Eigendur Running Tide slitu einkahlutafélaginu um starfsemi þess á fundi 3. desember síðastliðinn. Starfsemi félagsins hafði legið í dvala eftir að henni var í raun hætt síðasta sumar. Heimildin fjallaði ítarlega um starfsemina og gagnrýni vísindamanna á hana í júní á síðasta ári.
Tilkynning um félagaslitin birtist í Lögbirtingarblaðinu en RÚV greindi fyrst frá í morgun. Í tilkynningunni segir að ákvörðunin hafi verið tekin á hluthafafundi en samkvæmt síðasta birta ársreikningi var einn hluthafi í íslenska félaginu, bandaríska félagið Running Tide Technologies, Inc.
Ekki er víst að þetta þýði endalok verkefnisins, þar sem bandaríska móðurfélagið virðist enn starfandi.
Í september sagði Marty Odlin, stofnandi og forstjóri Running Tide, við Canary Media, vefsíðu sem sérhæfir sig í umfjöllun um umhverfismál, að hann hafi keypt það sem eftir stóð af félaginu af fjárfestum og að starfsemin myndi halda áfram með fjórum starfsmönnum í Portland í Bandaríkjunum. Það væri þó ekki ljóst hvaða leiðir yrðu farnar til að ná fram markmiði fyrirtækisins um kolefnisförgun.
Vefsíða fyrirtækisins er þó ekki lengur aðgengileg.
Samkvæmt áðurnefndum ársreikningi má sjá að töluverður hagnaður var af rekstri Running Tide á Íslandi. Árið 2023 skilaði fyrirtækið 174 milljóna króna hagnaði, eftir tæplega 3 milljóna tap árið áður. Ekki liggur fyrir ársreikningur fyrir síðasta ár.
Á meðan starfsemi Running Tide stóð seldi fyrirtækið kolefniseiningar til stórfyrirtækja eins og Microsoft og Shopify, þrátt fyrir skort á sannprófun á bindingunni.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Benediktsson?
Sjá grein Roberts Magnus "Sölumaður ber að dyrum" í Heimildinni 1. júlí 2024.