Kóreuríkin tvö hafa verið í sviðsljósinu undanfarið. Norður-kóreskir hermenn eru orðnir fallbyssufóður á vegum Rússa á vígstöðvunum í Kúrsk en það furðulega uppátæki forseta Suður-Kóreu að skella á skammvinnum herlögum hefur hins vegar hleypt öllu upp í loft í syðri hlutanum.
Því er nú rétt að rifja upp í stuttu máli af hverju Kóreuríkin eru tvö og sömuleiðis sögu þeirra fyrsta kastið.
Athyglisvert er að kóresk tunga er alls óskyld bæði kínverskum tungumálum og japönsku. Bæði það og genarannsóknir hafa gefið til kynna að Kóreumenn hafi verið orðnir sérstök þjóð, aðskilin erfðafræðilega og málfræðilega frá helstu nágrönnum, fyrir allt að 15 þúsund árum.
Kvalist undir japanskri stjórn
Nokkru fyrir upphaf tímatals okkar var háþróuð menning risin á Kóreuskaga og hvert ríkið af öðru. Stundum voru þau fleiri en eitt í senn og börðust innbyrðis, stundum fóru þau með hernaði á hendur nágrönnum sínum, einkum í Mansjúríu, en ella þurftu þau að verjast ásælni Kínverja og/eða Japana.
Sú saga öll verður ekki rakin hér en við lok 14. aldar var komið á legg í Kóreu öflugt sameinað ríki sem nefnt hefur verið Joseon. Næstu aldirnar hélt Joseon-ríkið velli en skömmu fyrir aldamótin 1900 voru Japanir farnir að seilast þar mjög til valda. Um þær mundir var mikill völlur á Japönum og þar var hafin mikil iðn- og hernaðarvæðing á vestræna vísu. Gátu Kóreumenn ekki rönd við reist og 1910 innlimuðu Japanir í raun skagann allan í ríki sitt.
Nú voru Japanir um skeið herrar Kóreu og er óhætt að segja að Kóreumenn hafi unað illa hag sínum. Þeir máttu þola mikinn yfirgang, grimmd og arðrán í eigin landi. Allar tilraunir til andófs voru barðar niður af mikilli hörku.
38. breiddarbaugur
Árið 1945 hrundi veldi Japana hins vegar þegar þeir biðu ósigur fyrir Bandaríkjamönnum í síðari heimsstyrjöldinni. Þá ákváðu Bandamenn að bandarískar hersveitir skyldu hertaka Kóreuskagann norður að 38. breiddarbaug en sovéskar hersveitir tækju svæðið þar norður af.
Með tíð og tíma skyldu Kóreumenn sjálfir svo ákveða stjórnarfar sitt og framtíðarskipan mála þótt ekki væri kveðið á um smáatriði í því sambandi.
Tekið skal fram að ekkert sérstakt réði því að miðað var við 38. breiddarbaug annað en að hann skipti skaganum nokkurn veginn í tvennt.
Fram að 1945 hafði sem sé ekki verið neinn menningarlegur, sögulegur eða félagslegur munur á Kóreumönnum eftir því hvort þeir bjuggu í norðrinu eða suðrinu.
Nú er það svo að strax og heimsstyrjöldinni lauk hófst þvílík togstreita milli sigurvegaranna, einkum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, að fljótlega var farið að tala um „kalda stríðið“ millum þeirra. Og nú vildi hvorugur aðili gefa hinum færi á sínum parti Kóreuskagans. Fór svo að árið 1948 stofnuðu Sovétmenn svonefnt alþýðulýðveldi í norðurhlutanum en Bandaríkjamenn lýðveldið Kóreu í syðri hlutanum.
Fanturinn Syngman Rhee
Yfir þessi nýju ríki settu stórveldin sína menn. Þjóðernissinnaður stjórnmálamaður var settur yfir Suður-Kóreu, Syngman Rhee, var hann kallaður á Vesturlöndum, en forseti Norður-Kóreu varð Kim Il-sung.
