Þegar ég var strákur og las fjölfræðibækur þá var myndin af upphafi lífsins á Jörðinni einhvern veginn svona:
Á huggulegri friðsælli strönd hafði myndast grunnur pollur í flæðarmálinu. Með flóðinu bárust daglega allskonar efni í pollinn sem síðan urðu eftir þegar fjaraði. Að lokum var pollurinn orðinn líkastur þykkri súpu af allskonar efnum, ekki síst kolefni en líka fjölda annarra efna, misflókinna. Og þessi friðsæli pollur undir bláum himni var baðaður hlýju sólskini í þúsundir, nei, milljónir ára.
Uns einn sólargeislinn féll hárrétt á eina kolefnissameindina og fyrir einhverja efnafræðilega furðu tók hún að draga að sér önnur nálæg efni í pollinum, sameindirnar röðuðust upp á áður óþekktan hátt, það fór eitthvað að titra undir sólargeislunum, og sjá, í flækjunni kviknaði líf.
Þetta var á mínum bernskuárum talið hafa gerst fyrir rétt rúmum 2,5 milljörðum ára.
Líf í polli?
Jörðin er 4,54 milljarða ára gömul og ef við skiptum þeim langa tíma niður í eitt ár, þá þýðir það að lífið hafi kviknað í pollinum góða um það bil 14. júní.
Töluvert er nú síðan vísindamönnum þótti ljóst að þessi fagra og kyrrláta mynd af upphafi lífsins stæðist líklega ekki.
Að lífið hafi kviknað í svona efnasúpu í polli er nú talið harla ósennilegt og aðrar, nýrri kenningar álitnar trúlegri.
Aðallega hefur stundin þegar líf kviknaði á Jörðinni samt verið að færast aftar. Vísindamenn hafa fundið merki um örverur/einfrumunga í grjóti sem talið er 3,8 milljarða ára gamalt.
Á hinu ímyndaða ári myndi það þýða að lífið hefði kviknað þegar 1. mars.
Það er ansi snemma í lífi Jarðarinnar, ef svo má að orði komast.
En niðurstöður rannsóknar sem birtar voru á síðasta ári hafa nú kollvarpað þessu áliti.
Og séu þær réttar, sem ekki er ástæða til að efast um, þá gjörbreyta þær ekki aðeins hugmyndum okkar um sögu lífsins á Jörðinni, heldur geta líka hafa mikil áhrif á skoðanir okkar á möguleikum lífs á öðrum hnöttum.
Síðasta allsherjar foreldri lífsins
Rannsóknin var gerð undir forystu doktors Edmund Moodys fornlíffræðings við jarðvísindastofnun Háskólans í Bristol á Englandi. Samstarfsmenn hans voru flestir Bretar en nokkrir frá Hollandi og Ungverjalandi.
Í örstuttu máli var tilgangurinn að grafast fyrir um elsta sameiginlega „forforeldri“ allra lífvera á Jörðinni.
Sú lífvera, sem allt líf á Jörðinni er sem sé komið af, er gjarnan kölluð í fræðunum Luca sem er skammstöfun á enska hugtakinu „last universal common ancestor“ — það er að segja „síðasti allsherjar sameiginlegi forfaðir“, þótt hin íslensku „forfaðir“ eða „-móðir“ séu raunar óbrúkleg orð í þessu sambandi þar eð öllum má vera ljóst að Luca var einfrumungur aftur í forneskju sem ekki verður kenndur til kyns.
„Aðeins“ 340 milljón ár
Ekki hvarflar að mér að reyna að útskýra aðferðir Moodys og félaga við að átta sig á Luca. Engar jarðneskar leifar af neinu tagi eru eða geta verið til um þennan nær ósýnilega einfrumung. Í staðinn var erfðaefni lífvera heimsins rakið einhvern veginn aftur á bak þangað til Luca fannst að lokum.
Og þá urðu margir hissa.
Í fyrsta lagi reyndist Luca hafa verið uppi fyrir 4,2 milljörðum ára.
Það er að segja aðeins 340 milljónum ára eftir að Jörðin varð til.
Það þykir kannski hlálegt að tala um „aðeins“ 340 ár. En sannleikurinn er sá að allt að því fáránlega snemma eftir að Jörðin myndaðist.
Lífið kviknaði klukkan 8 að morgni
Það þýðir til dæmis að á hinu samþjappaða ári, sem ég nefndi áðan, þar hefur líf kviknað á Jörðinni 28. janúar klukkan átta að morgni.
Og þá var sannarlega öðruvísi um að litast á Jörðinni en nú.
Jörðin varð til fyrir 4,54 milljörðum ára, sem fyrr segir.
