Já, ég byrjaði í gær að rifja upp af hverju tvö Kóreuríki eru til í henni veröld — sjá hlekk á þá grein hér — og þar var komið sögu í júní árið 1950 að her Norður-Kóreu réðist inn í Suður-Kóreu.
Ástæðan var ósköp einfaldlega sú að Kim Il-sung forseti í norðrinu taldi að honum tækist fyrirhafnarlítið að sigrast á her stallbróður síns í suðrinu, Syngman Rhee, því Bandaríkjamenn hefðu lítinn áhuga á að koma Rhee og Suður-Kóreumönnum til hjálpar.
Óhætt er að segja að fyrri hluti sannfæringar Kims hafi reynst hárréttur.
Suður-kóreski herinn varð lítil fyrirstaða fyrir þann norður-kóreska. Norður-Kóreumenn tóku Seúl höfuðborg Suður-Kóreu á örfáum dögum og eftir um það bil sex vikur virtust þeir í þann veginn að vinna fullnaðarsigur.
Suður-Kóreustjórn hélt þá aðeins eftir svolitlu landsvæði við sundið að Japan.
Ástæðurnar fyrir óförum Suður-Kóreumanna voru ýmsar, hernaðarlega.
Norður-kóreski herinn var einfaldlega betur vopnum búinn, betur þjálfaður og naut þess að hafa frumkvæðið. En jafnframt er ljóst að í suðrinu var mikill fjöldi fólks sem hafði engan sérstakan áhuga á að fórna lífi sínu fyrir stjórn Syngman Rhees.
Allt að 200 þúsund morð
Þar var bæði um að ræða fólk sem hafði ekki fyrirgefið honum grimmileg viðbrögð við uppþotum og uppreisnartilraunum 1948, en eiinig mikið af bændafólki sem vissi að bændurnir í Norður-Kóreu bjuggu á þeim tímapunkti við betri lífskjör en þeir.
Það fólk sá því ekkert athugavert við að prófa þjóðskipulag kommúnismans.
Syngman Rhee hafði brugðist við fréttum af þessu með sömu viðbjóðslegu hörkunni og hann sýndi alla jafna. Sumarið 1950 lét hann hermenn sína myrða fjölda Suður-Kóreumanna sem grunaðir voru, með réttu eða röngu, um að hafa samúð með málstað kommúnista og/eða vera einfaldlega á móti stjórn Syngman Rhees.
Og þetta voru ekki bara fáein morð.
Að minnsta kosti 60 þúsund voru drepin þannig með köldu blóði en sumir fræðimenn hallast raunar að því að alls hafi hin myrtu verið 200 þúsund.
Amríski herinn, svo réttsýnn og rogginn ...
Ekki dugði þetta þó til að svipta Syngman Rhee stuðningi Bandaríkjanna.
Það reyndist nefnilega alrangt hjá Kim Il-sung og bakhjörlum hans Stalín og Maó Zedong að Bandaríkin myndu óáreitt láta yfir sig ganga að Norður-Kórea tæki Suður-Kóreu.
Þegar algjört hrun blasti við Suður-Kóreu mætti ameríski herinn í öllu sínu veldi á staðinn og sneri umsvifalaust við blaðinu. Bandaríkjamenn gerðu innrás af sjó þar sem heitir Inchon, skammt frá Seúl, og settu þar á land ógrynni liðs sem náði fljótlega höfuðborg Suður-Kóreu.
Á sama tíma réðist bandarískur her út frá því litla svæði sem Suður-Kóreumenn héldu þá við sundið. Her Norður-Kóreu var orðinn þreyttur og vistalítill eftir stöðuga sókn sína og varð nú að hörfa fljótt til baka til að verða ekki króaður inni í Suður-Kóreu.
Undir fána Sameinuðu þjóðanna
Rétt er að taka fram að hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna fóru fram undir fána Sameinuðu þjóðanna. Þær höfðu að vonum lýst algerri andstöðu við árásarstríð Norður-Kóreu. Margir litu á það sem prófstein á raunverulegt afl hinna nýju alþjóðasamtaka hvort þeim tækist í þetta sinn að koma í veg fyrir að árás einnar þjóðar á aðra skilaði árangri.
Margar þjóðir tóku því þátt í stríðsrekstrinum í Kóreu en engum gat þó blandast hugur um að Bandaríkin réðu algerlega ferðinni hernaðarlega og pólitískt, enda var yfirmaður herliðs Sameinuðu þjóðanna hinn víðkunni bandaríski hershöfðingi Douglas MacArthur og í herliði hans voru Bandaríkjamenn að yfirgnæfandi meirihluta.
Á tveimur vikum hröktust norður-kóreskar hersveitir burt frá Suður-Kóreu. Hersveitir Sameinuðu þjóðanna/Bandaríkjanna héldu þó áfram sókn sinni inn í Norður-Kóreu og var nú ætlunin að hrekja Kim Il-sung frá völdum og sameinaða síðan Kóreuríkin „undir lýðræðislegri stjórn“, eins og komist var að orði í ályktun Sameinuðu þjóðanna.
Stalín þvertók fyrir að hjálpa Kim
Gat þó engum blandast hugur um að þáverandi stjórn Suður-Kóreu, Syngman Rhee og hyski hans, gat sannarlega ekki talist lýðræðisleg á nokkurn hátt.
Þegar kom fram í nóvember 1950 var her Norður-Kóreu kominn að fótum fram og réði aðeins smáræmu meðfram landamærunum að Kína og Sovétríkjunum. Stalín þvertók fyrir að senda Rauða herinn Kim til hjálpar, þó hann sendi honum hergögn, en Maó í Bejing hafði áhyggjur af því að það yrði mikið áfall fyrir nýtilkomna kommúnistastjórn sína í Kína ef kommúnistastjórnin í Norður-Kóreu hrektist frá völdum.
Hann vildi þó ekki hætta á allsherjar stríð við Bandaríkin. Þó ekki væri annað, þá réðu þau yfir kjarnorkuvopnum en Kínverjar ekki.
Og hver var þá leið Maós til að bjarga Kim Il-sung?
Athugasemdir