Hófst nú mikil persónudýrkun á Kim í norðrinu og látið var í veðri vaka að hann hefði stýrt öflugri andspyrnuhreyfingu gegn Japönum í heimsstyrjöldinni en öll sú hetjusaga mun þó hafa verið mjög ýkt — vægast sagt.
Syngman Rhee var ekki fínni pappír en Kim. Hann hafði að vísu verið á sinn hátt ötull baráttumaður fyrir frelsun Kóreu undan Japan en þegar hann var kominn til valda í Suður-Kóreu var hann ekki lengi að sýna og sanna að hann var fyrst og fremst stjórnlyndur fantur.
Til harðra mótmæla og uppþota kom gegn honum strax 1948 en hann bældi það niður með gríðarlegri hörku og munu tugþúsundir hafa látið lífið.
Bandaríkjamenn létu sér það lynda því þótt Syngman Rhee væri skíthæll var hann klárlega „þeirra skíthæll“ eins og gjarnan var komist að orði í kalda stríðinu. Og hann hafði svarið þess dýran eið að vernda Suður-Kóreu fyrir kommúnismanum.
Kim Il-sung í Norður-Kóreu vildi hins vegar fyrir alla muni sameina alla Kóreu undir sinni stjórn.
Kim nauðar um að fá að fara í stríð
Hann hafði komið sér vel fyrir í norðrinu og um þetta leyti voru lífskjör alþýðunnar í Norður-Kóreu umtalsvert betri en í Suður-Kóreu, og var svo áfram lengi vel.
Um það verður fjallað nánar síðar en Kim Il-sung taldi sig altént hafa ástæðu til að ætla að almenningur í suðrinu tæki því bara vel ef hann yrði frelsaður undan leppstjórn Bandaríkjanna og Syngman Rhee.
Kim nauðaði í Stalín að fá að fara með hernaði gegn Suður-Kóreu en lengi vel bannaði Stalín slíka ævintýramennsku.
Sársaukafull og erfið uppbygging eftir hörmungar heimsstyrjaldarinnar var þá í miðju kafi í Sovétríkjunum.
Þá var Stalín að upplagi varkár maður og taldi lengi vel enga ástæðu til að efna til átaka út af Kóreu.
Í upphafi árs 1950 hélt Dean Acheson utanríkisráðherra Bandaríkjanna hins vegar örlagaríka ræðu þar sem hann lýsti því yfir að Bandaríkin hefðu myndað eins konar varnarsvæði gegn ágangi kommúnista — en kommúnistar höfðu þá fyrir tæpu hálfu ári náð völdum í Kína líkt og í Sovétríkjunum.
Innan þessa varnarsvæðis voru, að sögn Achesons, bæði Japan og Filippseyjar en hann nefndi ekki Kóreu.
Stalín gefur stríðsleyfi
Af því dró Stalín þá ályktun að Harry Truman Bandaríkjaforseti myndi ekki kveðja út bandarískan her ef Kim Il-sung gerði árás á Suður-Kóreu og féllst því á það á fundi þeirra Kims í Moskvu í apríl 1950 að norður-kóreski herinn réðist suður yfir 38. breiddarbaug.
Norður-kóreski herinn var þegar mjög vel búinn nýjustu hergögnum úr verksmiðjum Sovétríkjanna.
Af hálfu Stalíns var leyfi Kims til að fara í stríð þó háð því að Kínverjar væru því samþykkir og myndu draga vagn Kims ef á þyrfti að halda.
Sjálfur ætlaði Stalín hins vegar ekki Rauða hernum að taka eiginlegan þátt í hinu yfirvofandi stríði.
Kim Il-sung brunaði nú á brynvarinni járnbrautarlest sinni til Bejing og fékk þar uppáskrift Mao Zedongs formanns fyrir að hefja stríð.
Og þann 25. júní 1950 ræstu hermenn Kim Il-sungs skriðdreka sína og héldu yfir 38. breiddarbaug og hófu þar með Kóreustríðið sem átti eftir að standa í þrjú og kosta ógrynni mannslífa.
Og færa mannkynið í fyrsta sinn fram á barm kjarnorkustríðs.
Frá því segir síðar.
Athugasemdir