Lögfræðingurinn Lárus M. K. Ólafsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hann hefur frá árinu 2019 starfað sem sérfræðingur á sviði orku- og umhverfismála hjá Samtökum iðnaðarins og mun taka til starfa á næstu dögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Lárus var árin 2008-2011 yfirlögfræðingur Orkustofnunar og staðgengill orkumálastjóra. Hann hefur einnig starfað sem lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Þá starfaði hann sem lögfræðingur á skrifstofu orkumála hjá iðnaðarráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu á árunum 2005-2008.
Lárus hefur einnig sinnt kennslu á sviði umhverfis- og auðlindaréttar við Háskóla Íslands. Frá árinu 2024 hefur hann verið formaður norræna umhverfismerkisins Svansins á Íslandi og hann hefur verið varaformaður í stjórn Úrvinnslusjóðs frá 2012.
Athugasemdir