Ásgeir fann þegar hann hóf að skipuleggja hana. „Ég túlka þetta sem einhvers konar reiði, svona Rage Against The Machine: Ég ætla samt að halda partí.“
Partíið er í húsi sem hann leigði af sjúkrahúsinu á Akureyri, húsi sem stendur sjúklingum til boða að leigja. Fyrst hafi hann reiknað með nokkrum hræðum en nú búi hann við þann lúxusvanda að kannski verði ekki pláss fyrir alla, en Ásgeir segir öllum velkomið að mæta í partíið – líka fólk sem hann þekkir ekki neitt.
Það verður opið hús á Götu sólarinnar númer 6 milli klukkan 14 og 17 á laugardag. Formleg dagskrá hefst síðan klukkan 19, þar sem ljóð, ræður, tónlist og hvað sem fólki dettur í hug ræður ríkjum. „Ég veit í raun ekki hversu margir mæta en ég hef smá áhyggjur af plássinu og er búinn að gúggla hvernig sé best að byggja snjóhús. Það er nægur snjór þarna í kring.“
Athugasemdir