Mjög snemma, kannski þegar Jörðin var aðeins 40 milljón ára, varð sá árekstur við plánetuna Theiu sem myndaði Tunglið okkar. Hérna má lesa um þann árekstur.
Það var strax þann 4. janúar klukkan fimm að morgni.
Það tók Jörðina langan tíma að jafna sig eða um 100 milljón ár. Yfirborðið var enda nálega allt sem bráðið hraun eftir hamfarirnar miklu.
Og bætti síst úr skák að enn rigndi niður á yfirborðið loftsteinafjöld og halastjörnu- frá árdögum sólkerfisins.
Steypiregn í milljónir ára
Snemma að morgni 12. janúar á hinu samþjappaða ári má loks segja að jarðskorpan hafi verið storknuð. Þá var andrúmsloftið orðið mettað vatnsgufu sem væntanlega hafði borist til Jarðarinnar með halastjörnum og loftsteinum.
Vatnið hafði hingað til gufað upp jafnóðum af glóandi yfirborðinu en nú þegar vatnið náði að þéttast tók að rigna.
Og það rigndi í milljónir og aftur milljónir ára.
Loks var Jörðin öll hulin vatni. Ástæðan var fyrst og fremst sú að jarðskorpan var ennþá slétt og jöfn, því hvorki eldgos né landreksöfl höfðu náð að hlaða landmassa upp úr vatninu.
Sú þróun var hins vegar að hefjast. Þann 28. janúar — þegar Jörðin var sem sé orðin 340 milljón ára og Luca kom í heiminn — þá hafa nokkrar eldfjallaeyjar ugglaust verið byrjaðar að gægjast upp úr vatnshafinu en Jörðin átti samt lengi enn eftir að vera fyrst og fremst vatnaveröld.
Himinninn var ekki blár
Enn hefur fjöldi loftsteina og halastjarna skollið reglulega á Jörðinni. Himinninn var ekki blár, því það er fyrst og fremst súrefni í andrúmsloftinu sem veldur því að við sjáum hann sem bláan. Sennilega hefur himinninn verið rauðgulur eða jafnvel rauðbrúnn.
En iðulega hafa dimm ský frá hinum þrotlausu eldgosum lagst yfir meirihluta Jarðar.
Og það segir sig sjálft að hið súrefnislausa andrúmsloftið hefði ekki verið frísklegt fyrir okkur. Við hefðum steindrepist á stundinni ef okkur hefði verið ætlað að draga andann þarna.
Jörðin snerist þá mun hraðar en nú svo sólarhringurinn var aðeins 12 tímar. Tunglið var líka miklu nær en nú og hefur virst að minnsta kosti helmingi stærra á himninum. Afleiðingin var meðal annars sú að flóð og fjara hafa verið miklu öfgameiri en nú er.
Luca verður til
En þarna, í grimmum sjónum á þessari skelfilegu plánetu, þar varð Luca til.
Í djúpinu.
Ekki í huggulegum friðsælum polli undir fagurri sól og bláum himni.
Það sem er svo kannski allra merkilegast við niðurstöður Moodys og félaga er að sá Luca sem þau röktu sig aftur til, hann sýndi ýmis merki þess að hafa „fæðst“ í nokkuð stöðugu vistkerfi.
Sem ef til vill hafði þá þegar verið lengi við lýði.
Hann bjó meira að segja yfir vísi að ónæmiskerfi svo hann hefur þurft að verja sig fyrir einhverjum lífverum (eða vírusum) sem við vitum nú ekkert hverjar eða hvernig voru.
Því þær hafa dáið út með öllum sínum ókunnu sérkennum og eiginleikum en Luca litli getið af sér bókstaflega allt núlifandi líf á Jörðinni.
Líf miklu víðar?
Fyrir utan þá stórmerkilegu niðurstöðu að lífið á Jörðinni hafi kviknað miklu fyrr en við ætluðum, þá kveikir þessi nýja mynd af Luca ýmsar merkilegar hugmyndir.
Ef lífið á Jörðinni gat orðið til svo snemma eftir að Jörðin myndaðist og við svo ofsafengnar aðstæður, hvað er þá því til fyrirstöðu að það hafi kviknað á Mars eða Venusi líka? Á Mars voru víðáttumikil höf í árdaga og ekki ólíklegt að svo hafi verið á Venusi líka.
Og eykur það ekki líkurnar á að líf nái að þróast á öðrum hnöttum að Jörðin var nánast enn í frumbernsku þegar hún var orðin iðandi af lífi — þótt fyrstu milljarðana hafi það líf að vísu aðeins verið einfaldir einfrumungar sem bjuggu í djúpinu?
Hér má lesa frétt Observer um þetta merkilega mál.
Og hér er hlekkur á ritgerð þeirra Edmunds Moodys og félaga sem birtir niðurstöður þeirra.
Athugasemdir