Ólafur Ingi Heiðarsson, teymisstjóri meindýravarna hjá Reykjavíkurborg, stendur í ströngu þessa dagana. Skæð fuglainflúensa hefur herjað á fugla víðs vegar um borgina, en það hefur það í för með sér að Dýraþjónusta Reykjavíkur þarf að sækja dauða eða mjög veika fugla á höfuðborgarsvæðinu.
Inflúensan herjar einkum á gæsir, en Ólafur telur að um níutíu prósent þeirra fugla sem hann hafi þurft að hafa afskipti af séu grágæsir. „Ég er búinn að sækja sjálfur fjórar álftir, sem er mjög óvenjulegt. Við sækjum mjög sjaldan álftir. En þær hafa greinilega verið að fara eitthvað illa út úr þessu líka.“
Einn dagur á við hefðbundinn mánuð
Reykjavíkurborg miðlaði því til borgarbúa í vikunni að láta Dýraþjónustuna vita af veikum eða dauðum fuglum, en fólk er beðið um að meðhöndla þá ekki sjálft. Sjálfur hvetur Ólafur almenning að hika ekki við að láta í sér heyra finni fólk dauða fugla. „Það er svo mikilvægt og mun hjálpa til við að halda þessu í skefjum.“
Ólafur segir að yfirleitt sé minna að gera hjá meindýraeyðum í janúar en fuglaflensufaraldurinn hafi breytt því nokkuð. Þegar blaðamaður ræddi við Ólaf var klukkan að verða tvö eftir hádegi, en þá var hann þegar búinn að fá tuttugu tilkynningar um dauða fugla þann daginn. „Sem er meira en hefðbundinn mánuður.“
Fyrstu þrjá daga vikunnar giskar Ólafur á að hann hafi sótt allt að sjötíu fugla og nokkra tugi í vikunni þar á undan. Hann segir þó erfitt að meta hvernig fjöldi dauðra fugla þróist á milli daga því að tilkynningarnar taki alltaf kipp þegar fjallað er um faraldurinn í fréttum. „En það er klárlega stígandi í þessu á heildina litið.“
Einhvern veginn gengur þetta upp
Þau svæði sem hann hefur helst þurft að heimsækja eru Vatnsmýrin, þar sem gríðarlegt magn af fuglum hefur drepist. „Tjörnin auðvitað, það eru daglegar heimsóknir þangað. Bakkatjörn úti á Nesi og í sveitarfélögunum í kring líka.“
Aðeins tveir starfsmenn sinna því að sækja fuglana, Ólafur og einn annar sem vinnur hálfan daginn. Síðustu dagar hafa því verið annasamir.
„Ótrúlegt en satt, einhvern veginn gengur þetta upp. En ég skal alveg játa það að maður þarf að skipuleggja sig vel, því þetta eru ekki einu verkefnin sem við höfum. Við þurfum að fara í skóla og eitra og í rottuútköll hjá fólki og svona, sem er ekkert voðalega til í að bíða.“
„Það sem gefur djobbinu okkar gildi er bara hvað maður uppsker mikið þakklæti hjá fólki
Sjálfur segist hann trúa á það að bregðast hratt við þegar fólk þarf aðstoð meindýraeyðis, enda skipti þjónusta þeirra fólk miklu máli. „Í þessum geira er fólk rosalega tvístígandi, veit bara ekkert hvað það á að gera. Þetta eiginlega heltekur hugann og því fyrr sem við getum komið, því farsælla. Það sem gefur djobbinu okkar gildi er bara hvað maður uppsker mikið þakklæti hjá fólki. Maður er að bjarga deginum hjá þeim.“
Finnur til með dýrum sem þjást
Það að sækja dauða fugla er hluti af hversdegi meindýraeyðisins, en Ólafur telur að sennilega séu fleiri fuglar í borginni en fólk heldur almennt. „Eðlilega falla einstaklingar. Fuglar eru missterkir til að höndla vírusa og kalda veðrið og allt þetta. Dulinn þáttur í borgarlífinu eru dýr sem fara illa. Þau geta farið illa af bílum, fólki, öðrum dýrum og mannvirkjum þess vegna. Það er alveg nóg að gera í þessu heilt yfir.“
Spurður hvort það taki á að horfa upp á svona mikinn dýradauða segir Ólafur að það venjist eins og hvað annað. „En auðvitað finnur maður til með einstaklingum sem eru að þjást. Flestir sem eru að vinna í þessu eru unnendur dýra, ástríðufólk um dýr. Þannig að þetta er leiðindaþáttur í þessu, en mjög mikilvægur.“
Athugasemdir