Rúm 39 prósent landsmanna eru mjög óánægð með þá ákvörðun Bjarna Benediktssonar að gefa út leyfi til veiða á langreyðum næstu fimm árin. Til viðbótar segjast 11,5 prósent vera fremur óánægð með ákvörðunina og því eru samtals um 51 prósent landsmanna óánægð með útgáfu hvalveiðileyfanna.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu, sem gerð var að beiðni Náttúruverndarsamtaka Íslands og Dýraverndunarsambandi Íslands dagana 12.-19. desember.
Tæp 25 prósent segjast mjög ánægð með ákvörðun Bjarna og rúm 10 prósent fremur ánægð og því eru 35 prósent landsmanna ánægð með ákvörðun Bjarna, sem hann gat tekið sökum þess að matvælaráðuneytið færðist í hans hendur eftir að Vinstri græn kusu að taka ekki sæti í starfsstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki fram að kosningum.
Rúm 44 prósent vilja banna hvalveiðar með lögum
Í könnuninni var ekki einungis spurt um ákvörðun Bjarna heldur einnig um hvort fólk væri hlynnt eða andvígt því að banna hvalveiðar með lögum. Fleiri sögðust hlynnt hvalveiðibanni en voru því andvíg, en mjótt er á munum.
Alls eru rúm 44 prósent hlynnt því að hvalveiðar verði bannaðar með lögum, en 39 prósent eru því andvíg. Um 17 prósent þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðust í meðallagi hlynnt eða andvíg því að banna hvalveiðar með lögum.
Konur mun andsnúnari hvalveiðum en karlar
Þegar horft er á niðurbrot könnunarinnar má sjá mismunandi afstöðu ólíkra hópa til hvalveiða. Þannig eru til dæmis 53 prósent kvenna hlynntar því að banna hvalveiðar með lögum, en einungis 36 prósent karla. 48 prósent karla eru andvígir hvalveiðibanni, en einungis 29 prósent kvenna.
Aldurshópar á ólíkum meiði
Afstaðan til hvalveiða er mjög breytileg eftir aldurshópum. Yngsta fólkið er andsnúnast veiðunum, en 56 prósent þeirra sem eru á aldrinum 18-29 ára eru hlynnt því að hvalveiðar verði bannaðar með lögum. Hið sama á einungis við um 33 prósent þeirra sem eru 60 ára og eldri.
Í elsta hópnum eru hins vegar 54 prósent andvíg hvalveiðibanni, en hlutfallið er einungis 25 prósent í yngsta hópnum. Stigvaxandi andstaða er við hvalveiðibann eftir því sem eldri hóparnir eru.
Meirihluti fyrir hvalveiðibanni í Reykjavík en hvergi annarsstaðar
Mikill munur er á afstöðu fólks eftir búsetu. Í Reykjavík segjast 58 prósent svarenda vera hlynnt hvalveiðibanni með lögum og því nokkuð rúmur meirihluti fyrir slíku banni á meðal íbúa höfuðborgarinnar. Einungis 28 prósent borgarbúa eru andvíg hvalveiðibanni, samkvæmt niðurstöðum Maskínu.
Næst mestur eru stuðningurinn við hvalveiðibann í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, en þar eru alls 44 prósent fylgjandi hvalveiðibanni og 40 prósent andsnúin því.
Í landsbyggðunum er hins vegar mikil andstaða við hvalveiðibann, mest á Austurlandi þar sem um 56 prósent svarenda eru andsnúin banni, en hlutfallið er um og yfir 50 prósent á öðrum landssvæðum, samkvæmt könnun Maskínu.
Háskólaborgarar vilja helst banna hvalveiðar
Þegar horft er til menntunarstigs svarenda sést að þau sem eru með háskólapróf skera sig frá öðrum hópum. Um 57 prósent þeirra sem eru með háskólapróf er hlynnt hvalveiðibanni en um 28 prósent þeirra á móti.
Í þeim hópi sem hefur framhaldsskólapróf eða iðnmenntun eru 35 prósent hlynnt hvalveiðibanni en 48 prósent andvíg hvalveiðibanni og hlutfallið er svipað í hópi þeirra sem hafa grunnskólapróf.
Stuðningsmenn flokka utan þings helst á móti hvalveiðum
Lítill munur er á afstöðu hópa til hvalveiðibanns þegar horft er til heimilistekna, en hinsvegar er breytileikinn mjög mikill þegar horft til stjórnmálaskoðana. Athygli vekur að þegar horft er á stuðning við flokka í samhengi við afstöðu til hvalveiðibanns sést að andstaðan við hvalveiðar er mest í þeim hópum sem segja að þeir myndu kjósa flokka sem náðu ekki kjöri á þing í kosningunum í byrjun desember.
Þannig segjast um eða yfir 80 prósent stuðningsmanna Pírata og Vinstri grænna hlynnt hvalveiðibanni og um 65 prósent þeirra sem segja að þau myndu kjósa Sósíalistaflokkinn. Það er raunar nánast sama hlutfall og hjá flokki forsætisráðherra, en um 66 prósent stuðningsfólks Samfylkingar segist hlynnt hvalveiðibanni.
Einnig er meirihluti fyrir slíku banni meðal stuðningsfólks Viðreisnar, en 53 prósent þeirra segjast hlynnt hvalveiðibanni. Hjá þriðja ríkisstjórnarflokknum, Flokki fólksins, er andstaðan við hvalveiðibann hinsvegar meiri en um 44 prósent kjósenda Ingu Sæland segjast andvíg hvalveiðibanni, á meðan að 30 prósent þeirra eru hlynnt því.
Andstaða er við hvalveiðibann hjá fylgismönnum allra þriggja stjórnarandstöðuflokkanna. Tæp 60 prósent framsóknarmanna, 75 prósent miðflokksmanna og 72 prósent sjálfstæðismanna eru andvíg því að hvalveiðar verði bannaðar með lögum á Íslandi.
Athugasemdir